fbpx
52057427223_6635d498a8_c

Mínúturnar þrjátíu og níu…

Árið 1973 gaus upp Watergate-málið sem að lokum leiddi til afsagnar Richards Nixon Bandaríkjaforseta. Meðal þess sem í ljós kom í rannsókn þess var að forsetinn hafði látið koma fyrir leynilegum hljóðritunarbúnaði á skrifstofu sinni í Hvíta húsinu. Skiljanlega var talið mikilvægt að fá að vita hvað hljóðupptökur þessar hefðu að geyma og því þótti afar dularfullt þegar í ljós kom að átján mínútna og þrjátíu sekúndna eyðu var að finna í upptökum af fundi sem haldinn var þremur dögum eftir hið misheppnaða innbrot í Watergate-skrifstofur Demókrata, sem varð kveikjan að málinu og gaf því nafn sitt. Hvað gerðist á þessum tæpu tuttugu mínútum? Hvaða vanhelgu leyndarmál gæti týnda upptakan leitt í ljós? Um þetta hefur fólk skrafað og skeggrætt í fastnær hálfa öld.

Líklega munu menn á sama hátt um ókomna tíð ræða týndu 39 mínúturnar af leik Stjörnunnar og Fram í kvöld. Hvað gerðist eiginlega? Er í raun hægt að segja leikur hafi farið fram ef fréttaritari Framsíðunnar var ekki viðstaddur? Ef tré fellur í skógi…

Settur leiktími í Garðabænum var 16:15 á laugardegi. Vitiði hver annar setti niður fótboltaleiki klukkan kortér yfir fjögur á laugardögum? Hitler! Já – það gerði hann. Þessi skrítna deild sem við ákváðum að heiðra með nærveru okkar að þessu sinni er með asnalegustu leiktíma í heimi. Hvað varð um gömlu góðu fimmtudags- og föstudagskvöldsleikina úr Lengjudeildinni?

Fréttaritarinn flengdist úr einhverju kosningabaráttugiggi og auglýsingatökum, alltof seinn, þegar leikurinn var löngu byrjaður. Á leiðinni heyrði hann í skjaldsveininum sauðtrygga, Val Norðra, sem var í sömu sporum og eins og útspýtt hundskinn eftir allskyns fjölskyldusnúninga. Sem betur fer hafði hann þó vit á að fleytifylla markapelann góða kvöldið áður. Það eru þó einhverjir í þessu þjóðfélagi með forgangsröðunina á hreinu.

Á Bústaðaveginum gaf síminn merki um að tíðindi væru af kolkrabbaslóð. Guðmundur Magnússon hafði komið Frömurum yfir eftir stórglæsilegan undirbúning hjá Alex Frey, ef marka má frásögn Fótbolta-punktur-net. Við höfum þó ekkert nema orð þeirra fyrir þessu – eða að yfirhöfuð hafi farið fram nokkur leikur á þessum tímapunkti.

Fréttaritarinn steig rækilega á metangjöfina (en þó innan lögbundins hámarkshraða – það er enginn að fara að játa á sig lögbrot á prenti viku fyrir kjördag) og renndi í loks í hlað fyrir utan Stjörnuvöllinn. Í sömu andrá kom gamla Skonrokks-kempan Skúli Helgason aðvífandi á sínum einkabíl (í fullkominni félagshyggjuveröld hefðum við verið saman á Borgarlínunni). Ætli hann hafi ekki líka verið að kyssa ungbörn og pósa fyrir Smartlandið, melurinn!

„Þú deyrð úr kulda“, sagði Stjörnumaðurinn við innganginn, þegar fréttaritarinn kom móður og másandi í fráflaktandi vindjakkanum og þunnum ljósgráum pólóbol. Af fágætri samkennd með náunganum ákvað hann að rukka bara þúsundkall inn á völlinn, „úr því að þínir menn eru hvort sem er búnir að skora markið sitt…“ – bætti hann við. Yndislegt fólk Garðbæingar.

Garðbæingurinn í hliðinu vanmat fréttaritarann. Hann er feitur, loðinn og heitfengur. En vissulega var kalt í stúkunni. Skítkalt. Um leið og upp var komið rakst fréttaritarinn á skjaldsveininn. Það urðu fagnaðarfundir og markapelinn dreginn upp til að skála fyrir markinu sem enginn veit þó með vissu hvort var skorað eða ekki.

Eftir smá yfirlegu kom í ljós að uppstillingin var eitthvað á þessa leið: Óli Íshólm í markinu í ljótu HK-peysunni sinni. Hlynur og Delphin í miðvörðunum, Alex og Már bakverðir. Indriði Áki og Tryggvi aftast á miðjunni með Albert fyrir framan sig, Alexander Már og Maggi Þórðar hvor á sínum kanti. Gummi Magg á topnum. Sex heimaaldir í byrjunarliði þykir ekki slæmt í boltanum í dag og er til marks um það hvað Fram er á góðum stað um þessar mundir – og erum við þá ekki enn farin að tala um hversu þroskuð við erum andlega og í fínum jökkum!

Á markamínútunni fengu Stjörnumenn hörkufæri og bylmingsskot, sem Óli varði frábærlega. Beint í kjölfarið átti Magnús góða sendingu á Tryggva sem var í fínu færi en Stjörnumarkvörðurinn, sem verður vitaskuld ekki nafngreindur, varði. Í lok uppbótartíma skeiðaði Alex upp völlinn við fjórða mann, en engum félaga hans tókst að hlaupa sig almennilega fría og gott færi fór út um þúfur.

Um leið og flautað var til hálfleiks hlupu fréttaritarinn og skjaldsveinninn niður og undir vesturvegg stúkunnar. Þar var eins og venjulega rjómablíða og brakandi sól. Hvergi á byggðu bóli er jafnmikill munur á hitastigi og veðráttu en innan og utan stúkunnar í Garðabænum. Á meðan félagarnir sviptu sig klæðum til að stikna ekki í sólinni gerðu þeir upp hinn meinta fyrri hálfleik með Garðabæjarframaranum Þorbirni Atla, Adda út bankanum og fleiri góðum mönnum. Niðurstaða þeirra var almenn ánægja með upptaktinn í liðinu og spilamennsku sem batnaði leik frá leik. Almenn samstaða var um að Alex hefði farið á kostum og hlaupið af sér Stjörnusilakeppi að vild, Már væri að blómstra í bakverðinum hinu megin og Delphin væri virkilega vaxandi í sínu hlutverki. Ekki rífst maður við dóm slíkra manna.

Þegar líða tók að lokum leikhlésins fóru að sjást menn á kreiki með bjór í plastglösum, sem augljóslega höfðu komist inn í fínumannaboðið hjá Stjörnunni. Það var hrein hefndargjöf áður en lagt var í seinni hálfleik í Síberíu. Getur Garðabær virkilega ekki sníkt pening úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að setja hitalampa í þakið? Þetta er nánast lýðheilsumál!

Framarar mættu fjarri því eins ákveðnir til leiks eftir hlé og í byrjun. Liðið datt aftarlega á völlinn og Stjarnan fékk að taka yfir miðjuspilið. Lítið gerðist þó þar til eftir rúmar fimm mínútur þegar kæruleysisleg sending til andstæðings var næstum búin að leiða af sér stórhættu, en Óli var vel á verði. Nokkru síðar komst einn Stjörnumaðurinn upp að endamörkum og sendi fyrir, en boltinn rúllaði fram hjá markinu án þess að nokkrum tækist að pota honum í netið. Framarar héldu áfram að vera í basli allt fyrsta kortérið og alltof oft virtumst við freista þess að senda háar sendingar, sem vindurinn feykti flestum langt í burtu.

Okkar menn virtust staðráðnir í að verja forystuna, þótt enn væri langt til leiksloka. Þegar um tuttugu mínútur voru eftir, átti Alex Freyr frábæra tæklingu til hliðar við vítateiginn miðjan. Framarar í stúkunni klöppuðu fyrir afbragðs varnarleik en dómari leiksins flautaði aukaspyrnu og bætti við gulu spjaldi að auki. Sú vafasama ákvörðun reyndist afdrifarík, því úr spyrnunni tókst einum Stjörnumanna að jafna með skalla. Blóðugt jöfnunarmark, en ekki verður þó litið fram hjá því að Framliðið varðist alltof aftarlega í öllum föstum leikatriðum svo segja má að við höfum boðið hættunni heim, 1:1.

Beint í kjölfar marksins gerðu Nonni og Aðalsteinn tvöfalda skiptingu. Hosine Bility kom inn fyrir Tryggva. Hann færði sig í miðvörðinn en Hlynur fór framar á völlinn – og stóð sig mjög vel í því hlutverki það sem eftir leið leiks. Jannik hinn danski kom inná fyrir Gumma Magg og var sömuleiðis sprækur. Raunar mátti litlu muna að hann legði upp mark rétt eftir að hann kom inná. Skömmu síðar kom Fred svo inná fyrir Magnús. Brasilíska undrið hefur átt örlítið erfitt uppdráttar það sem af er sumri og virðist ekki fær um að spila heilan leik, en það stendur þó vonandi til bóta.

Skiptingarnar höfðu góð áhrif því nokkuð dró úr sóknarþunga Stjörnunnar, sem virtist um tíma ætla að hirða öll þrjú stigin. Þegar tíu mínútur voru eftir kom síðasta skipting Framara þegar Alexander Már fór af velli fyrir Aron Snæ, sem hefur lítt komið við sögu til þessa. Hann átti eftir að vera í eldlínunni.

Bæði lið virtust nokkuð sátt við stigið síðustu tíu mínúturnar af venjulegum leiktíma og spilamennskan virtist vera að fjara út. Vallarþulurinn tilkynnti að áætlaður viðbótartími væri fimm mínútur og þá virtist allt ganga af göflunum! Þegar 2-3 mínútur voru liðnar af uppbótartímanum átti Albert hörkusendingu á Aron Snæ sem reyndi skot úr góðu færi en hafði viðkomu á Stjörnumanni og yfir. Beint í kjölfarið kom hörkusókn Framara þar sem skotin buldu á markinu en einhvern veginn tókst að verja á línu að minnsta kosti í tvígang. Hvernig Fram skoraði ekki úr þeirri sókn er óskiljanlegt, en lítill tími varð til að gráta það færi því Stjarnan óð upp völlinn og tókst með jafnóskiljanlegum hætti að klúðra dauðafæri þar sem Delphin virtist verja á línu!

Eitt stig var uppskeran á erfiðum útivelli og ekki fyrir kvefsækna. Rússíbanareið Fram í Bestu deildinni heldur áfram og ljóst er að það er amk aldrei leiðinlegt á Framleikjum. Næsti leikur fer fram í Víkinni á fimmtudag þar sem vinir okkar Víkingar voru svo elskulegir að skipta á heimaleikjum til að tryggja að sem allra flestir leikir okkar í sumar fari fram í Taj Mahal íslenskrar knattspyrnu í Úlfarsárdal. Ó, hvað það verður gaman að þreyta frumraunina þar!

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!