Seint í nóvember var níunda og síðasta bók finnsku skáldkonunnar Tove Jansson um ævintýri Múmínfjölskyldunnar. Hún er óvenjuþunglyndisleg af barnabók að vera, sem kann að skýrast af því að rithöfundurinn hafði nýverið misst móður sína sem verið hafði henni afar náin. Önnur sérstaða verksins er að aðalsöguhetjur sagnaflokksins eru hvergi nálægar. Múmínfjölskyldan hefur yfirgefið Múmíndal og tilvera allra hinna smádýranna riðar til falls þegar hinn fasti punktur tilverunnar hverfur skyndilega. Þetta er saga um angist. Saga um söknuð. En líka saga um þroska þess sem áttar sig á að hann verður að þrauka áfram og læra að standa á eigin fótum.
Leiknum gegn Gróttu í dag svipaði mjög til þessarar áhrifamiklu skáldsögu.
„Hvar er Stefán og appelsínugula vestið hans?“ – spurðu undrandi Framherjar í fínumannasamkvæminu fyrir leikinn. Kaffið var að sönnu rjúkandi úr bollunum og hrímaður bjór í stöku glasi, en það var eitthvað sem vantaði. Í kjölfarið rann upp fyrir hópnum að þarna var enginn Valur Norðri heldur og þar með enginn markafleygur. Hvernig gæti þetta gengið upp? Samsæriskenningarnar fóru að fljúga. Ef til vill væri fréttaritarinn með Covid? Hann væri nú sannarlega ekki frægur fyrir handþvotta og alltaf að naga á sér neglurnar… Eða risti þetta dýpra? Nú hefði hljóðið í leikskýrslunni eftir Þróttarjafnteflið verið óvenju þungt. Hafði fjárans jöfnunarmarkið frá Hewson á lokasekúndunni lagst svo þungt á sálartetrið hjá fréttaritaranum að hann hann hefði ákveðið að leggja minnisblokkina á hilluna? Snögglega urðu tebollurnar og ostaslaufubitarnir þyngri undir tönn og þurrari í hálsinn.
Mætti Nonni sjálfur til að lesa upp byrjunarliðið? Eða var Aðalsteinn sendur í djobbið? Það mun enginn fá að vita. Ef tré fellur í skógi og enginn er nálægur… og það allt. – Byrjunarliðið mátti þó lesa á netinu. Það var örlítið frábrugðið því sem boðið var upp á í Laugardalnum í vikunni. Óli í markinu. Kyle og Gunnar miðverðir. Halli og Alex bakverðir. Óskar aftastur á miðjunni með Indriða og Albert fyrir framan sig, Fred og Má á köntunum og Þóri fremstan.
En fréttaritarinn hafði hvorki sleikt hurðarhúna né lá hann heima í hugarvíli eftir töpuðu stigin tvö á þriðjudaginn. Nei, hann var staddur í Hörpu á landsfundi stjórnmálaflokksins síns, þar sem honum hafði verið úthlutað embætti: sæti í allsherjarnefnd, sem hljómar töff en felur í raun í sér prófarkarlestur og textavinnu í ályktunum. Löngu fyrir fundinn hafði hann tilkynnt leiðtoganum mikla að „mögulega þyrfti hann að geta skotist frá laust fyrir klukkan tvö…“ – þeirri ósk hafði verið tekið ágætlega, en þegar á leið og breytingatillögurnar tóku að turnast upp varð sífellt ljósara að kraftaverk þyrfti til að appelsínugula vestið léti sjá sig í Sambamýri, að ekki sé talað um innvols þess.
Að lokinni kosningu til flokksstjórnar opnaði fréttaritarinn vafrann og dró fram Visa-kortið. Það yrði víst að duga að láta upptökuna á Lengjudeildinpunkturis malla í horninu á meðan þrasað yrði um orðaröð í menntamálastefnunni og klausu um sóknarfæri lífrænnar ræktunar troðið inn í stjórnmálaályktunina. Gangandi á milli herbergja og hlustandi á almennar stjórnmálaumræður sá hann útundan sér hvernig Þórir sveif hæst allra og stangaði með rauða hausnum sínum flotta fyrirgjöf frá Má utan af kanti, 1:0 eftir um sjö mínútna leik. Gárungarnir segja að eina spennan í Lengjudeildinni um þessar mundir sé hver muni skora flest mörk fyrir Fram? Fred er sem stendur efstur með átta, en Þórir er nú í öðru sætinu og hefur stungið sér fram fyrir Indriða, Guðmund og Albert sem eru allir með sex. Í Alþýðulýðveldi Katrínar Jakobsdóttur eru allir jafnir og í byltingarboltasveit Nonna Sveins fá allir að skora fullt af mörkum!
Fréttaritarinn fagnaði eins innilega og siðferðislega var verjandi í hópi sem átti að vera að sinna textavinnu. Sessunauturinn Leifur, ungur lögfræðingur af grjóthörðum róttæklingaættum, veitti uppörvandi hrós. Sjálfur gjóaði hann augunum í sífellu á símann til að fylgjast með gangi mála hjá sínum mönnum, Þrótturum. Það endaði vitaskuld allt í tárum, eins og ég hefði svo sem getað útskýrt fyrir honum. Röndóttum hlaut að hefnast fyrir þetta jafntefli á þriðjudaginn. Svona fer þegar menn fljúga of nærri sólinni.
„Hmm… það er komið rautt spjald á Fram!“ upplýsti lögfræði-Leifur upp úr eins manns hljóði. Þótt fréttaritarinn hefði reynt að gjóa reglulega augum á leikinn og virtist okkar menn hafa þetta að mestu undir sinni stjórn, þá hafði þessi brottvísun alveg farið fram hjá honum. Prúðmennið Gunnar uppskar beint rautt spjald eftir tæplega hálftíma leik fyrir að sparka í einn Seltirninginn. Öll höfum við upplifað það að langa til að sparka í Seltirninga en félagslega taumhaldið komið í veg fyrir það. Nú horfðu bláklæddir fram á klukkutíma leik, manninum færri. Beint í kjölfar rauða spjaldsins gerðu Jón og Aðalsteinn taktíska skiptingu, þar sem Hlynur kom inná en Fred fór af velli.
Enn seig á ógæfuhliðina þegar fartölva fréttaritarans tók að gefa merki um yfirvofandi rafmagnsleysi þegar líða tók að leikhléi. Það eina í stöðunni var því að tengja hana í nálæga innstungu, spottakorn frá borðinu þar sem aðrir fulltrúar ályktana- og allsherjarnefndar sátu að störfum. Þar stóð svo fréttaritarinn upp í endann, með tölvuna hvílandi á vömbinni og hrópandi orðalag á klausum um eflingu fullorðinsfræðslu og mikilvægi opinbers rekstrar í heilbrigðiskerfinu til félaganna, sem reyndu að þykjast ekki taka eftir því að hann væri að góna á fótboltaleik… Á þessum mínútum varði Halli á marklínu og Framarar sluppu inn í leikhléið með eins marks forystu og fréttaritarinn fékk kortér í að reyna að samræma þrjár setningar um sjávarútvegsmál við stefnuna sem samþykkt var í vor. Andrúmsloftið í félagsheimilinu hefur væntanlega verið lævi blandið í þrúgandi fjarveru þið vitið hvers.
Seinni hálfleikur byrjaði rólega. Gróttumenn stjórnuðu spilinu og Framarar drógu sig jafnt og þétt aftar á völlinn, en bjuggu sig undir að ógna með skyndisóknum. Einni slíkri lauk með hornspyrnu á 54. mínútu. Albert skokkaði með boltann að hornfánanum og bjó sig undir að senda fyrir… þegar myndin fraus.
Eftir um það bil átján tilraunir til að rífressa Lengjudeildinapunkturis ákvað fréttaritarinn að játa sig sigraðan. Restin af leiknum yrði tekin á textalýsingunni á fótboltapunkturnet, sem er ekki nærri eins upplýsandi um gang mála og bein sjónvarpssending en þó til öllu meiri vinsælda fallið fyrir þann sem þykist á sama tíma vera að taka þátt í hópvinnu.
(Höskuldarviðvörun: hafi þessi fótboltaskýrsla skrifuð af manni sem horfði á leik á tölvuskjá með öðru auganu verið á póstmódernísku rófi, þá verður hún hálfu verri eftir að sjónvarpsútsendingunni var skipt út fyrir textalýsingu.)
Á 68. mínútu gerðu Framarar tvöfalda skiptingu, þar sem Albert og Þórir fóru útaf fyrir Gumma Magg og Aron Þórð. Sú tímasetning er þó birt með nokkrum fyrirvara þar sem mínúturnar í textalýsingunni stangast aðeins á við klukkuna í myndbandinu af þessum leikhluta sem skellt var inn á Lengjudeildarvefinn nokkru eftir leik. Hvað sem því líður leið ekki langur tími uns boltinn lá í neti Framara eftir ágæta sókn og skot rétt fyrir utan teig sem Óli sá ekki fyrr en of seint, 1:1 og stemningin farin að súrna allverulega. Gat hugsast að Framarar væru að missa allt í skrúfuna á lokasprettinum og fínu og flottu stigametin rynnu okkur úr greipum? Nei, engar áhyggjur. Haraldur Einar Ásgrímsson var ekki að fara að láta neitt slíkt gerast…
Maður er nefndur Graham French. Hann lék með fjölda enskra liða á árabilinu 1961-76. Sín bestu ár átti hann þó með Luton Town þar sem hann skoraði 22 mörk í 182 leikjum. Frægast þeirra var markið á móti Mansfield þann átjánda september árið 1968. Markið hefur ítrekað verið valið það fallegasta í gjörvallri sögu Luton og raunar talið eitt flottasta mark sem skorað hefur verið í fótboltaleik. Þetta er þeim mun merkilegra í ljósi þess að engin upptaka er til af markinu, aðeins útvarpslýsing og blýantsteikningar listamanna. Áhorfendur á Mansfield-leiknum voru ekkert sérlega margir, en samt finnst heilu kynslóðum Luton-unnenda þær hafa verið staddar á pöllunum þegar Graham French skoraði hið fullkomna mark. Færa má rök fyrir því að hluti af fegurð og glæsileik marksins felist í þeirri staðreynd að það var ekki fest á filmu, heldur lifir alfarið í munnlegri geymd.
Í dag endurtók sagan sig. Þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum negldi Halli bakvörður boltanum af fáránlegu færi, algörlega upp úr engu, í stöngina og inn. Fallegasta mark íslenskrar fótboltasögu leit dagsins ljós og enginn getur séð það aftur, því móðurtölva Fram-tv var að endurræsa sig á meðan. Fréttaritarinn mun aldrei gleyma því hvar hann var staddur þegar hann sá ekki þetta ógleymanlega mark. Eftir fimmtíu ár munu ungir Framarar tala um negluna hans Halla og fótboltanirðir munu rífast um hvort hún eða hjólhestaspyrna Jóhannesar Eðvaldssonar gegn Austur-Þjóðverjum árið 1975 hafi verið flottari. Einungis flón munu tilnefna Búbba.
Eftir markið drógu Framarar sig skiljanlega enn aftar á völlinn á meðan Gróttumenn reyndu að sækja. Þeir náðu vissulega einhverjum færum og mögulega vörðum við einu sinni eða tvisvar á línu, en það var þó ekkert miðað við hörmungarleikina okkar gegn Gróttunni 2019 þar sem við óðum svoleiðis í dauðafærunum, svo stórsá á slám og markstöngum en töpuðum samt. Karma endar á að bíta menn í rassinn.
Leiknum lauk og frægur 2:1 sigur í höfn. Ef til vill verða Framarar meistarar á textavarpinu næsta föstudag – fari svo að Eyjamenn losni úr sóttkví og nái ekki að vinna sómapiltinn Gary Martin og félaga. Að öðrum kosti getum við klárað þetta verkefni í Grindavík á laugardag, sem verður varla komin undir hraun þótt straumurinn sé farinn að færast úr eystri Merardölum. Líklega er þó skynsamlegt að skilja bílinn eftir í lausagangi meðan á leik stendur ef til skyndilegrar rýmingar kemur. Enn er nokkuð í stigamet. Fram er með 51 stig en Ólafsvíkur-Víkingar náðu 54 um árið. Sjáumst suður með sjó.
Og já… svo mætum við öll og styðjum Framstelpurnar á móti Austlendingum í umspilinu. Annað væri skandall.
Stefán Pálsson