fbpx
Danny G gegn ÍA vefur

Puttinn

Fingur sá sem á íslensku nefnist langatöng gekk á tímum Rómverja oft undir heitinu „dicitius impudicus“ sem útleggja mætti sem ruddalegi eða ósiðsamlegi fingurinn. Það vísaði í heldur óheflaða kveðju götustráka, sem lyftu ruddalega fingrinum einum á loft til að segja fólki að fara í rass og rófu. Að sýna puttann er þannig ævagömul hefð í vestrænni menningu. Sumir myndu jafnvel segja að það sé eitt af því sem geri okkur að Evrópumönnum.

Í kvöld ákvað Jón þjálfari að grípa til þessa gamla menningararfs og sýna bikarkeppni KSÍ puttann. Þetta er árið þar sem Knattspyrnufélagið Fram hefur ákveðið að leyfa Úlfunum að vinna bikarinn. Okkar áhersla er alfarið á deildina.

Fregnir af þessari drastísku ákvörðun þjálfarans kvisuðust út í litlum skömmtum í dag. Vaskur hópur Framara mætti í Sambamýri laust fyrir kl. 18 til að fjölmenna í hópferðabíl á vegum félagsins. Rúta þessi var kannski ekki eldri en sólin, en í það minnsta talsvert eldri en hvers konar fjöðrunarbúnaður. Fréttaritarinn og skjaldsveinninn Valur Norðri tróðu sér óðar í partýsætin aftast en átti eftir að iðrast þess eftir nokkrar hraðahindranir á leiðinni. Á meðan á glæfraförinni stóð hvískruðu ferðafélagar sín á milli fregnir af því að hvorki Albert né Fred yrðu með. Eitthvað var talað um meiðsli – og svo hreinlega vilja til að hvíla menn fyrir erfiðan slag á Seltjarnarnesi á sunnudag.

Í ljós kom að það voru ekki bara Albert og Fred sem voru fjarri góðu gamni. Aðalliðinu hafði nálega öllu verið skipt út og nýir menn settir í staðinn. Heimildum bar ekki saman um hvort breytingarnar hefðu verið átta eða níu!

Stefán hinn ungi frá Hveragerð stóð á milli stanganna. Miðherjaparið voru þeir Hlynur og Aron Kári. Bakverðir Matthías Kroknes og Haraldur, sem var í raun eini fasti pósturinn úr vörninni. Danny Guthrie var aftastur á miðjunni og byrjaði þar með sinn fyrsta leik. Óskar og Indriði voru þar fyrir framan. Aron Snær og Már á köntunum og Gummi Magg fremstur.

Andspænis slíkum liðsbreytingum hefði verið freistandi fyrir fréttaritara að segjast ekki hafa vitað hvaðan á hann stóð veðrið – en það hefði verið ósatt. Leikurinn fór fram á Akranesi og þar er maður alltaf mjög meðvitaður um það. Framarar höfðu nokkuð stífan vind í bakið í fyrri hálfleik og í fangið í þeim seinni. Að öðru leyti var glampandi sól og lofthiti nokkuð hár. Kjöraðstæður miðað við Skipaskaga.

Í fljótu bragði séð virtust Framarar í stúkunni og grasbölunum vera ívið fleiri en heimamenn og ólíkt háværari. Kristján Freyr hefur á löngum ferli barið húðir með ófáum hljómsveitum, en allt hafa þetta verið vörður í leið að því lokatakmarki að tromma með Geiramönnum. Almenn gamanmál og hnyttni okkar mæltust vel fyrir og glöddu sérstaklega Jóhannes Guðjónsson og dómaratríóið í fagurgulum sokkum sínum sem eflaust eiga eftir að koma að góðum notum við páskaföndur í framtíðinni.

Að skipta út nánast heilli varnarlínu og markverði er alltaf háskaleikur og það sannaðist rækilega í blábyrjun leiksins á meðan vörnin var að reyna að ná vopnum sínum. Eftir einungis tíu mínútna leik var staðan orðin 2:0 fyrir heimamenn. Fyrst eftir stungusendingu upp úr engu á fimmtu mínútu og svo úr vítaspyrnu sem erfitt var að sjá fyrir hvað væri dæmd.

Þegar hér var komið sögu höfðu Framarar átt fáein hálffæri en sendingar yfirleitt reynst of langar eins og leikmenn áttuðu sig ekki á vindinum. Um miðjan hálfleikinn virtist Framliðið vera að ná undirtökunum en fékk þá þriðja markið í andlitið upp úr engu eftir skyndisókn og einbeitingarleysi í vörninni. Skagamenn komnir með 3:0 forystu eftir fjórar sóknir.

Það sem eftir lifði hálfleiknum áttu okkar menn nokkur hálffæri, oftar en ekki eftir ágætar rispur upp kantana. Már fór þar fremstur í flokki og lék Skagamenn oft grátt, en erfiðlegar gekk að breyta þessum atölgum í alvöru marktækifæri.

Í leikhléi örkuðu fréttaritarinn og skjaldsveinninn kringum hálfan völlin til að komast í kamar og veitingasölu – til þess eins að uppgötva að flest matarkyns var uppurið þeim megin en að bak við stúkuna þar sem við sátum mátti finna gullklósett og pizzur á stærð við mylluhjól eða Sívaliturna. Gúffuðum þessu í okkur með vaskt sjósundslið fyrir augunum.

Seinni hálfleikur var nýhafinn þegar átveislunni lauk. Ásgrímur formaður hafði þó gætt þess að hlaupa í skarðið fyrir fréttaritarann og punkta niður helstu skiptingar í hléti. Haraldur og Matthías fóru af velli en Kyle og Aron Þórður komu inn. Með þeirri breytingu komst öllu meiri ró á varnarleikinn.

Aron Snær var nærri því að minnka muninn á 53. mínútu en ágætur Skagamarkvörðurinn varði. Mun meiri deyfð var þó yfir leiknum en verið hafði í fyrri hálfleik. Eins furðulega og það hljómar léku Framarar öllu betur í fyrri hálfleiknum sem þeir töpuðu 3:0 en í þeim seinni sem lauk með markalausu jafntefli.

Þórir kom inn fyrir Aron Kára eftir klukkutíma og fljótlega á eftir kom Tryggvi inn fyrir Indriða Áka. Í síðustu leikjum hefur Guðmundur Magnússon komið eldheitur af bekknum en í kvöld náði hann ekki að finna sig og góð stunga á hann á 70. mínútu skilaði engu. Þremur mínútum síðar var bylmingsskot hans vel varið – en í millitíðinni þurfti Aron Þórður að sýna hetjulegan varnarleik þegar einn Skagamaðurinn virtist sloppinn einn í gegn.

Danny Guthrie er hægt og bítandi að komast í leikform. Hann fór í kvöld af velli þegar stundarfjórðungur var eftir. Þess er varla langt að bíða að hann geti tekið heilan leik. Gunnar kom inn í staðinn.

Áframhaldandi misnotkun hálffæra einkenndi spilamennskuna næstu mínúturnar og má teljast ansi slakt að engin sókn hafi skilað marki. Ekki þó svo að skilja að Skagamenn hafi ekki átt sínar sóknir líka. Þannig virtist Gunnar brjóta á einum Skagamanninum sem sloppinn var í gegn þegar um tíu mínútur voru eftir. Framarar í stúkunni prísuðu sig sæla yfir að heyra ekki í flautunni og sjá rautt spjald á lofti. Dómarinn gaf merki um að leika áfram og þá heimtuðum við vitaskuld einum rómi gult spjald á þann gulklædda fyrir dýfu – því þannig gerum við.

Síðustu mínúturnar voru hálfgerð leikleysa þar sem ÍA hefði auðveldlega getað bætt við 1-2 mörkum. Lokatölur urðu hins vegar skrítið 3:0 tap, þar sem áhorfendur áttu bágt með að verjast þeirri tilfinningu að þjálfarinn hafi beinlínis ákveðið að Fram ætlaði ekki að heiðra 16-liða úrslitin með nærveru sinni. Sú hugsun flögrar að manni að líklega hefðum við unnið Skagamennina með mikið breytt lið ef minna hefði verið fiktað í vörninni, það hefði amk alltaf orðið leikur. En takist okkur að vinna á Seltjarnarnesi á sunnudaginn verður þetta allt þess virði – og plís ekki draga Skagann á móti e-u bumbuboltaliði í næstu umferð.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email