fbpx
Óskar vefur

Kjúklingur í matreiðslurjóma

Ein af örfáum meinsemdum í alþýðulýðveldi Katrínar Jakobsdóttur er skortur á góðu kjúklingakryddi. Einu sinni var hægt að fá prýðisgott krydd í stórum staukum sem nota mátti til að drekkja bringunum á pönnunni. En það er horfið úr hillum verslananna og það skásta í boði er aumkunarverður smástaukur frá Knorr sem dugir ekki upp í nös á ketti og er einfaldlega ekki með réttu MSG-blönduna.

Þessar hugleiðingar sóttu á fréttaritarann þegar hann kepptist við að elda kvöldverðinn í kapp við klukkuna. Enginn sem varið hefur jafnmiklum tíma með matvælafræðingnum Val Norðra og sá er hér stýrir lyklaborði myndi láta sér til hugar koma að fullelda ekki ferskan kjúkling. Bringurnar mölluðu lúshægt í matreiðslurjómanum á meðan stórivísir eldhúsklukkunnar óð áfram.

Um leið og holdið breyttist úr fölbleiku í mjallhvítt var matnum skellt á borðið og skóflað í sig. Kjötið bragðaðist eins og gúmmí og hrísgrjónin voru ofsoðin. Ekki þó að fréttaritarinn hafi gefið sér mikinn tíma til að spá í fínni blæbrigðum máltíðarinnar, hitaeiningaþörfinni var fullnægt á hlaupum til að missa ekki af neinu. Þar skyldi öllu stærri kjúklingum slátrað í Mosfellsbæ, miðstöð kampýlóbakterframleiðslu á landinu.

Það var ekki fyrr en komið var upp í miðja Ártúnsbrekku að það rann upp fyrir fréttaritaranum að það lá ekki alveg svona mikið á. Leikurinn byrjaði ekki klukkan sjö heldur fimmtán mínútum síðar. Það var því tími til að aka hægt og rólega framhjá því Shangri-La sem Grafarholts- og Úlfarsárdalshverfin eru orðin. Fegursta byggð Reykjavíkur? Það segja margir – og eigum við enn eftir að ræða mannauðinn!

Þessi hálfmisheppnaða tímastjórnun gerði það að verkum að fréttaritarinn kom að vallarhliðinu nánast um leið og góðglaðir Geiramenn sem höfðu ákveðið að mæta snemma og nota ferðagjöfina sína á þorpskránni. Fólk dreif að úr öllum áttum. Það var hörkugóð mæting á völlinn í kvöld en Framarar í augljósum meirihluta.

Liðsuppstillingin kom nokkuð á óvart og fasta pósta vantaði í vörnina. Alex tók út leikbann en þeir Aron Þórður og Gunnar voru báðir á bekknum. Heyrðist sú tilgáta að Nonni og Aðalsteinn hafi ákveðið að hvíla þá í þessum leik þar sem báðir eru á þremur gulum spjöldum, til að taka enga sénsa fyrir Eyjaleikinn mikilvæga í næstu viku.

En maður kemur í manns stað. Óli var vitaskuld í markinu. Miðverðir voru Kyle og Hlynur Atli sem kom á ný inn í liðið og tók vitaskuld við fyrirliðabandinu. Halli og Óskar byrjuðu sem bakverðir. Danny Guthrie aftastur á miðjunni Indriði Áki og Albert þar fyrir framan. Tryggvi og Fred á köntunum og Þórir uppi á toppi.

Þrátt fyrir stöðu sína sem miðstöð hænsnfuglaframleiðslu virtist nautakjöt uppistaðann í hamborgurunum sem heimamenn steiktu af miklum móð. Þær grillæfingar fóru ekki framhjá neinum meðan á leik stóð og reykinn lagði yfir áhorfendastúkuna. Hún var annars með líflegasta móti í kvöld. Mosfellingar eiga mjög fjörlega stuðningssveit sem klappar og syngur allan tímann. Vissulega var hluti hvatningarópanna á þermistiginu en það fyrirgefst vegna ungs aldurs. Frábært fyrir þessa líflegu Aftureldingarstráka að fá að læra af Geiramönnum bumbuslátt og stuðningslög. Aðdáun þeirra var auðsæ og fölskvalaus. Þessir krakkar eiga eftir að búa að þessu lengi!

Framarar byrjuðu leikinn af meiri krafti og voru mun sterkara liðið fyrstu tuttugu mínúturnar en þó án þess að skapa sér nein verulega afgerandi færi. Ágætt spil fyrir framan Aftureldingarvörnina rann oftar en ekki út í sandinn þegar síðasta sendingin reyndist ekki alveg nógu nákvæm eða sóknarmennirnir hugsuðu ekki fyllilega í takt. Dómarinn setti snemma þá línu að leyfa talsverða snertingu og flautaði lítið og spjaldaði nánast ekkert. Þetta fór nokkuð í taugarnar á sumum leikmönnum en varð þó ekki til þess að leikurinn leystist upp í vitleysu svo líklega verður að segjast að maðurinn með flautuna hafi komið vel frá kvöldinu.

Eftir rúmlega stundarfjórðung settist Guthrie á völlinn og þátttöku hans var lokið. Ekki var að sjá að um neitt samstuð hafi verið að ræða, líklega einhver smátognun. Aron Kári kom inná í bakvörðinn en Óskar fór í staðinn inn á miðjuna.

Þessi skipting virtist aðeins riðla spili okkar manna, í það minnsta fóru heimamenn að gera sig meira gildandi. Framvörninni gekk á köflum brösulega að koma boltanum í burtu og hornspyrnur, sem hafa ekki vafist fyrir okkur í sumar, reyndust hættulegar. Þurfti Óli að grípa inní í fáein skipti, þar af tvisvar með stórglæsilegum hætti. Fágæt mistök hjá Kyla gáfu svo Aftureldingu sitt hættulegasta færi eftir rétt rúman hálftíma, en framherji þeirra skaut yfir rétt fyrir framan markið.

Framarar á pöllunum voru heldur farnir að ókyrrast yfir þessari ófyrirséðu og ófyrirleitnu mótspyrnu. Mark virtist liggja í loftinu og hætt við því að gorgeirinn í Hvolpasveit Mosfellinga myndi aukast um allan helming. Og markið leit dagsins ljós, en það gerðist hinu megin á vellinum! Óskar fékk boltann rétt fyrir utan vítateig og leitaði að samherja til að senda á. Enginn gaf sig fram og heimamenn mættu honum ekki af krafti, svo það var ekkert annað í stöðunni en að spila inn í teig og láta skot ríða af. Boltinn lá í netinu og Fram komið með forystu, 0:1 á 35. mínútu.

Næstu mínútur fengu heimamenn nokkur færi, sum býsna góð, en Framarar voru líka tilbúnir að refsa með hröðum sóknum. Albert átti gott skot sem markvörður andstæðinganna varði vel. Á lokamínútur hálfleiksins dansaði Fred hringi í kringum nær alla Aftureldingarvörnina og féll loks til jarðar inní vítateignum. Klár snerting, þótt líklega hefði verið ansi hart að dæma vítaspyrnu. Gula spjaldið sem brasilíska undrið fékk fyrir atvikið var hins vegar hreint réttarmorð.

Flautað var til leikhlés og vallarþulur Mosfellinga tók að blasta klassísku rappi, Eminem og fleiri góðum mönnum. Taktfastur rapptakturinn var í augnablik rofinn af ómþýðri rödd okkar allra besta Hreims syngjandi Fram-ballöðuna ógleymanlegu. Hér var ekki á ferðinni sérstök gestrisni kjúklingabænda heldur hafði hrekkjóttur Framari náð að tengja sig með Blátönninni inn á hljóðkerfið. Gamanið tók skjótan enda þegar dreyrrauður vallarvörður hljóp til og slökkti á hátalaranum. Fram 1 : UMFA 0 – jafnt innan sem utan vallar!

Sumarið eftir menntaskóla starfaði fréttaritari Framsíðunnar sem ruslakarl, meðal annars í Mosfellsbæ. Hann þekkir því Mosó eins og lófann á sér, í það minnsta eldri hverfin. Hann mun því aldrei taka undir með rógtungum sem tala illa um Mosfellsbæ og kalla það guðsvolaðan stað. Slík sjónarmið verða ekki viðruð í þessum pistlum né birt á opinberu málgagni Knattspyrnufélagsins Fram. Mosfellingar eru vinir okkar og verðandi nágrannar. Sú staðreynd að allar ríkisstjórnir lýðveldisins hafi í 40 ár haft það á dagskránni að byggja Sundabraut til að losa landsmenn undan því að þurfa að keyra í gegnum Mosfellsbæ skiptir hér engu máli og er eflaust tilviljun.

Seinni hálfleikur hófst og byrjaði dauflega. Fréttaritarinn færði sig úr hópi Coventry og West Ham-manna í stúkusætunum og stóð þess í stað hjá íþróttafréttarar RÚV á frívaktinni. Þar var nú ekki töluð vitleysan.

Fátt bar til tíðinda fyrsta stundarfjórðunginn en heimamenn voru þó ívið sterkari. Í kjölfarið kom Gummi Magg inná fyrir Fred. Lítið breyttist þó fyrr en þegar um tuttugu mínútur voru eftir, þá virtust Framarar vakna til lífsins á nýjan leik. Haraldur lagði upp prýðilegt færi fyrir Albert en Mosfellingavörnin kom boltanum í horn. Úr hornspyrnunni var Kyle nærri búinn að stanga í netið en markvörðurinn náði að slá frá á marklínu.

Næsta hornspyrna reyndist árangursríkari. Þegar kortér var til leiksloka tóku Framarar horn vinstramegin (nú kynni einhver að spyrja – vinstramegin frá markverðinum eða sókninni? Og það er góð og réttmæt spurning). Hornspyrnan barst utarlega í teiginn þar sem aðvífandi Framari (Óskar?) skallaði fyrir fætur Indriða Áka sem afgreiddi knöttinn vel í netið, 0:2 og kalkúnninn var sigraður!

Mínútu síðar virtist Tryggvi hlaupinn niður í vítateignum en dómarinn kærði sig kollóttann. Tryggvi og Haraldur fóru af velli fyrir Alexander Má og Arnór Daða. Alexander hafði varla verið lengur en 15 sekúndur á vellinum þegar hann náði að stinga sér í gegnum vörnina en ágætur markvörður heimamanna varði vel.

Þriðja Frammarkið lá í loftinu en kæruleysi Framara bjargaði Mosfellingum. Þriggja marka sigur hefði líka gefið villandi mynd af leik sem var í raun í járnum á stórum köflum. Afturelding er með gott lið og skemmtilega umgjörð. Gerir fréttaritarinn það að tillögu sinni að þrátt fyrir úrslit leiksins verði Mosfellingum heimilað að ganga á Úlfarsfell og versla á Korputorgi fram að næstu viðureign, sem verður einmit í lokaumferð mótsins.

Fram hefur oft leikið betur en í dag, en þrjú stig og hreint net er nokkuð sem ekki er hægt að kvarta yfir. Óli leysti allt sem hann þurfti að takast á við. Það er auðvelt að gleyma markverðinum hjá liði sem vinnur nánast alla leiki, en þáttur hans í sumar er risastór. Óskar var mjög öflugur í dag og líklega maður leiksins.

Eins og áður hefur komið fram á þessum vettvangi, nennir fréttaritari Framsíðunnar ekki að vera með uppgerðarhógværð eða taka þátt í væningastjórnunarátaki sem gengur út á að tala niður þá staðreynd að við erum langbestir, langefstir og langflottastir. Lengi megi það standa. Næsti leikur er á móti ÍBV í Sambamýri. Þar verður fréttaritarinn fjarri góðu gamni vegna fjölskylduskuldbindinga austur á landi. Kannski fáið þið bara leikskýrslu með Leikni Fáskrúðsfirði í staðinn.

Stefán Pálsson

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!