Maímánuður 1983 var örlagaríkur í lífi ungs pilts í Vesturbæ Reykjavíkur. Með fjögurra daga millibili tók hann tvær ákvarðanir sem áttu eftir að móta líf hans meira en flest annað. Veita honum ómælda gleði, en færa honum jafnframt þjáningu í bílförmum, mynda sigg á sálina og móta hrjúfan, kaldhæðinn en þó innst inni næman og viðkvæman persónuleika.
Þann 10. maí 1983 fór rétt nýlega átta ára gamli Stefán á sinn fyrsta fótboltaleik. Völlurinn var Melavöllur í úrslitum Reykjavíkurmótsins og Framarar í næstefstudeild unnu 3:2 sigur á Íslandsmeisturum Víkings. Gísli Hjálmtýsson skoraði sigurmarkið og Gummi Baldurs varði endurtekna vítaspyrnu í leiknum. Átta ára gamli Stefán var orðinn Framari fyrir lífstíð.
Fjórum dögum síðar var lokaumferðin í enska boltanum. Spútniklið Luton Town, nýliðar í deildinni og frægir fyrir góða (en ekki alltaf sérslega árangursríka) spilamennsku voru nánast fallnir. Það eina sem gat komið til bjargar var sigur á útivelli gegn Manchester City, sem var örlítið ofar í töflunni. Heimamenn á Maine Road virtust ætla að landa markalausu jafntefli og senda krúttlega litla Bedfordskírisklúbbinn niður um deild. En þegar um fimm mínútur voru eftir hrökk boltinn út úr teig ljósblárra eftir þvögu og beint fyrir tærnar á Raddy Antic, Júgóslavanum sem síðar átti eftir að þjálfa Real Madrid, Barcelona og Atletico Madrid – einn manna. Hann sparkaði viðstöðulaust og beint í netið. Átta ára gamli Stefán var orðinn Lutonmaður fyrir lífstíð.
Þessar tvær gjörólíku lífsstílsákvarðanir hafa sjaldan valdið miklum árekstrum – ef frá er talinn leikur Luton og Reykjavíkurúrvalsins á gervigrasinu í janúar 1985 eða öll karlakvöldin þar sem við Gauti Laxdal föllumst í faðma sem einu Luton-mennirnir í Fram áður en það varð töff. Í seinni tíð eru allir orðnir Luton-menn, s.s. Sigurður Þráinn formaður knattspyrnudeildar og táningurinn hans Ívars Guðjónssonar…
Kvöldið í kvöld bauð upp á einn þessara fágætu árekstra. Úlfarsárdalsstórveldið átti útileik gegn Hólabrekkuljónunum í Leikni á nákvæmlega sama tíma og Luton Town mætti Huddersfield í seinni kappleiknum í að komast á Wembley í umspili Championshipdeildarinnar. Það fól í sér ákveðinn ómöguleika.
Sviðsmynd eitt var á þá leið að finna sportbar í Fellahverfi þar sem enginn yrði rændur eða laminn til að horfa á byrjun enska leiksins, bruna svo á Leiknisvöllinn og horfa á okkar menn með annað augað á vefstraumi í símanum. Það hefði aldrei farið vel. Þess í stað ákvað fréttaritari tveggja skjalda að halda sig í Ölveri Glæsibæ, lepja þar öl, horfa á Luton í fínumannaálmunni sem Ölver opnar alltaf þegar Lutonklúbburinn mætir og hlaupa svo fram í að horfa á Framleikinn á skjá innan um dónana í almenningnum í leikhléi og þegar enski leikurinn yrði búinn. Afbragðsplan en óhemjumetnaðarlaust fyrir íþróttafréttaritara. Til að tryggja sér augu og eyru á vellinum var Skjaldsveinninn Valur Norðri (sem greinilega tókst að strjúka Víkingsútvarpinu Fótbolta.net svo öfugt með síðustu snilldarskýrslu að þeir kveinkuðu sér mjög í síðasta þætti) sendur upp í póstnúmer 111 með markafleyginn beint af einhverjum fúlum foreldrafundi í Fossvogsskóla.
Það var flautað til leiks hjá Huddersfield og Luton við mikinn fögnuð beggja áhorfenda í fínumannaherberginu: fréttaritarans og Bjössa Berg, peninganörds hjá Íslandsbanka. Luton byrjaði með látum – á meðan klóraði fréttaritarinn sér í kollinum yfir uppstillingu Framara í Breiðholtinu: Óli í markinu með Delphin og Gunnar Gunnarsson nýjan í miðverðinum. Már öðru megin og Óskar Jónsson nýr inn hinu megin – í örlítið óvæntri skiptingu. Hlynur aftastur á miðjunni með tvíbbana Alexender Má og Indriða Áka á miðjunni og kantinum – Fred hinu megin, Albert framar og Jannik uppi á toppi.
Luton blés til sóknar og ég og bankaguttinn spenntumst upp úr öllu valdi. Öll marktæku færin í fyrri hálfleik komu í hlut Luton. Draumurinn um úrvalsdeildarbolta á fúahjallinum Kenilworth Road virtist allt í einu ekki svo fráleitur. Eftir um hálftíma leik í Huddersfield var flautað til leiks í Breiðholtinu. Fyrstu mínúturnar var jafnræði með liðunum, en brasilíska undrið Fred virtist þó óvenju líflegur. Því fagna allir góðir menn enda okkar allra besti Freddi ekki búinn að vera upp á sitt besta síðan um mitt síðasta tímabil. Þessi góða byrjun hans skilaði sér í glæislegu marki á 12. mínútu þar sem hann fékk boltann á miðjum vellinum, lék upp að vítateignum og lét vaða – án þess að nokkur maður reyndi að stoppa hann – í bláhornið og staðan 0:1!
Þegar flautað var til hálfleiks í Luton-leiknum gafst færi á að rölta fram í almenninginn til að horfa á Framleikinn á stórum skjá og kasta kveðju á fastagesti á barnum sem jafnvel fá póstinn sinn sendan á Ölver. Öllum lá gott orð til Fram en verra til úrslita sveitarstjórnarkosninga og bar mönnum saman um að lýðræðið væri rotnandi hræ. Á þessum tíma átti Jannik hættulegt færi eftir sofandahátt í Leiknisvörninni og fljótlega í kjölfarið átti Óskar skot nokkuð framhjá. Eins marks forysta í leikhléi!
„Hvað finnst þér um Villa?“ – spurði eitthvert blaðabarnið Davíð Oddsson á blaðamannafundi í Seðlabankanum þegar gamli góði Vilhjálmur Þórmundur var einu sinni sem oftar búinn að missa allt í skrúfuna. „Hvað finnst þér um stöðuna hjá Huddersfield?“ – spurði Davíð á móti. Það þótti fyndið og í kjölfarið ákváðu allir að Davíð héldi bæði með Fram og Huddersfield. Hvað sem því líður byrjaði Vilhjálmur Þórmundur… afsakið, Huddersfield, miklu betur í seinni. Hápressan í fyrri hálfleik var að taka sinn toll – og Danny Hylton var orðinn þreyttur – mjög þreyttur. Kannski ekki skrítið. Sannast sagna er Danny Hylton ekkert rosalega góður fótboltamaður en mesti drullusokkur og smásvindlari sem keppt hefur í annarri hópíþrótt en handbolta fyrr og síðar.
Sóknarþungi röndóttra í Englandi fór vaxandi og það sama gerðist í Breiðholtinu. Hlynur Atli – sem bæði Skjaldsveinninn og trommarinn úr Hnífsdal eru sammála um að hafi verið bestur okkar manna og þá hlýtur hann að hafa verið frábær – fékk gult spjald fyrir litlar sakir. Þetta kunnum við ekki að meta.
Á 64. mínútu opnaðist Framvörnin illilega og Leiknismaður sem væri nafngreindur á þessari síðu ef við hefðum þrælasiðferði náði að jafna, 1:1 og stemningin í fínumannaherberginu á Ölveri féll alveg um tvær tekjutíundir. Helvítis fokk.
Beint í kjölfar marksins ákváðu þeir Nonni og Aðalsteinn að gera tvöfalda skiptingu. Óskar og Jannik fóru af velli en þeir Hosaine Bility og Gummi Magg komu inn í staðinn. Það átti eftir að reynast árangursríkt!
Í Ölveri skorðu drengirnir hans Davíðs skítamark úr föstu leikatriði eftir aulalega aukaspyrnu þegar um tíu mínútur voru til leiksloka. Luton náði ekki að koma til baka. Öskubuskuævintýrið endaði í tárum. Þau enda alltaf í tárum. Iss, okkur langaði ekkert í þessa úrvalsdeild, við hefðum bara þurft að byggja nýjan bílskúr til að geyma allar skjalatöskurnar fullar af seðlabúntum!
„Við tökum næsta ár“ – sagði SMS-ið frá þrettán ára syninum sem heldur með Val og Manchester City, sem er fótboltasamsvörun þess að halda bæði með mafíunni og skattinum. Fréttaritarinn gat þó ekki annað en verið pínkulítið hrærður yfir umhyggjunni frá hans eigin holdi og blóði. Auðvitað tökum við næsta ár… Það er alltaf næsta ár.
Nánast í sömu andrá og örlítið blúsaður fréttaritarinn hlammaði sér niður í dónastofunni á Ölveri kom markið! Klukkan sýndi rúma 71. mínútu þegar sending kom inn í Leiknisteiginn, Fred tók á móti henni og fór mjög auðveldlega niður, þegar dómarinn sýndi engan áhuga stóð hann upp og sendi út á Gumma Magg sem stóð yst í vítateignum, enginn Breiðhyltingur hirti um að fara í hann og okkar maður átti engan annan kost en að leggja boltann snyrtilega í fjærhornið yfir markvörð heimamanna, flott mark og staðan 1:2!
Framarar drógu sig til baka og stefndu á að halda fengnum hlut. Albert og Indriði fóru útaf þegar um tíu mínútur voru eftir en inn komu Maggi Þórðar og Tryggvi Snær. Beint í kjölfarið kom dauðafæri lánlausra Leiknismanna. Maggi var óheppinn að ná ekki að gulltryggja sigurinn rétt um það leyti sem venjulegur leiktími leið út en markvörður Leiknis komst fyrir boltann. Eftir fjögurra mínútna uppbótartíma var loks flautað til leiksloka og fyrsti sigur Fram í Bestu deildinni varð staðreynd. Átta ára gamli Stefán hefði sætt sig við þessa skiptingu. Næsti sigur er formsatriði í Kópavogi og eina spurningin hvort ekki hafi verið gert ráð fyrir þessum þremur öruggu stigum í nýja félagsheimilinu.
Stefán Pálsson