Það var boðið upp á heimsendingu á fótbolta í gær. Í stað þess að fréttaritarinn þyrfti að hossast í strætó eða einkabíl heila þingmannsleið kom besta fótboltaliðið í bestu deildinni heim til hans í Hlíðarnar. Það var mjög skemmtilegt þrátt fyrir alla þessa Valsmenn sem voru þarna líka.
Valur hefur upp á að bjóða þrælfína samkomuaðstöðu í Fjósinu og af því að þeir eru höfðingjar heim að sækja var Frömurum stefnt þangað fyrir leik, þar sem ykkar einlægur var látinn sjá um pöbbkviss með Fram og Vals-þema. Að sjálfsögðu var spurt út í Bo Hendriksen!
Byrjunarliðið kvisaðist út. Nonni og Aðalsteinn buðu upp á varnarsinnaðri uppstillingu en verið hefur. Óli í markinu. Delphin og Brynjar miðverðir, með Hlyn Atla fyrir framan sig. Alex og Már í bakvörðum. Almarr og Indriði Áki á miðjunni. Thiago og Fre hvor á sínum kanti og Gummi fremstur. Það var strekkingsvindur, sem truflaði reyndar engan í stúkunni en hafði þeim mun meiri áhrif úti á vellinum.
Fréttaritarinn gekk til stúkunnar einn síns liðs. Rabbi og Valur báðir á leið í veiðiferð og reyndu því ekki að fá útivistarleyfi. Það er eitthvað verulega bogið við forgangsröðun þessara manna. Eftir að hafa setið einn mestallan hálfleikinn, ákvað fréttaritarinn að eins gott væri að standa bara efst í stúkunni. Þar mátti ganga að Valtý Birni vísum. Hann hefur aldrei setið yfir Framleik, nema fáeinar mínútur í senn og þá helst bara þegar við erum komnir með þriggja marka forystu. Hann gekk fram og til baka og það var erfitt annað en að hrífast með. Öll fótboltaupplifun breytist þegar maður er á hreyfingu og það er enn auðveldara að lifa sig inn í leikinn og öskra úr sér lungun.
Það var svo sem nóg af atvikum til að koma blóðinu á hreyfingu. Á fyrstu fimm mínútunum hafði Fred átt tvö góð færi og Óli slegið boltann glæsilega hinu megin. Þetta var fínn dagur hjá markverðinum okkar en hann féll samt í skuggann af kollega sínum í Valsmarkinu sem átti stórleik. Eftir tíu mínútna leik komst Tiago einn á móti honum, en maðurinn með KR-ættarnafnið varði. Hann stóð aftur í ströngu skömmu síðar þegar Delphin átti hörkuskalla að marki.
Um miðjan hálfleikinn dró aðeins úr sóknarþunga Framara og við tók stíf stöðubarátta á miðjunni. Spennustigið var hátt og leikmenn fljótir að æsa sig upp ef eitthvað kom uppá. Sérstaklega tókst Völsurum að láta það fara í taugarnar á sér hvað Tiago er góður í fótbolta. Svona er nú gæðum heimsins misskipt. Á 38.mínútu féll Már í vítateingum og miðað við sjónvarpsupptökur hefði hæglega mátt dæma víti. Valsarar blésu til sóknar á lokamínútum hálfleiksins og fengu nokkrar hornspyrnur. Upp úr einni slíkri skoruðu þeir 1:0 þegar tvær mínútur voru eftir. Súrt að lenda undir en óbragðið mátti deyfa með dýrindis hamborgurum sem foreldrafélag Valsmanna grillaði eftir öllum kúnstarinnar reglum.
Í Fjósinu var mannmergð, en einkum Valsarar og þeir verða ekki nafngreindir reglum samkvæmt. Þarna var líka Einar Kárason, jafnkátur og fréttaritarinn yfir þessari heimsendingu fótboltaliðsins síns. Við ættum kannski að stofna fréttabréf fyrir Framara í Hlíðahverfinu? Einu sinni gaf fréttaritarinn út blað fyrir Framara í Vesturbænum. KR-ingum fannst það ekkert sniðugt og klöguðu meira að segja til KSÍ!
Í seinni hálfleiknum höfðu Framarar vindinn í bakið. Ólafur varði vel í báðum fyrstu færunum eftir hlé en þá var röðin komin að Fram. Gummi Magg náði í tvígang að skjóta af stuttu færi úti við stöng upp úr skrítnum þvælingi en Valsmönnum tókst að komast fyrir. Framarar voru svo trekk í trekk við það að brjótast í gegnum vörnina en sendingarnar reyndust aldrei alveg nógu nákvæmar eða voru of fastar.
Seinni hálfleikur var ekki hálfnaður þegr Valsmenn fóru að nýta hvert tækifæri til að tefja, leikmenn að kalla inn sjúkraþjálfara af litlu tilefni o.s.frv. Markmiðið var greinilega að hanga á þessu eina marki.
Þegar kortér var eftir fór Fred af velli. Hann hafði staðið sig vel og komið sér í mörg færi. Inná kom Jannik eftir langa bið. Það yrði griðarlega dýrmætt á lokasprettinum ef hægt væri að koma honum í stand til að spila 90 mínútur. Um leið kom Albert inná fyrir Almarr.
Tiago virtist ætla að kóróna góðan leik sinn með glæsimarki þegar rúmar tíu mínútur voru eftir, með föstu skoti upp í samskeytin fyrir utan teig. Valsarinn með heildsalanafnið í markinu náði einhvern veginn að setja fingurgómana í boltann og koma honum þannig í slánna! – Var þetta að fara að vera svona kvöld?, spurði fréttaritarinn Valtý Björn, þar sem þeir örkuðu hvor framhjá öðrum í þungum þönkum.
Tiago tók sjálfur hornspyrnuna og mátti litlu muna að hún hrykki af Hlyni Atla og í netið. Fyrirliðinn átti stjörnuleik í gær eins og raunar allt liðið og vörnin þó sérstaklega. Það er freistandi að tengja það við komu Brynjars Gauta, en eftir að hann mætti á svæðið virtist það lyfta öllum hinum í vörninni.
Næstu mínúturnar skiptust á sóknir Framara sem flestar enduðu í máttlitlum hornspyrnum sem rokið þvældist fyrir eða droll Valsmanna sem tóku furðulangan tíma í alla hluti. Synir mínir eru röskari að taka til í herbergjunum sínum en Valsmenn að framkvæma útspörk þegar svona liggur á þeim.
En réttlætið sigrar að lokum! Tiago tók hárnákvæma aukaspyrnu utan af velli og setti beint á kollinn á Jannik sem stangaði í netið, 1:1. Enn voru átta mínútur eftir að viðbættum uppbótartíma og Framarar virtust staðráðnir í að sækja öll stigin þrjú. Það tókst þó ekki en sjö stig hljóta að teljast ásættanleg uppskera gegn uppáhalds fjandvinum okkar í sumar og vonandi verður úrslitakeppnisleikurinn gegn þeim í Úlfarsárdalnum – þá mun fréttaritarinn kippa í pólitíska spotta og tryggja að það verði aukavagn settur á leið númer 18 eða jafnvel harmonikkustrætó, því þeir eru svo skemmtilegir.
Nú tekur við tvíhöfði hjá Frömurum um næstu helgi. Fyrst eru það konurnar úti á Seltjarnarnesi kl. 14 á laugardag og svo KA í Dal draumanna kl. 17 á sunnudag.
Stefán Pálsson