fbpx
Markmaðurvefu r

Pfizer, planið og bleikir sokkar.

Þeir fjölmörgu bláklæddu Frammarar sem lögðu leið sína í Sambamýrina í kveld voru pínu óöruggir og ráðvilltir til að byrja með er leiktíminn nálgaðist. Margir hverjir að koma beint úr seinni Astra sprautunni, sem breyttist skyndilega í Pfizer þegar leið á daginn – bíðandi eftir einkennum nanó-tækninnar og hrósandi happi yfir því að hafa fengið sprautu frá Uxavaði eða Ameríku en ekki frá Dolly Parton eða barnapúðursframleiðenda. En áhyggjurnar og óöryggið stöfuðu ekki af bóluefnainntöku í gegnum vinstri öxlina, heldur því að Stefán Pálsson var hvergi sjáanlegur. Þessi léttklæddi og bansalegi aðgerðarsinni sem sumir halda að sé orðið formlegt lukkudýr klúbbsins á meðan aðkomumenn halda að maður í gulu vesti sé ekkert annað en vallarstarfsmaður og hefur hann fengið ófáar spurningar um hólfaskiptingu og klósettstaðsetningar. Það kvissaðist reyndar fljótt út meðal áhorfenda að hann væri staddur fyrir Norðan að styðja yngri son sinn í að sparka í tuðru fyrir rauðklædda Valsmenn á milli þess sem hann svæfi í litlu loftlausu kúlutjaldi úr Rúmfatalagernum – Turk182. 

En hvernig myndi honum eftir að vegna í hitabylgjunni fyrir Norðan, þegar hann klæðist ávallt stuttermabol og upplituðu vesti á Framleikjum um leið og hitamælirinn hættir að sýna tveggjastafa mínusgildi? Þar sem undirritaður tekur hlutverk sitt sem skjaldsveinn alvarlega, þá höfum við Stefán ekki aðeins elt knattlið Fram um allar kroppagrundir, heldur höfum við ásamt góðum hópi manna elt knattlið Lutonborgar á fjölmarga krummaskurði á Englandi. Hefur því fylgt óþarflega náin samvera á litlum gististöðum, í litlum bæjarfélögum, með litlum hálftvíbreiðum rúmum. Er skjaldsveinninn ávallt rúmfélagi aðgerðarsinnas heitfenga í þessum ferðum og geta lesendur ímyndað sér hvernig náttklæðnaður hans sé  við þessar aðstæður – þegar hann er jafn lítill við daglegt amstur og raun ber vitni. 

Og til að bæta gráu ofan á kolsvart og gera Framara fullkomlega óörugga í sinni tilveru, þá vantaði einnig Kristján Frey, trommarann hjartahreina frá Hnífsdal sem lamið hefur sauðshúðir að undanförnu við góðan orðstýr, lengi getur vont versnað. Því fékk skjaldsveinninn það hlutverk að skrifa stutta leiklýsingu í fjarveru þessara sómapilta.

En snúum okkur nú að leiknum – eða allt að því. Þegar KSÍ birti leikjaniðurröðunina sáu flestir Framarar að útileikur í september í Grindavík væri líklega ekki alveg málið fyrir Framherja. Vænta mætti að völlurinn í Grindavík yrði kominn undir hraun á þeim tíma og því mætti búast við að leikjunum yrði „svoppað“ eins og ungdómurinn kallar þetta nútildags á meðan hann hjálpar foreldrunum að uppfæra Onlyfans síðuna sína. En af hverju talar enginn um þessa hættu, þ.e. hraunhættuna, ekki Onlyfans hættuna? Almannavarnir eru fámálar og helstu aðgerðir hingað til við að stöðva hraunrennslið hafa falist í því að senda eina gröfu eða litla jarðýtu til skiptis á svæðið tímabundið til að leika sér á meðan allir vita að það á pari við að senda meðalstóra leikskóladeild að taka húsgrunn.

Hverju sætir þetta aðgerðarleysi, hvar eru alvöru aðgerðir, hvert er planið, hvar er skjaldborgin? Skjaldsveinninn hefur það úr innsta hring að hér sé í gangi ákveðið og útsmogið plan sem menn séu ekki að bera á nettorg almúgans að óþörfu. Innskot skjaldsveins: hér ber mönnum og konum að passa sig á því að ruglast ekki við „Planið“ með stórum staf hjá Orkuveitunni hér um árið sem fólgst í því að bjarga fjárhagnum með því að tvöfalda verðskránna og reka safnvörðinn léttklædda. Stjórnmálamenn sem komu að þessu Plani hömpuðu sjálfum sér ítrekað í fjölmiðlum fyrir ráðvendi á meðan almenningi blæddi og ungdóminn skortir allt orkulæsi, eftir lokun Orkuheima.

EN – aftur að útsmogna planinu með litla upphafsstafnum. Menn sem sótt hafa Grindavík heim vita að völlurinn er í útjaðri bæjarins (gosmegin) og þar er ávallt nokkur vindur, jafnvel rok eða stinningskaldi. Ekki er gróðri þar fyrir að fara þarna sem gæti bundið rokið og því vantar vegg og felst planið í því að bíða með allar aðgerðir þar til hraunið er komið að vallarsvæðinu. Þá verður gripið í vökvunartól vallarins og vatni dælt sem aldrei fyrr á hraunið til að byggja upp skjólveggi í kringum hann. Þetta er metnaðarfullt plan og verður spennandi að sjá skjólbesta vallarsvæði landsins verða til með afar litlum tilkostnaði, í boði Almannavarna og móður náttúru. Menn þurfa ekki annað en að horfa á nýja búninga Grindavíkurliðsins til að átta sig á planinu – lifi skjólið.

Uppstilling Framliðsins var nokkuð hefðbundin enda Jón Sveinson hefðarsinni fram í fingurgóma. Engan Má lengur að finna í liðinu, en annað var viðbúið. Óli í markinu, Kyle og Gunnar í miðri vörninni, Hallli og Alex í fúllbakk stöðunum. Aron og Danny á miðri miðju, Fred og Tryggvi á könntunum og Albert nokkuð framarlega og Þórir enn framar.

Gengi Grindavíkur í deildinni hefur verið framar vonum en spámenn settu þá á fjórða bekk fyrir mót. En við Framarar vitum betur að öll lið sem innihalda töframanninn Tiago Fernandes geta verið skeinuhætt og þau ber ekki að vanmeta. Sér í lagi þar sem þeir komu í Sambamýrina á síðasta ári og tóku 3 stig frá okkur með marki á lokamínútu leiksins, í leik sem hefur gengið allt frá því undir nafninu „Þjófnaður ársins“.

Fyrri hálfleikur einkenndist af nokkru taktleysi hjá okkar mönnum þar sem sendingar voru yfirleitt ekki að rata rétta leið. Mikið stöðubarátta í gangi og menn uppteknari við að fá gul spjöld heldur en að finna taktinn og sýna sambatakta. Óli átti nokkrar afburða markvörslur í fyrri hálfleik og nokkuð illa gekk mönnum að ráða við Dion Acoff, kantmann Grindvíkinga, þetta þema átti reyndar eftir að smitast óþarflega mikið yfir í seinni hálfleik, þ.e. Óli varði og Dion fékk ofmikið pláss.

Markalaust var í hálfleik og voru Frammar heldur ánægðir bara með þá stöðu í kaffihléinu. Í hálfleik kom Mattías Kroknes inná fyrir Alex og var hann ekki búinn að vera lengi inná þegar hann varpaði boltanum yfir á Gunna sem var umkringdur a.m.k. 8 bleikum sokkum en náði samt að skora. Strax í kjölfarið fékk Þórir færi leiksins, einn gegn markverði Grindavíkur en náði að skjóta í hann af stuttu færi. Strax í kjölfarið jafna þeir með einföldu og frekar fyrirsjáanlegu marki, fyrirgjöf og skalli.  Albert lauk leik eftir 70 mín og Óskar leysti hann af. Í framhaldinu vorum við líklegri og það kom ekki á óvart þegar Mattías tók léttan þríhyrning við Tryggva sem setti hann í hornið – game on.

Þarna kom Guðmundur inná fyrir Þórir en Grindvíkingar fengu greinilega ekki minnisblaðið að nú ættu þeir að lúta í gras og endurtóku markuppskriftina sína og endaði það með snotru marki eftir gauf okkar manna með boltann. Eftir þetta átti Óskar ágætt færi sem endaði í týndum bolta og Alexander og Hlynur komu inná fyrir Fred og Danny. Leikurinn fjaraði út og áhorfendur vissu ekki alveg hvort þeir ættu að fagna eða vera pínu fúlir. Líklega voru þetta nú sanngjörn úrslit þegar upp var staðið. Að mati skjaldsveinsins átti Ólafur Íshólm hljómplötu að eigin vali frá Steinum hf og út að borða á Laugarási skilið fyrir sinn leik – flottar vörslur og almennt öryggi í öllum aðgerðum leiksins.

Það er öllum ljóst að þetta jafntefli skrifast alfarið á Stefán Pálsson, hefði hann mætt hefði ekki verið þetta óöryggi hjá áhorfendum sem smitaðist út á völlinn í fyrri hálfleik. En jæja – upp með sokkanna, næsti leikur strax eftir helgi við Kórdrengina í Sambamýri, en þeir hljóta að mæta grimmir til leiks enda stutt yfir á Grensásveg. Sjáumst þá!

Skjaldsveinninn

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!