fbpx
Þórðir vefur

Blikkið

Snemma á áttunda áratug nítjándu aldar lét athafnamaðurinn Geir Zoëga bárujárnsklæða hús í eigu útgerðar sinnar við Vesturgötu. Það var fyrsta báujárnsklædda reykvíska húsið. Íslensk húsagerðarlist varð aldrei aftur söm.

Fáar þjóðir hafa tekið bárujárnið svo rækilega í sína þjónustu og Íslendingar. Í landi þar sem rigning fellur ekki lóðrétt nema til hátíðarbrigða urðu báraðar blikkplötur sjálfsögð klæðning ekki aðeins á húsþök heldur einnig á útveggi. Innflutt norsk timburhús voru klædd breskum bárujárnsplötum sem mála mátti í öllum regnbogans litum. Hin tjörusvarta ásýnd Reykjavíkur vék fyrir björtum litum. Lífið varð pastel.

Á Þróttarvellinum í Laugardal má sjá glæsilegan minnisvarða um íslensku blikkhefðina í arkitektúr. Á meðan sumir kynnu að nefna Húsavíkurkirkju sem dæmi um það besta og fegursta í húsagerðarlist landsmanna myndi fréttaritarinn alltaf nefna blikkvegginn sem gnæfir yfir leikvangnum. Í gráu galvaníseruðu járninu kallast á stuðlabergsform sem minna jöfnum höndum á höfundarverk Guðjóns Samúelssonar eða Aldeyjarfoss annars vegar en Berlínarmúrinn hins vegar. Ekki er að undra þótt verktakinn Stjörnublikk auglýsi stoltur yfir varmannaskýlunum. Þarna er hvergi ryðblett að sjá.

En talandi um ryð? Vitiði hverjir voru furðuryðgaðir í kvöld? Það voru hinir nýkrýndu Pepsideildarleikmenn Knattspyrnufélagsins Fram – sem voru ekki enn búnir að jafna sig eftir sigurhátíð síðustu viku. Á síðasta tímabili áttu Framarar sinn lélegasta leik á Þróttarvellinum í viðureign sem lauk 2:2 með marki á fjórðu mínútu uppbótartíma. (Höskuldarviðvörun: sagan endurtók sig eins og Karl Marx spáði fyrir um, nema síðast endaði hún sem farsi, nú sem harmleikur.)

Fréttaritarinn mætti tímanlega til fundar við vaska Geiramenn á menningarlegri þungamiðju 104-póstnúmersins og rölti þaðan á völlinn. Þar sem fréttaritarinn er enginn Gerald Ford gat hann gengið, tuggið tyggigúmmí og lesið byrjunarliðið á úrslit.net. Það var á þessa leið: Ólafur í markinu, Kyle og Hlynur í miðvörðum, Halli og Matti bakverðir. Danny Guthrie kom inn í byrjunarliðið og gátu fréttaritarinn og fleygberinn og skjaldsveinninn sauðtryggi Valur Norðri kýtt um það nokkuð fram eftir leik hvort hann eða Aron Þórður væru í stöðunni aftast á miðjunni. Fred og Alexander voru í það minnsta hvor á sínum kanti, Albert altunlykjandi fremst á miðjunni og Þórir upp á topp.

Eftir 40 sekúndur kom fyrsta dauðafæri Framara. Þórir komst einn í gegn en óþarflega góður Þróttarmarkvörðurinn varði í fyrsta en fráleitt síðasta skipti í leiknum. Velta má því fyrir sér hvaða flóðgáttir hefðu opnast ef þessi fyrsta sókn hefði endað með marki.

Eftir tæpar fjórar mínútur náðu heimamenn að opna Framvörnina upp á gátt og Róbert Hauksson skoraði smekklegt mark. Hann varð þar með fyrsti maðurinn til að skora gegn Fram á sínum eigin heimavelli í sumar. Þetta kallar á medalíu eða Wikipediusíðu.

Þetta reyndist eina alvöru færi Þróttara í fyrri hálfleik. Mjög rausnarleg talning gefur þeim eina og hálfa sókn fyrir hlé. Hinu megin tóku Framarar hins vegar að brýna busana. Framarar höktu í öðrum gír, en Þróttarar pökkuðu í vörn og hugðust haldna fengnum hlut í 85 mínútur. Strax á 12. mínútu virtust varnirnar ætla að bresta þegar Kyle náði bylmingsskalla að marki en markvörðurinn varði glæsilega – auk þess sem flaggið var komið á loft. Skömmu síðar átti Danny gullna sendingu á Þóri sem framlengdi boltann á Alexander en Þróttarinn varði vel. Um miðjan hálfleikinn komst Fred svo í hörkufæri eftir undirbúning Þóris en enn á ný hafði markvörðurinn betur.

Þetta varð saga hálfleiksins. Fánýtt er að telja upp þær 7-8 hættulegu sóknir sem Frömurum tókst að byggja upp en allar fjöruðu út eða enduðu á snjallri markvörslu. Oftar en ekki endaði boltinn fyrir aftan endamörk og skyndilega rann upp fyrir fréttaritaranum að leikurinn væri í raun metafóra fyrir íbúðina sem hann bjó í á Hringbraut. Þar voru líka mjög mörg horn og ekkert þeirra var rétt – en ekkert þeirra var heldur sérstaklega hættulegt. Stemningin súrnaði jafnt og þétt þrátt fyrir bumbuslátt stuðningsmanna.

Það var þó ekki allt unnið fyrir gýg. Á 24. mínútu átti Halli fínustu sendingu á Þóri sem framlengdi boltann yfir á Alexander sem fékk tvær tilraunir til að koma honum í netið. Sú síðari söng í slánni og inn, 1:1.

Danny og Fred áttu flottan samleik á 39. mínútu en enn og aftur varði Þróttarmarkvörðurinn – að þessu sinni með fótunum. Á ég að halda áfram að telja? Nei, hélt ekki…

Jafnt í hálfleik og þar sem bjórtjaldið fína á Þróttarvellinum reyndist fyrsta fórnarlamb Covid-faraldursins á Íslandi létu fréttaritari og skjaldsveinn sér nægja að taka út salernisaðstöðu vallarins. Eftir pisseríið hittu þeir íþróttafréttamann almannaútvarpsins sem var álíka frústreraður og rifjaði upp hörmungarnar miklu í jafntefli sömu liða árið áður. Allir höfðu þó trú á að ekki þyrfti nema eitt mark til að slökkva í heimamönnum.

Framarar byrjuðu seinni hálfleik með sömu látum og þann fyrri og Alexander var nærri því að skora eftir tæpa mínútu. Fimm mínútum síðar náðu Þróttarar sínu fyrsta skoti á mark, frá þriðjumínútuslysinu og Óli varði auðveldlega. Skömmu síðar var gróflega brotið á Albert á vítateigslínu, ekkert spjald og aukaspyrnan söng í varnarveggnum.

Í síðustu færslu setti fréttaritari Framsíðunnar þá kenningu að dómarasamtökin hafi ákveðið að Framarar verðskulduðu ekki fleiri vítaspyrnur eftir misheppnaða Panenka-vítið gegn Eyjamönnum um daginn. Sú tilgáta fékk byr undir báða vængi á 53. mínútu þegar boltinn fór augljóslega í útrétta hönd varnarmanns Þróttara sem varðist þannig stungusendingu. Línuvörður í kjöraðstöðu veifaði ekki og röndóttir sluppu með skrekkinn.

Þremur mínútum síðar þurfti Ólafur í annað sinn í leiknum að verja aðvífandi skot. Hann var hins vegar fljótur að koma boltanum í leik, sendi fram á völlinn þar sem Albert fékk hann að lokum úti á kanti, lyfti knettinum fyrir og Þórir gerði afar vel í að teygja höfuðið langt aftur en skalla samt af krafti í markhornið, 1:2 og húnninn virtist unnin.

Við þetta seinna mark virtust Framarar missa dampinn á nýjan leik. Um miðjan seinni hálfleikinn fóru þeir Danny og Kyle af velli en Gunnar og Indriði Áki komu inná. Kyle hlýtur að hafa kennt sér einhvers meins, til að réttlæta þá breytingu. Rétt í kjölfarið skapaðist ítrekað stórhætta við Þróttarmarkið eftir hornspyrnu þar sem Alexander og Fred áttu báðir markskot.

Á 73. mínútu slapp Albert einn í gegn em Þróttarmarkvörðurinn varði enn. Skömmu síðar féll Albert enn eitt dauðafærið en hinkraði og lengi og varnarmaður náði að komast í veg fyrir skotið. Besta færi seinni hálfleiks leik svo dagsins ljós þegar tíu mínútur voru eftir. Fred átti flotta sendingu á Alexander sem náði ágætu skoti sem varið var í stöng og út.

Á 84. mínútu fóru Fred og Albert af velli en Óskar og Már komu inn og á lokamínútu venjulegs leiktíma leysti Gummi Magg Þóri af velli. Kalnir á hjarta voru fréttaritarinn og skjaldsveinninn þó fullvissir um hvað myndi gerast. Þú klúðrar ekki svona mörgum færum í leik án þess að vera refsað í lokin og þegar Þróttarar fengu billega aukaspyrnu í fjórðu mínútu uppbótartíma vissu allir hvað væri að fara að gerast. Sam Hewson, langbestimaður Þróttara að markverðinum undanskildum, var alltaf að fara að jafna. 2:2. Og vænn skammtur af blótsyrðum vaknaði til lífsins.

Fram hefur sem sagt fengið á sig mörk á útivelli í sumar og enn mun dragast að gulltryggja meistaratitilinn eða slá stigamet Ólafsvíkur-Víkinga frá 2015. Það er alltsaman gallsúrt. Enn ergilegra var að sjá langlélegasta leik okkar manna í allt sumar og það á móti andstæðingi sem var í bullandi vörn 95% af tímanum. En svona er lífið. Grótta um helgina og þá verður allt gott aftur.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!