fbpx
meistarar 2021 Fram vefur

Fimmtíu og átta!

Auðvitað hefðum við öll átt að hlaupa inná með kantskera og járnkarl eftir leik, sneiða gervigrasið niður í smábúta og taka hvert sitt stykkið með heim sem minjagrip um síðasta leikinn í Sambamýri. Eða í það minnsta dregið fram garðklippur til að sníða marknetin niður í öreindir í sama tilgangi. Bútarnir hefðu svo getað gengið manna á milli og jafnvel selst fyrir svimandi upphæðir á ebay innan um mylsnur úr Berlínarmúrnum og hraunklumpa úr Fimmvörðuhálsgosinu…

En við gerðum það ekki. Í fyrsta lagi vegna þess að það hefði verið dálítið ósanngjarnt gagnvart Víkingunum sem búnir eru að fá vilyrði borgarinnar fyrir þessari vöggu æðri boltaíþrótta í Kringlumýri norðanverðri. Víkingar eru litlu bræður okkar og við elskum þá sem slíka. Og eins og tamt er með lítil systkini vita þeir ekkert skemmtilegra en að fá að leika með gamla dótið okkar – hegðun sem er jafnvel farin að ganga óþarflega langt í seinni tíð.  Í öðru lagi vegna þess að það var of blautt.

Treystið mér, það var blautt á vellinum í dag. Það verður raunar þrástef í gegnum allan þennan pistil. Þétt og samfelld rigningin gerði það að verkum að fréttaritari Framsíðunnar gafst mjög snemma upp á að pára niður minnispunkta meðan á leik stóð. Skýrslan verður því að mestöllu leyti hripuð niður eftir gloppóttu minni og með brotakennda leiklýsingu fótbolta.net til hliðsjónar. Fyrir vikið verður rangt farið með nöfn leikmanna, háskaleg marktækifæri munu gleymast og öðrum gert alltof hátt undir höfði. Það er þó kannski ekki allur munur miðað við hefðbundna hroðvirkni og ónákvæmni í þessum pistlum.

Það var múgur og margmenni í Framheimilinu þegar fréttaritarinn gekk þar inn á leið í fínumannasamkvæmið í veislusalnum. Uppskeruhátíð yngri flokka var nýafstaðin og húsið troðfullt af lafmóðum börnum af hoppukastalasvæðinu og mönnum í tuskubúningum. Einhver hafði meira að segja grafið upp gamla úlfabúningin sem hefur varla sést á Framleik síðan 2013. Tónninn var sleginn. Þessi lokaleikur yrði meira í ætt við karníval en hefðbundinn septemberleik gegn bestu sonum Álafosskvosarinnar.

Í veislusalnum var hlaðborð með kræsingum. Snittum, smáhamborgurum, sætum kökum og djúpsteiktum rækjum. Minna rakur og hrollkaldur fréttaritari myndi freistast til að leggja út af hlaðborðinu sem metafóru fyrir þá veislu sem gestirnir áttu síðar eftir að bjóða upp á. En það verður ekki gert hér. Þessir pistlar eru nú þegar farnir að snúast vandræðalega mikið um mat, drykkjarföng og kaffibrauð.

Skjaldsveinninn Valur Norðri var seinn fyrir, en fréttarinn tyllti sér hjá fulltrúa norska sendiráðsins og barnabarni. Síðar mætti trymbillinn Óskar, raunar trommulaus og í hálfgerðum mínus yfir að hafa verið skammaður í síðustu skýrslu fyrir að skrópa. Ásgrímur formaður bað um orðið og tilkynnti um undirritun nýs samnings – þjálfarinn Jón Sveinsson hefur framlengt samning sinn við Fram til næstu þriggja ára. Því fagna allir góðir menn og Arnar Þór Viðarsson getur varpað öndinni léttar til 2024.

Byrjunarlið Fram var kynnt á KSÍ-vefnum og greinilegt að Jón og Aðalsteinn ætluðu ekki að láta neina ævintýramennsku eða nýungagirni stefna í voða tilrauninni til að fara taplaust í gegnum mótið. Ólafur kom aftur í markið. Kyle og Hlynur miðverðir. Haraldur og Óskar bakverðir. Aron Þórður, Indriði Áki og Albert á miðjunni. Tryggvi og Alexander Már á köntunum og Þórir frammi. Enginn Fred var sjáanlegur á bekknum, væntanlega enn meiddur á öxl eftir nýlegt fólskubrot.

Liðin gengu inn á völlin. Framarar óþreyjufullir að taka við verðlaunabikarnum en Mosfellingar líklega spenntastir af öllu að klára mótið og gleyma 8:0 hrakförunum í síðasta leik. Fátt í líkamstjáningunni benti til þess að þeir væru líklegir til stórafreka.

Framarar byrjuðu með látum og strax eftir þrjár mínútur átti Alexander skalla sem flaug í fallegum boga yfir markvörðinn en líka markslána. Og tveimur mínútum síðar tók Albert aukaspyrnu á hættulegum stað sem varin var í horn. Þetta voru tvö síðustu atvikin sem fréttaritarinn náði að hripa frá sér áður en rigningin gerði sig líklega til að breyta minnisblokkinni í pappamassa.

Gestirnir lágu djúpt til baka og leyfðu Frömurum að stjórna miðjunni. Eftir tæplega tuttugu mínútna leik féll Albert í teignum en ekkert var dæmt. Hinu megin á vellinum fengu Mosfellingar hins vegar aukaspyrnu mínútu síðar. Hún small í stönginn og í kjölfarið var einn gestanna fyrstur að átta sig og setja boltann í netið, 0:1, þvert gegn gangi leiksins.

Þetta var ekki í samræmi við áður auglýsta dagskrá og í eitt augnablik misstu Geiramenn taktinn, sem annars sungu frá fyrstu mínútu til hinnar síðustu milli þess að sinna sí- og endurmenntun starfsmanna leiksins með kurteislegum ábendingum um hvenær rétt væri að standa í línu og veita gul spjöld. Þá var fyrirliða Aftureldingar í fáein skipti bent á að hann væri örþreyttur og hann eindregið hvattur til að hvíla sig.

Var Framliðið að fara að fokka upp tapleysisgöngu sinni í lokaleiknum og það á móti Hvolpasveitarlausum Mosfellingum? – Þær áhyggjur reyndust óþarfar. Strax í næstu sókn átti Halli flotta sendingu á Albert en skot hans var naumlega varið í horn. Albert tók hornið sjálfur, varnarmenn Aftureldingar komust fyrir það en boltinn hrökk til Hlyns sem stóð utarlega í teignum og lét vaða á markið. Boltinn spýttist af blautu grasinu og í markhornið, 1:1. Gaman fyrir fyrirliðan að skora – og það með fótunum! Hlynur er búinn að vera í essinu sínu í síðustu leikjum.

Eftir markið fór leikurinn aftur í sömu skorður. Aftureldingarmenn hugsuðu fyrst og fremst um að verjast og máttu þakka rangstöðuvörninni sinni fyrir að Framarar sluppu ekki í gegn í 2-3 skipti. Á 35. mínútu rauk Aron Þórður hins vegar upp miðjuna og var felldur rétt utan vítateigs. Aukaspyrnan small í varnarveggnumm, hrökk til Alberts sem lyfti boltanum á Alexander Már sem lét vaða í slánna og inn. Fallegt mark og skyndilega virtist sólin gægjast í gegnum súldina í Sambamýri. (Höskuldarviðvörun: þetta var ekki sólin, heldur flóðljósin sem búið var að kveikja á.)

Sjálfstraust Aftureldingarmanna var lítið í upphafi en eftir annað markið rauk það endanlega út í veður og vind. Markvörður gestanna fékk sendingu frá samherja og var of lengi að koma henni frá sér aftur. Þórir var fljótur að hugsa, hljóp og vann boltann af honum, rúllaði svo fyrir á Alexander sem skoraði aftur fimm mínútum eftir fyrra mark sitt. Ekki fallegasta markið en þau telja öll jafnt.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks kom svo rothöggið. Framarar fengu hornspyrnu sem Albert setti rétt fyrir framan markið. Þar sáu engir varnarmenn ástæðu til að koma á móti Kyle sem skoraði enn eitt markið eftir nákvæmlega sömu uppskriftinni. Fimm mörk á einu tímabili er fáránlega góður árangur hjá miðverði – og mikið var nú gaman að lesa viðtalið við okkar allra besta Kyle á mbl.is í morgun, bara svo það hafi nú verið sagt.

Hundvotir héldu fréttaritarinn og Óskar án hattsins inn í félagsheimili, nánar tiltekið í tækvondósalinn þar sem boðið var upp á rjúkandi kaffi og ostaslaufur í tonnatali. Þar urðu fagnaðarfundur þar sem Valur Norðri var mættur með markafleyginn sem þegar var genginn niður úr öxlum. Hann var væddur regnhlíf enda í spjátrungsfrakka sem einhver hafði talið honum trú um að væri vatnsheldur. Hann var ekki vatnsheldur. – Þorbjörn Atli rann á lyktina af fleygnum. Bar fjórmenningaklíku þessari saman um að leikurinn væri hin mesta skemmtan, þótt varla væri hægt að segja að okkar menn léku sérstaklega vel. Mótspyrnan var hins vegar nánast engin.

Eftir hlé hafði fækkað allnokkuð í stúkunni. Fram gerði eina breytingu í hálfleik. Gummi Magg kom inná fyrir Albert. Það hefur væntanlega glatt Magnús í Upplyftingu sem var á vellinum. Af öðrum nánum aðstanendum leikmanna mætti nefna ensk hjón sem hljóta eiginlega að vera foreldrar Danny Guthrie og svo auðvitað mamma Þóris sem sat í sömu röð og fréttaritarinn eins og venjulega. Nú eru komin foreldrafélög í framhaldsskólum, svo þess getur ekki verið langt að bíða þar til slíkt hið sama byrjar í meistaraflokkunum í fótboltanum.

Fram fékk 3-4 hálffæri á upphafsmínútum hálfleiksins og gestirnir virtust sífellt niðurdregnari, vitandi af langri heimferð í blautum íþróttagallanum um ótal hringtorg. Slagurinn um Korputorg var löngu tapaður.

Alex Freyr kom inn á fyrir Óskar, sem hafði raunar átt prýðilegan leik. Óskar hefur komið frekar stopult við sögu hjá okkur í sumar, en er greinilega afar fjölhæfur því hann hefur tekið að sér ýmis hlutverk og oftast skilað þeim vel. Um leið kom Danny inná fyrir Tryggva.

Um miðjan hálfleikinn jókst enn á ógæfu gestanna þegar einn leikmaður þeirra ákvað að kippa Alexander niður í teignum. Dæmt var víti sem Alexander fékk vitaskuld að taka sjálfur til að tryggja sér þrennuna. Það gerði hann af miklu öryggi og staðan orðin 5:1. Beint í kjölfarið fór Þórir af velli fyrir Má.

Í tilefni af Íslandsferð foreldra sinna gerði Danny Guthrie tilraun til að skora úr aukaspyrnu af löngu færi, en markvörður Aftureldingar varði naumlega. Úr hornspyrnunni í kjölfarið sendi Danny hins vegar beint á kollinn á Alexander sem náði þar með fernunni, 6:1. Frábær leikur hjá honum og vel gert að smygla sér í hóp markahæstu manna svona á lokasprettinum.

Meira bar ekki til tíðinda og dómarinn hirti varla um að bæta við nema fáeinum sekúndum þrátt fyrir nokkrar tafir og skiptingar í leiknum. Öllum var líka sama. Gestunum lá á að komast í heita sturtu en Framarar áttu eftir að zigga-zagga, lyfta bikar og standa fyrir magnaðri flugeldasýningu enn um stund.

Það er skrítin tilfinning þegar keppnistímabili í fótboltanum lýkur og ákveðin tómleikatilfinning hellist yfir mann. Við vissum öll að Fram myndi tefla fram góðum hóp í ár, en líklega datt engum í hug að þetta keppnistímabil yrði svona magnað. Fimmtíu og átta stig er það langmesta sem nokkurt lið hefur fengið í tuttugu og tveggja leikja móti í tveimur efstu deildunum. Einu sinni gerðist það í átján leikja deild að lið færi taplaust í gegnum mótið, en Breiðabliksliðið sem því náði gerði þó fleiri jafntefli en við í ár og það í mun færri leikjum. Með öðrum orðum: við Framarar erum langbest og langflottust. Og þá er ég ekki enn farinn að víkja að öllum öðrum styrkleikum okkar á borð við hlédrægnina og hæverskuna. Sjáumst að ári við rætur Hólmsheiðar.

Stefán Pálsson

 

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!