fbpx
Kyle vefur

Hefðbundin aðalfundarstörf

Þá sjaldan sem fréttaritari Framsíðunnar er ekki að glápa á fótboltaleiki Sambamýrarstórveldisins eða yngri flokkaleiki minni spámanna, er hann pólitískur aktívisti. Hann berst gegn vígvæðingu, hernaðarbrölti og bandarískri heimsvaldastefnu. Það er skítadjobb en einhver verður að gera það.

Félagsmálavafstri fylgja endalausar fundarsetur á öllum tímum vikunnar. Þessi súldarlegi sunnudagur var frátekinn fyrir aðalfund Friðarhúss með tilheyrandi kaffiþambi og yfirlegu reikninga. Fréttaritarinn þurfti því að leita í smiðju ökuþórsins Evil Knievel þegar hann hentist í loftköstum milli Snorrabrautar og róta Valhúsahæðar. Á báðum stöðum var boðið upp á hefðbundin aðalfundarstörf.

Eftir hinn skringilega bikarleik síðustu viku bauð Nonni þjálfari upp á kunnuglegri uppstillingu á móti Gróttu. Þó með þeirri undantekningu að Albert var utan hóps, á enn við meiðsli að stríða og Fred byrjaði á bekknum. Munar um minna enda hefur fótboltapressan keppst við að hlaða lofi á þá félaga og útnefna bestu menn Lengjudeildarinnar.

Ólafur stóð í markinu. Varnarlínan sú sama og fyrr: Alex, Kyle, Gunnar og Haraldur, með Aron Þórð aftastan á miðjunni. Már og Tryggvi hvor á sínum kanti. Óskar og Indriði Áki fremst á miðjunni og Þórir uppi. Bekkurinn öflugur sem fyrr.

Seltirningar leika heimaleiki sína á Vivaldi-vellinum, sem er eftir krókaleiðum dregið af nafni ítalska tónskáldsins Antonio Vivaldi. Hann er fyrst og fremst kunnur fyrir verk sitt „Árstíðirnar fjórar“. Er það kúnstugt nafnaval í sveitarfélagi þar sem er alltaf haust.

Það var þokumugga á vellinum en hlýtt í veðri og furðumikið logn miðað við aldur og fyrri störf. Framarar fjölmennir í stúkunni og létu vel í sér heyra. Vals Norðra og markafleygsins var sárt saknað, en hann var á síðustu stundu ræstur út til að keyra bíl norður á Melrakkasléttu, sem er ekki það glamúrös verkefni sem ætla mætti af dægurlagatextum Helga Björns.

Framarar komu ákveðnir til leiks og fyrstu tuttugu mínúturnar áttum við þau fáu færi sem nokkuð kvað að. Þórir var nærri búinn að stela háskalegri sendingu Gróttumanna aftur á markvörð sinn og Tryggvi átti bylmingsskot sem varnarmaður Gróttu náði að komast fyrir.

Enginn skyldi þó vanmeta Gróttuliðið, sem er mun sterkara en staðan í deildinni segir til um. Leikmenn þeirra spila fast og eru ekki smeykir við að toga í treyjur. Framarar eru lið sem þorir að taka á móti og því var harka í leiknum frá fyrstu stundu. Þorvaldur dómari hafði í nægu að snúast, en naut blessunarlega góðrar ráðgjafar frá Geiramönnum sem eru gjöfulir áhorfendur og ætíð reiðubúnir að leggja gott til málanna og kenna aðstoðardómurum undirstöðuatriði rangstöðureglunnar.

Eftir fremur slaka byrjun tókst heimamönnum að vinna sig jafnt og þétt inn í leikinn og um miðjan fyrri hálfleik áttu þeir nokkrar prýðilegar sóknir og skutu m.a. í slá úr aukaspyrnu. Heyra mátti kurr í áhorfendahópnum, enda mannskapurinn orðinn vanur yfirburðum í flestum leikjum í sumar.

Framarar vöknuðu aftur til lífins þegar fór að líða að leikhléi. Már og Tryggvi áttu báðir ágætar rispur en herslumuninn vantaði yfirleitt. Rétt fyrir hlé átti Halli prýðilega sendingu inn í vítateig eftir hornspyrnu þar sem Þórir skallaði í stöng.

Eftir nokkur aðalfundartengd símtöl lá leið fréttaritarans í veglegt matartjald Gróttumanna sem eru sundurgerðarmenn á matarsviðinu. Í stað hefðbundinna fótboltavallarhamborgara buðu Seltirningar upp á Mexíkóborgara með kartöfluflögum og jalepeno-mæjónesi. Með þessu var drukkið svart Merildkaffi. Hvort tveggja fær bestu meðmæli.

Ágúst Gylfason nestaði sína menn greinilega vel í hléi því Gróttumenn byrjuðu mun betur og höfðu stjórn á leiknum fyrstu tíu mínútnar. Náðu þó ekki að skapa sér neitt stórhættulegt. Að lokum rönkuðu Framarar þó við sér og komust í hörkufæri eftir tæplega klukkutíma leik, þar sem Óskar átti fína sendingu á Þóri sem hefði líklega nælt sér í vítaspyrnu ef hann hefði ekki staðið óþarflega mikið í lappirnar og Gróttumenn sluppu með skrekkinn.

Tveimur mínútum síðar dró til tíðinda. Framarar fengu hornspyrnu, tóku hana stutt og boltinn barst til Arons Þórðar sem kom aðvífandi og lét skot ríða af vel fyrir utan vítateig. Spyrnan breytti rækilega um stefnu af Gróttumanni og sveif í fallegum boga í markhornið. 0:1 og afmælisbarnið komið á blað.

Það væri synd að segja að markið hafi legið í loftinu og voru þeir Jón og Aðalsteinn búnir að undirbúa þrefalda skiptingu. Þeir ákváðu að halda henni til streitu þrátt fyrir markið og komu þeir Guðmundur, Fred og Danny Guthrie inná fyrir Má, Þóri og Óskar.

Hurð skall nærri hælum nokkrum mínútum síðar þegar Gróttumaður skallaði í markstöng. Það var þó síðasta háskalega færi heimamanna í leiknum. Framarar sigldu þremur stigum í höfn og voru raunar nærri því að auka forskotið á lokamínútunni þegar skot frá Aroni Snæ var naumlega varið, en Aron Snær og Hlynur höfðu komið inná fyrir þá Tryggva og Indriða nokkru fyrr.

Sú ákvörðun að láta bikarkeppnina flakka í ár lítur öllu skár út í ljósi þessa sigurs. Fullt hús stiga eftir átta leiki er magnaður árangur – en þó ekki einsdæmi í næstefstu deild karla. Árið 1976 unnu Eyjamenn fyrstu átta leiki sína í níu liða deild. ÍBV lauk þá keppni á toppnum með 28 stig í tveggja stiga reglu og með 50 mörk í plús! Þremur árum síðar urðu Eyjamenn Íslandsmeistarar í fyrsta sinn.

Bölsýnisfólk í hópnum horfir hins vegar til ársins 1964, en þá unnu Eyjamenn alla átta leiki sína í Suðurlandsriðli 2. deildar, en töpuðu síðan í hreinum úrslitaleik gegn Íþróttabandalagi Akureyrar. Ekki er sopið kálið…

Næsti leikur Framara er gegn Grindvíkingum, sem munu mæta vel undirbúnir, enda sást Sigurbjörn þjálfari þeirra norpandi undir staur að taka punkta. Þar verður þó enginn fréttaritari, því hann hyggst sleikja sólina og Brynjuís á N1-fótboltamóti í lok vikunnar. Og leikurinn gegn Kórdrengjum gæti staðið tæpt vegna annarra skyldna. Þetta er auðvitað engin frammistaða!

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email