fbpx
mfl.kv.

Girðingin

Við Klapparstíginn stendur hálfskringileg endurgerð á forhlið knæpu sem þótti hipp og kúl á hápunkti góðærisins fyrir hrun. Þetta er einhvers konar postmódernískur minnisvarði um Sirkus, þar sem svölu krakkarnir héngu milli þess sem þau stofnuðu netbólufyrirtæki og Björk greip í að dídjeia. Liturinn á kofanum var krúttkynslóðarsægrænn og er víst hægt að finna á litaspjaldi í Slippfélaginu.

Við sem eldri erum minnumst þó þessa húss þegar það var hvítt á litinn og hýsti Grand Rokk. Það var pöbb fyrir fagdrykkjumenn og afgreiddi hina fínustu þýsku bjóra sem hvergi annars staðar voru til á krana. Grand Rokk var Mekka skáklífsins í bænum, út frá staðnum óx taflfélagið Hrókurinn sem pakkaði saman nokkrum Íslandsmeistaramótum þar til Hrafn Jökulsson missti áhugann á að slátra litlum taflklúbbum með stjörnuliði austur-evrópskra stórmeistara og ákvað í staðinn að láta gott af sér leiða á Grænlandi. Og Grand Rokk braut einnig blað í íslenskri íþróttasögu þegar hann varð fyrsta knæpan til að gerast aðalauglýsandi á treyju fótboltaliðs. Það fótboltalið var kvennaflokkur Álftaness!

Grand Rokk-auglýsingin fína er því miður löngu farin af Álftanesstreyjunni og sannast sagna lagði fréttaritari Framsíðunnar ekki á minnið hvaða þjóðþrifafyrirtæki komið er í staðinn. Það var líka ekki mikill tími að rýna í auglýsingar, því ferðafélaginn og Hnífsdalstrymbillinn Kristján Freyr vildi koma við í pylsuvagni bæjarins fyrir leik. Þetta er frábær pylsuvagn/sjoppa og unnu kjötvörurnar virtust renna ljúflega niður.

Það blés á vellinum. Pínkulítið svekkjandi að mæta út á Álftanes eina dag ársins sem bærir vind, en það verður ekki á allt kosið. Vallarstæðið er alltaf jafnskemmtilegt, með hrossastóð við aðra hliðina. Milli vallarins og áhorfendabrekkunnar er svo vígaleg járngirðing sem er væntanlega hugsuð til að halda Álftanes Ultras í skefjum í grannaslagnum við FH og Stjörnuna. Áhorfendur voru fáir í byrjun og meirihlutinn líklega á bandi Framara. Heimafólki fjölgaði þó þegar leið á leikinn. Fréttaritarinn, Hnífsdælingurinn og félagi Sigurður Freyr – sem mætir örugglega á flesta Framleiki á ársgrundvelli – rottuðu sig saman.

Þar sem þetta er fyrsta leikskýrsla ársins í kvennaboltanum og talsverðar liðsbreytingar hafa orðið milli ára, var fréttaritarinn örlítið ryðgaður þegar kom að því að átta sig á uppstillingunni. Það verður bara að taka viljann fyrir verkið:

Marissa Zuchetto var þó örugglega í markinu og miðvarðaparið þær Erika Rún Heiðarsdóttir og Emilía Ingvadóttir. Þær eru báðar varnarjaxlar að skapi þess sem hér stýrir lyklaborði og áttu margar flottar tæklingar, einkum var Erika grjóthörð og bjargaði vel á mikilvægum augnablikum. Karítas María Agnarsdóttir og Þórhildur Elín Ásgeirsdóttir voru í bakvörðunum.

Aftast á miðjunni var Lára Ósk Albertsdóttir með hina úkraínsku Irynu Mayborodinu. Ylfa Margrét Ólafsdóttir og Ólína Sif Hilmarsdóttir á köntunum, Ana Da Costa Brai fremst á miðjunni og Jessica Cass Ray uppi á toppi. Hér er amk ekki mjög miklu logið. Athyglisvert er að allir sjö íslensku leikmennirnir í liðinu eru fæddar eftir aldamót.

Framkonur byrjuðu mun kröftugar og fljótlega kom í ljós að aftasta varnarlína Álftaness var brothætt, til að nýta sér það til fulls lék Framliðið stíft upp á að koma löngum sendingum inn fyrir vörnina sem nálega í hvert sinn olli miklum usla. Þá sjaldan að heimaliðið komst í sóknir reyndust þær hins vegar háskalegar. Álftanesliðið er kornungt (flestar fæddar 2005-07) og sprækt, en skorti líkamlega burði.

Eftir hálftímaleik varð sannkallaður darraðardans í vítateig Fram, þar sem Álftnesingar fengu hvert færið á fætur öðru á meðan okkar konum tókst ekki að koma boltanum frá. Skyttunum þremur í brekkunni stóð ekki á sama og sama gilti um ökuþórinn Hilmar sem var á næstu grösum. Eftirlitsmaður KSÍ glotti hins vegar í kampinn, bísperrtur í sambandsmerktum klæðnaði og svaraði öllum spurningum um reglugerðir varðandi keppni í 2. deild kvenna (stutta útgáfan er að það má allt!)

Mínútu eftir þessa bestu sókn Álfnesinga í leiknum mátti lið þeirra hirða boltann í eigið mark. Varnarmaður Álftaness hafði komist inn í sendingu frá Framara og ákvað að senda boltann aftur á eigin markvörð, en sendingin var of laus. Ylfa Margrét var eldsnögg að hugsa og hljóp í boltann og afgreiddi snyrtilega í netið. Markið vissulega slysalegt en engin ástæða til að taka neitt frá markaskoraranum, 0:1.

Á markamínútunni komst Ólína ein í gegn en markvörður Álftaness varði frábærlega – sem var kannski eins gott, enda virtist Ólína kolrangstæð í færinu. Á þeim skamma tíma sem eftir lifði hálfleiks náðu Framkonur þó að skapa tvö fín færi, þar sem Ólína og Ana komu báðar við sögu.

Í hléi lá leiðin í félagsheimili Álftnesinga, sem eru höfðingjar heim að sækja og veittu ókeypis kaffi og ómælt! Skyndilega breyttist samkoman í árshátíð tónskáldafélagsins þegar Hnífsdalstrommarinn, okkar eigin Toggi og Álftanessstuðningsmaðurinn og rokkhundurinn Finni sem kenndur var við Prikið og á einhvern haug af stelpum í öllum aldursflokkum Álftaness voru komnir á sama blettinn. Við tóku fjörlegar og óþarflega myndrænar umræður um fráflæðisvanda.

Seinni hálfleikur var nýbyrjaður þegar Álftanes komst í dauðafæri eftir varnarmistök í Framvörninni, en hörkutækling Eriku bjargaði málunum. Skömmu síðar fékk Álftanes aukaspyrnu á hættulegum stað en Marissa greip skotið eins og flest annað sem til hennar barst, greinilega hörkumarkvörður.

Það bætti heldur í vindinn. Hrossin kipptu sér þó ekki upp við neitt.

Þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik komst Fram í gott færi sem endaði á bylmingsskoti Ólínu en einn Álftnesingurinn náði að fleygja sér fyrir boltann og þurfti aðhlynningu í kjölfarið. Á meðan á því stóð gerð Fram sína fyrstu breytingu þar sem Guðrún Pála Árnadóttir kom inn fyrir Láru Ósk.

Næstu tíu til fimmtán mínúturnar höfðu Framarar talsverða yfirburði, en yfirleitt skorti herslumuninn upp á að komast í dauðafæri eða ná skoti. Jessica slapp þó ein í gegn eftir góða sendingu frá Guðrúnu Pálu, sendi knöttinn framhjá aðvífandi markverði en hann small í stönginni!

Þegar seinni hálfleikur var nákvæmlega hálfnaður átti Erika fast skot yfir og beint í kjölfarið var komið að næstu skiptingu. Halla Þórdís Svansdóttir kom inná fyrir Irynu. Beint í kjölfarið átti Ana – sem berst um titilinn kona leiksins við Ólínu – frábæra stungusendingu sem þeim Höllu og Ólínu tókst ekki að nýta.

Eftir þessar sóknarhrinur tóku Álftnesingar aðeins að rétta úr kútnum aftur og Frömurum í brekkunni var hætt að standa á sama. En líkt og í fyrri hálfleik slaknaði á vörninni um leið og heimaliðið færði sig framar á völlinn. Jessica átti góða stungu í gegn þar sem Ana stakk andstæðingana af og skoraði af öryggi, 0:2 og leikurinn í raun búinn.

Eftir þetta datt botninn aðeins út leiknum. Guðlaug Embla Helgadóttir kom inná fyrir Önu. Þegar fimm mínútur lifðu af venjulegum leiktíma var Jessica augljóslega felld í vítateignum, sloppin ein í gegn en dómarinn ákvað að láta það slæta í anda jafnaðarmennsku og meðalhófs. Fjórða skiptingin kom fljótlega í kjölfarið þar sem Auður Erla Gunnarsdóttir kom inn fyrir Ylfu. „Hvernig er það, þurfa skiptingar ekki að vera í þremur hollum?“ spurði Sigurður Freyr í forundran. „Nibbs, ekki í 2. deild kvenna. Þar má allt!“ – útskýrði eftirlitsdómarinn kankvísi…

Enn reyndist tími til að skora eitt mark í viðbót í blálokin. Sakleysisleg sending inn fyrir vörnina fór beint í fæturnar á varnarmanni Álftnesinga sem var of lengi að koma boltanum frá sér, Jessica hirti knöttinn og skoraði auðveldlega. Frekar billegt mark, en þau telja öll. Í heildina tekið gefa lokatölurnar, 0:3, ekki fyllilega rétta mynd af leiknum. Okkar konur voru miklu betri en Álftanes er ekki galið lið og gæti alveg stolið stigum að liðunum í efri hlutanum. Framarar gætu hins vegar ekki verið kátari. Þrír leikir búnir, þrír sigrar og allir þrjú-núll. Næsta stopp: opnunarleikur í Úlfarsárdal. Mætið þangað en verið ferningar ella.

Stefán Pálsson

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!