„Hvaðan kemur allt þetta fólk? Ég hef aldrei séð svona marga Framara og ég þekki fæsta!“ – spurði fréttaritari Framsíðunnar þegar hann hitti Óskar með hattinn (sem var reyndar ekki með neinn hatt að þessu sinni) í leikhléi í Úlfarsárdalnum í kvöld. Dyggir lesendur þessara pistla muna eftir Óskari frá eyðimerkurgönguárum okkar í Lengjudeildinni þar sem hann var oft nefndur til sögunnar. Hans helsta hlutverk á fótboltaleikjum er að benda leikmönnum andstæðinganna á að þeir séu þreyttir – jafnvel örþreyttir. Óskar er gamall trymbill og einn þriggja slíkra sem koma munu við sögu í þessari leiklýsingu.
„Þetta er lúpína“, svaraði Óskar, „blátt á litinn og sprettur bara útum allt og upp úr engu!“ Fréttaritarinn átti ekki orð yfir svona háfleygu svari og íhugaði alvarlega að stela þessu sem titli á pistil kvöldsins um leik Fram og FH í Bestu deildinni, annars heimaleiks meistaraflokks karla á fallegasta velli sem reistur hefur verið.
Upphaflega vinnuheiti pistilsins var: „Leið 18“ og vísar í að fréttaritarinn uppgötvaði sér til óblandinnar ánægju að frá heimili hans í Hlíðunum er tveggja mínútna gangur á strætóstoppistöð þar sem leið 18 fer um og skilar farþegum á tæpum hálftíma að inngangi Framheimilisins. Hvílík lífsgæði! Þessu fagna allir nema lifrin á fréttaritaranum.
Eftir viðburðasnauða strætóferð lá leiðin í fínumannaboðið í glerhýsinu sem gnæfir yfir leikvellinum, með Harry Potter-útsýni yfir laxveiðiána sem rennur um félagssvæðið. (Hefur komið nægilega skýrt fram í þessum pistlum hvað nýja Framsvæðið er að skilja öll önnur félög eftir í rykinu?) Þar var sest við hliðina á viðstadda fulltrúa Skonrokksdúettsins, Snorra Má og syni hans, japlað á smáhamborgurum og dvergpítum og beðið eftir Jóni Sveinssyni til að kynna liðið.
Nonni mætti seint og um síðir og var stuttorður (má ítreka fyrri uppástungu um að Aðalsteini verði falið þetta hlutverk – held að það félli öllum málsaðilum betur í geð). Stjórinn þuldi upp liðið og minnti á að Fram léki að venju 4-4-2, sem er agnarlítið vandræðalegt fyrir fréttaritarann sem hefur í á þriðja ár lýst leikaðferð okkar sem einhvers konar 4-5-1… en hvað vita þessir þjáfarar svo sem?
Óli var vitaskuld í markinu. Hafsentarnir voru Hlynur og nýliðinn Brynjar Gauti, sem Stjarnan úr Garðabæ taldi sig ekki hafa not fyrir. Við Framarar höfum hlýjar minningar um góðar sendingar frá Stjörnunni, Ingólfur Ingólfsson og Valdimar Kristófersson koma upp í hugann. Alex og Már voru í bakvörðum.
Á miðjunni voru þeir Almarr og Indriði Áki. Thiago og Magnús á köntunum (Fred er eitthvað meiddur, en von á honum í næsta leik. Albert sömuleiðis fjarri góðu gamni og Þórir líka.) Jannik og Gummi fremstir. Hörkulið á móti FH-liði sem er velmannað en hefur valdið miklum vonbrigðum á tímabilinu.
Fréttaritarinn rölti niður í stúku. Örlítið umkomulaus þar sem skjaldsveinninn sauðtryggi ákvað að kafa enn dýpra niður í mal sinn eftir langsóttum afsökunum. Núna þóttist hann vera staddur á fimleikamóti stúlkna í Sviss, að brenna upp gjaldeyri og skekkja vöruskiptajöfnuðinn. Það urðu hins vegar fagnaðarfundir í stúkunni þegar fréttaritarinn gekk beint í flasið á Rabba – Rafni Marteinssyni – okkar allra besta sölumanni trygginga. Um árabil var Rabbi þriðji maðurinn ásamt fréttaritaranum og Val Norðra á hverjum einasta Framleik, í súru og sætu. Svo fór hann til Svíþjóðar að vátryggja fólkið sem fann upp möbelfackta og er loksins snúinn aftur heim! Á yngri árum var Rabbi trommari í stuðhljómsveitum og spilaði m.a. með Cigarette á tíunda áratugnum. Hann er trymbill númer tvö í þessari frásögn.
Með Rabba og son á hægri hönd og Snorra Má og son á vinstri hönd gat leikurinn byrjað. Stúkan var full af fólki. Hvaðan komu allir þessir Framarar? Og þetta voru ekki bara gömlu og bitru Framararnir sem maður hafði bölvað og grátið með í hundraðþúsund leikjum og flestum í Grindavík og þeir voru ekki allir Orrasynir, heldur bara alls konar fólk sem maður hefur aldrei séð áður. Og konur. Og ungmenni. Og allir í bláu. Ég skil ekkert.
Fram byrjaði af krafti og strax eftir þrjátíu sekúndur var tónninn sleginn þegar vonlaus bolti virtist ætla að rúlla sakleysislega útaf, FH-ingurinn nennti ekki að hlaupa en Gummi Magg lét sig hafa það… og boltinn small af hornfánanum og hélst inná! Í kjölfarið fékk Fram hornspyrnu. Þetta eina atvik kjarnaði leikinn. Framarar nenntu og hlupu. Við vildum þetta meira. Strax eftir hornspyrnuna setti Jannik boltann í netið, en búið var að flagga rangstöðu á Hlyn.
Við tók hálftíma kafli þar sem bara eitt lið var á vellinum, Framarar. Þar af fyrsta korterið þar sem bláklæddir voru nánast stöðugt í sókn. Gestirnir voru framtakslitlir og eigruðu um völlinn eins og draugar. Helsta leið þeirra til að stöðva skjótar sóknir Framara var með brotum sem dómarinn lét furðurlega óátalin.
Á áttundu mínútu áttu Framarar hornspyrnu sem leiddi til ágætis skots sem var varið út í teig þar sem Almarr kom aðvífandi og náði bylmingsskoti sem einhver Hafnfirðingurinn náði að beina frá marki á síðustu stundu. Almarr var einn fárra leikmanna Fram sem virtust með meðvitund í Keflavíkurleiknum í síðustu umferð. Í kvöld var hann frábær. Barðist eins og ljón aftast á miðjunni og létti gríðarlega af varnarleiknum. Mögnuð innkoma hjá gömlum uppáhaldsleikmanni. Svona á að gera þetta!
Thiago var nærri því að opna markareikninginn á 12. mínútu með föstu skoti rétt fram hjá markinu eftir góða skyndisókn. Úr því að byrjað er að hrósa einstökum leikmönnum er rétt að mæra portúgölsku kempuna okkar sem átti marga frábæra spretti, einkum fram á við. Fréttaritarinn skal fúslega viðurkenna að hann var í hópi þeirra sem efuðust um að Thiago myndi ráða við að taka skrefið upp úr Lengjudeildinni í deild þeirra bestu, en étur nú hatt sinn af bestu lyst!
Hafnfirðingar brugðust við mótlætinu með hörðum tæklingum og fengu bakverðir og kantmenn Fram sérstaklega að kenna á því. Már og Magnús áttu þó góða spretti í gegnum FH-vörnina. Þeir ná sérlega vel saman, enda gjörþekkja þeir hvor annan. Um miðjan hálfleikinn myndaðist nokkrum sinnum stórhætta í vítateig FH-inga og í eitt skiptið sópaði Gummi boltanum yfir og taldi sig hafa verið togaðan niður í sömu andrá.
Eftir fullkomið meðvitundarleysi í hálftíma tóku FH-ingar að vakna örlítið til lífsins. Á 35. mínútu átti Hlynur góða tæklingu og í kjölfarið varði Óli vel, boltinn fór út í teiginn og aðvífandi FH-ingur skaut framhjá úr dauðafæri. (Höskuldarviðvörun: þetta var annað tveggja dauðafæra FH í leiknum.)
Framarar virtust aðeins vakna við þessa sóknarlotu gestanna og á markamínútunni slapp Jannik einn í gegn um vörn þeirra – en var flaggaður rangstæður. Tæpara gat það varla verið.
Í hléi hitti fréttaritarann Þróttarann Baldvin, sem er örugglega glaður að vera nafngreindur. Hann hrósaði Almarri og talaði illa um Njarðvíkinga í engri ákveðinni röð. Því næst lá leiðin í fínumannaboðið á efri hæðinnil Sævar Guðjónsson og Addi í bankanum voru ánægðir með spilamennskuna. Öllum bar saman um að það væri mjög skrítið hversu mikið væri af alls konar fólki í bláum og hvítum fötum. Óskar hitti naglann á höfuðið. Þetta er lúpína!
Seinni hálfleikur var byrjaður þegar fréttaritarinn togaðist niður úr fínumannapartíinu. Rabbafeðgar og Snorra Másfeðgar voru þegar sestir. Mamma Þóris var tveimur röðum neðar. Aðrir umhverfis voru óþekkt aðkomufólk. Hvaðan kemur allt þetta lið?
Fram byrjaði betur eins og í fyrri hálfleiknum. Eftir um fimm mínútur náði Jannik að brjótast af harðfylgi upp kantinn og sendi fyrir markið á Gumma sem náði ekki að leggja boltann nægilega vel fyrir sig, skaut í FH-markmanninn sem varði út í teig. Þar kom Már aðvífandi, sendi yfir á Thiago sem var betur staðsettur og afgreiddi boltann snyrtilega í netið. Frábært mark og Fram komið yfir, 1:0!
Um leið og markið leit dagsins ljós virtist dagskipunin hjá Framlíðinu vera að verja forystuna (sem kann að virðast fífldjarft hjá liði sem hefur verið að fá á sig þrjú mörk í leik það sem af er sumri). En það var gamla Fram! Fram án Almarrs og Brynjars Gauta. Nýja Fram er óvinnandi vígi í öftustu víglínu og frumraun nýja miðvarðarins var ekkert minna en stórkostleg. Leyfið mér aðeins að tékka á því hvernig hans gamla liði gekk að verjast í kvöld á heimavelli…
Tryggvi kom inná fyrir Magnús þegar um tuttugu mínútur voru eftir af leiknum. Í kjölfarið kom Tryggvi við sögu í tveimur ágætum færum en hvorugt skapaði mikla hættu. Aron Kári leysti Jannik af hólmi á 83. mínútu. Daninn var orðinn býsna þreyttur en var samt afar ósáttur við að víkja af velli – sem er gott mál. Við viljum að leikmenn bregðist illa við skiptingum! Beint í kjölfarið fékk Lennon (sem er nafngreindur í heiðursskyni, þrátt fyrir að vera FH-ingur) dauðafæri en skaut framhjá.
Thiago fékk heiðursskiptingu fyrir Orra þegar tvær mínútur liðu af venjulegum leiktíma. Í uppbótartíma fengu FH-ingar hornspyrnu og sendu markvörðinn fram. Hornið fór fyrir lítið og Framarar geystust fram á tómt markið en í stað þess að láta hné fylgja kviði létu þeir nægja að sigla dýrmætum sigri í höfn.
Sigur á Fimleikafélaginu er alltaf góð úrslit og Framarar eru enn taplausir á fallegasta velli norðan alpafjalla. Ziggi-zagginn var frekar misheppnaður en fyrirgafst í ljósi geðshræringar og tilfinningalegs uppnáms. Fréttaritarinn ákvað að sníkja sér far heim frekar en að treysta á Strætó og bjallaði því í Hnífsdælinginn Kristján Frey. Hann er þriðji trymbillinn og fullkomnar því pistilinn.
Það er vægast sagt að rætast vel úr þessu tímabili og krafa okkar stuðningsmanna nú hlýtur að vera sú að gera atlögu að efri hlutanum þegar mótið skiptist í tvennt. Næsti leikur er því risastór, Frostakjólið um næstu helgi. Kannski verður fréttaritarinn meðal áhorfenda og kannski verður hann farinn í frí austur á land. Það verður amk nóg af trymblum.
Stefán Pálsson