Eitt af uppáhaldskjúríosítetum fréttaritara Framsíðunnar er sú staðreynd að nafnið á Barbapabba, myndasöguhetjunni ástsælu, merkir á frönsku kandífloss. Það eru svona staðreyndir til að hafa á hraðbergi sem gera mann að hróki alls fagnaðar í samkvæmum.
Það var boðið upp á kandífloss í Sambamýri í dag fyrir börn og snemmmiðaldra fréttaritara. Og það var líka boðið upp á ástsæla poppstjörnu. Tæpum klukkutíma fyrir leik steig sjálfur Páll Óskar á svið og rúllaði upp nokkrum af stærstu smellum sínum eftir að hafa fengið afhenta sérmerkta Framtreyju – að sjálfsögðu nr. 1. Börnin kættust og kaldlyndustu og samansúrruðustu Framarar á pöllunum sáust dilla sér laumulega.
Meistaraflokksráð kvenna hefur nú sett ný viðmið fyrir úrslitakeppni 2. deildar og vandséð hvernig gestir dagsins, bræðingslið Hattar Egilsstöðum, Fjarðabyggðar og Leiknis Fáskrúðsfirði, ætti að geta gert betur að viku liðinni. Það væri þá helst að kalla Dúkkulísurnar og Sú Ellen aftur saman.
Áhorfendur voru fjölmargir á þessum fyrri leik Framara og Austlendinga um sæti í 1. deild. Framkonur voru gríðarlega óheppnar að tapa fyrir Völsungi í lokaumferðinni og enduðu því í fjórða sæti. Mótherjarnir að austan náðu toppsætinu og töpuðu aðeins einum leik í allt sumar – en það var raunar á móti okkar konum. Taugarnar voru því þandar til hins ítrasta.
Fram tefldi Dagnýju fram í markinu. Höllu og Eriku í miðvörðum, með Sólveigu og Margréti sitthvöru megin. Ólöf öftust á miðjunni með Oddnýju og Hönnuh fyrir framan sig. Gianna og Shianne á köntunum og Rachel fremst. Þetta var ekki leikur fyrir litblinda. Framarar í hefðbundnum bláum treyjum en gestirnir í sægrænu. Fréttaritarinn á sér draum um veröld þar sem sæmileg sátt mun ríkja um að blár og grænn gangi ekki upp sem treyjulitir andstæðra lita. Við verðum öll að eiga okkur hugsjón.
Það var ástæða til að óttast framlínu gestanna sem skoruðu í sumar litlu fleiri mörk en liðin í öðru og þriðja sæti samanlagt. Austlendingar ætluðu líka greinilega að blása til sóknar fyrstu mínúturnar. Örlítil taugaveiklun einkenndi Framliðið í blábyrjun en fljótlega hvarf skrekkurinn og við byrjuðum að leika okkar leik.
Framarar reyndu að sækja hratt upp kantana og tókst það í nokkur skipti. Mesta ógnunin kom þó frá Oddnýju sem átti létt með að stinga sér í gegn að vild. Gestirnirnir léku hins vegar fast og komust upp með miklar hrindingar og peysutog nánast frá fyrstu mínútu.
Fréttaritarinn og sessunautur hans, hnífsdælski trymbillinn Kristján Freyr, voru einmitt nýbúnir að hafa orð á því hvað Framarar væru að ná góðum undirtökum í leiknum þegar ógæfan reið yfir á 22. mínútu. Hornspyrna Framara rann út í sandinn og Austlendingar voru fljótir að koma knettinum fram á við. Þar náði einn leikmaður þeirra hörkuskoti upp úr engu sem söng í markslánni og skaust aftur út í teiginn, þar sem einn gestanna var fyrst til að átta sig og skaut alveg út við stöng, 0:1.
Þetta var ekki staðan sem nokkur vildi sjá. Gaman var samt hversu fljótur varamannabekkur Framliðsins var að taka við sig og tók að hvetja áhorfendur til dáða. Jöfnunarmarkið yrði að koma fljótt!
Það gekk eftir. Fimm mínútum eftir markið átti Hannah frábæra og langa sendingu á Oddnýju sem braust inn í vítateiginn þrátt fyrir peysutog og truflanir og afgreiddi boltann snyrtilega í netið, 1:1 og allt galopið á ný.
Næstu færi sem eitthvað kvað að komu öll í hlut Framkvenna, en gestirnir voru þó alltaf ógnandi og hefðu auðveldlega getað komist yfir rétt áður en flautað var til hálfleiks. Fréttaritarinn og trymbillinn röltu einmöltungslausir inn í Framheimili og upp í veislusal þar sem tekist hafði að endurskapa fullkomlega andblæ Framherjakaffisins á Laugardalsvelli um árið með gömlum snúðum og stökkum kleinum í aðalhlutverki. Vantaði bara að Siggi Svavars væri snúinn aftur sem vallarþulur að spila Sniglabandið í hléi.
Seinni hálfleikur byrjaði með sömu látunum og sá fyrri. Andartaks andvaraleysi í Framvörninni gaf gestunum dauðafæri eftir þrjár mínútur þar sem Dagný þurfti að renna sér langt út fyrir teiginn og spyrna frá á síðustu stundu – frákastið barst til eins gestanna sem náði ekki að hitta á markið. Framarar vörpuðu öndinni léttar.
Eftir taugatrekkjandi byrjun tóku Framkonur fljótlega völdin á vellinum. Við fengum nokkur hálffæri þar sem Hannah og Oddný voru oftar ekki ekki í aðalhlutverki. Báðar áttu stórgóðan leik og sjálfsagt að nefna Shianne og Höllu í vörninni sérstaklega líka. Annars átti nánast allt Framliðið prýðilega frammistöðu.
Þegar seinni hálfleikur var um það bil hálfnaður varð skringilegt atvik sem nærri endaði með marki. Löng sending í átt að marki Austlendinga virtist misheppnast og vera að sigla framhjá. Markvörðurinn ætlaði að fylgja boltanum útaf í rólegheitum, þegar Shianne var snögg að hugsa og náði að renna sér í hann. Leikmennirnir rákust saman en knötturinn rúllaði samsíða marklínunni.
Aftur skapaðist mikil hætta þegar Rachel vann boltann á miðjunni og geystist af stað gegn þunnskipaðri vörn Austlendinga en beið of lengi með að senda á Oddnýju sem fylgdi henni og upplagt færi endaði með klaufalegri rangstöðu. Á þessum tímapunkti virtist Fram mun líklegra til að skora, en andstæðingarnir voru þeim mun duglegri við að tefja og láta tímann líða enda jafntefli á útivelli ekki svo slæm uppskera í tveggja leikja einvígi.
Síðustu fimmtán mínúturnar tók þó sókn gestanna að þyngjast jafnt og þétt. Þegar tíu mínútur voru eftir fengu gestirnir dauðafæri eftir andartakst einbeitingarleysi í Framvörninni. Í kjölfarið gerði þjálfarateymið tvær breytingar. Sólveig og Shianne fóru af velli en Ásta Hind og Kristín Gyða komu inná.
Við tóku stressandi lokamínútur þar sem Austlendingar sóttu stíft og Framarar vörðu m.a. tvívegis á marklínu. Það hefði verið reiðarslag að fá á sig mark í uppbótartíma. Eitt : eitt urðu lokatölur og tak Framara á Austurlandströllunum heldur a.m.k. um sinn. Það verður virkilega spennandi að fylgjast með seinni viðureigninni um næstu helgi, þótt augljóslega séum við alltaf að fara að vinna. Með Pál Óskar í liðinu getur maður ekki tapað.
Stefán Pálsson