Árið 1987 kynnti Happdrætti Háskóla Íslands til sögunnar nýjan happdrættisleik. Happaþrennan var skemmtilegur skafmiði sem gaf spilurum færi að vinna allt að hálfri milljón króna í sviphendingu ef réttu táknin kæmu í ljós. Skafmiðafár braust út á Íslandi. Happaþrennur voru auglýstar sem sniðug tækifærisgjöf eða skemmtileg leið til að brjóta upp matarboð, þar sem smeygja mátti einu spjaldi undir hvern matardisk. Fréttaritarar dagblaðanna á landsbyggðinni voru iðnir við að flytja fréttir af heppnum þátttakendum í héraði. Meira um það á eftir.
Það hefur verið gaman að fylgjast með Framliðinu í 2. deild kvenna í sumar. Liðið hafnaði í níunda sæti í fyrra og samkvæmt spá fyrirliða og þjálfara átti árangurinn ekki að verða mikið betri í ár eða sjöunda sæti. Sú spá gerði ekkert annað en að hvetja okkar lið til dáða enda reynslunni ríkara og töluvert sterkara en fyrir ári.
Ekki er leikin nema einföld umferð í 2. deild að þessu sinni og styrkleikamunur milli liða afar mikill í mörgum tilvikum. Keppnisfyrirkomulagið er þannig að eftir einföldu umferðina mæta fjögur efstu liðin í úrslitakeppni þar sem liðin í fyrsta og fjórða sæti mætast heima og heiman og það sama gildir um lið númer tvö og þrjú. Fyrir leik kvöldsins var ljóst að sigur myndi tryggja Framkonum sæti í úrslitakeppninni. Það var því fjölmenni í Sambamýri í kvöld og ekki spilltu kjöraðstæður fyrir, súldarvottur, rakur völlur og mátulega hlýtt miðað við ágústkvöld.
Vinsældir Happaþrennunnar gerðu það að verkum að fleiri ákváðu að róa á sömu mið. Það reyndist þó ekki trygg tekjulind fyrir alla sem þess freistuðu. Björgunarsveitirnar buðu upp á sitt Lukkutríó sem gekk ágætlega, enda naut það stuðnings af sjónvarpsþætti. Skák- og Handboltasamböndin buðu saman upp á Fjarkann, sem gekk illa að selja. Mestar voru þó hrakfarir Ferðaþristsins, skafmiða þar sem hægt var að vinna draumaferð til Balí, sem Ungmennafélag Hveragerðis og Ölfuss reyndu að selja. Ferðaþristurinn sigldi í strand og UFHÖ, íþróttafélagið með skrítnu skammstöfunina, fór á hausinn. Fátt er þó með öllu illt. Fyrir vikið eignuðust Hvergerðingar glænýtt íþróttafélag með miklu fallegra nafn: Hamar – í staðinn fyrir hitt sem lenti undir hamrinum.
Hamarsstúlkur voru gestir Framarar í kvöld. Þær eru í neðri hluta deildarinnar en hafa þó ekki verið að fá neina skelli í leikjum sínum. Lið Fram var á þessa leið: Dagný í mrkinu. Freyja og Erika miðverðir, Kristín og Margrét bakverðir. Ólöf aftast á miðjunni með Oddnýju og Rachel fyrir framan sig. Gianna og Shianne hvora á sínum kanti og Hannah fremst. Fréttaritarinn er þó ekki til í að leggja höfuðið að veði að þetta sé hárrétt uppstilling, enda var hann í hrókasamræðum við Ásgrím formann þegar flautað var til leiks.
Framarar byrjuðu með látum, greinilega staðráðnar í kafsigla gestina úr Kjörísbænum strax í upphafi. Á fimmtu mínútu átti Oddný gott skot sem fór naumlega framhjá marki. Gestirnir áttu í mestu vandræðum með að koma boltanum af eigin vallarþriðjungi og tveimur mínútum síðar átti ein Framkonan (Shianne?) skot að marki sem virtist bjartsýnislegt og á leið yfir, en small í slánni og féll niður í teiginn. Oddný var fyrst að kveikja á perunni, hirti frákastið og skoraði auðveldlega, 1:0.
Eftir þessa velheppnuðu stoðsendingu reyndu Framarar ítrekað að endurtaka leikinn með háum en ekkert sérstaklega föstum boltum að marki Hamars sem gerðu oft talsverðan usla. Hamarsliðið lá afar djúpt á vellinum en Framarar leiddu allt spil og reyndu að finna glufur á vörninni. Það tókst aftur á 25. mínútu þegar Oddný komst í dauðafæri eftir misskilning tveggja Hamarskvenna en skaut framhjá.
Strax í næstu sókn áttu Hvergerðingar í vandræðum með að hreinsa frá marki og boltinn barst á Rachel sem var vel fyrir utan vítateig og sá að markvörðurinn hafði hætt sér of framarlega. Hún var fljót að hugsa og vippaði í snyrtilegum boga í markhornið, 2:0 og staðan orðin býsna vænleg.
Hornspyrnur Framara ollu alltaf ringulreið í Hamarsvörninni og eftir tæplega hálftíma leik mátti minnstu muna að munurinn yrði þrjú mörk eftir darraðardans í teignum. Hamar sá ekki til sólar á þessum tíma. Leikaðferð þeirra virtist alfarið byggjast á að reyna að ná skyndisóknum og þá helst með því að stinga inn á Júlíönu Dögg, sem er auðvitað öllum hnútum kunnug í Sambamýri. Allar slíkar tilraunir voru þó barðar niður af vörninni og Ólöfu sem var mjög traust í hlutverki sínu. Hamar fékk eitt færi allan fyrri hálfleikinn – en það var raunar dauðafæri að því er virtist upp úr engu, en skotið fór framhjá.
Á markamínútunni áttu Erika og Margrét, sem var mjög líflega í fyrri hálfleik, góða rispu upp kantinn sem lauk á hörkusendingu fyrir en markvörður Hamars varði mjög vel frá Shianne. Flautað var til leikhlés og voru gestirnir líklega sárfegnir að vera bara tveimur mörkum undir.
Sóttvarnarreglur á Framleikjum eru upp á tíu og vallarþulurinn hnífsdælski duglegur að hvetja fólk til sprittunar og að hylja öndunarfærin með grisjum. Engin veitingasala var því í boði, en út á klíku gat fréttaritarinn sníkt sér kaffibolla hjá Kristni Rúnari. Sníkjukaffi er langbesta kaffið.
Hvergerðingar mættu aðeins ákveðnari í seinni hálfleikinn en þann fyrri og reyndu aðeins ýta sér framar á völlinn. Framkonur voru þó fljótar að resa fyrir þá ofdirfsku. Eftir góða sókn hjá Shiönnu og Hönnuh (myndi maður ekki fallbeygja það svona?) náðu gestirnar að bjarga í horn. Hornspyrnan sveif beint á Rachel sem stóð óvölduð utarlega í teignum og hafði allan tímann í heiminum til að vippa snyrtilega í markhornið, 3:0 eftir 54. mínútna leik.
Kættust nú allir áhorfendur, en sérstaklega þó strákarnir úr þriðja flokki sem settir höfðu verið á trommurnar. Í fyrri hálfleik voru þeir mest að vinna með rólegan takt í anda SigurRósar, en eftir að þeim voru gefnar pítsur í hléi breyttist tónlistin meira yfir í Einstürzende Neubauten. Allir á vellinum sáu nú að stigin þrjú væru í höfn – tjah, allir nema þjálfarar Fram sem ákváðu að bíða enn um sinn með að gera skiptingar. Þær komu hins vegar á færibandi á síðasta þriðjungnum. Fyrst kom Sigurleaug Sara inná fyrir Kristínu. Þá Þórdís og Sóley fyrir Oddnýju og Shianne og loks Fríða og Svava Björk fyrir Margréti og Eriku.
Þegar kom að síðustu skiptingunni var staðan raunar orðin 4:0, því Hamarskonur skoruðu afar slysalegt sjálfsmark þegar stundarfjórðungur var eftir, í tilraun til að stöðva sakleysislega sendingu frá Rachel.
Lokamínúturnar voru tíðindalitlar enda fjögur mörk alveg nóg veganesti fyrir lokaumferðina. Fram er komið í úrslitakeppnina en lokaleikurinn á Húsavík á laugardag sker úr um hvort liðið hafnar í öðru, þriðja eða fjórða sæti.
Stefán Pálsson