fbpx
maissa gegn Gróttu vefur

Á annesjum

Þetta er búið að vera hálfglatað sumar hérna suðvestanlands. Ef undan eru skilin örfáir staðir á höfuðborgarsvæðinu – og þegar ég segi örfáir, þá meina ég í rauninni bara Úlfarsárdalinn – þá hefur þetta verið hálfgerð súld allan júní, júlí og ágúst. Ekki skrítið þótt hálf þjóðin hafi skellt sér til Ítalíu í sólarleit.

Í dag virtist reyndar rofa aðeins til og síðbúin sumarblíða skella á Reykvíkingum. Það var því kannski ekki að undra þótt fáir kysu að verja þeim degi úti á næðingsömum tanga í öðru sveitarfélagi. Það var því frekar fáliðuð sveit Framara sem lét sjá sig á Gróttuvelli, þar sem konurnar okkar léku annan leik sinn í úrslitakeppni 2. deildar. Áhyggjur skrópagemlinganna reyndust óþarfar. Það var sterk sól, hlýtt og þægilegur andvari á vellinum. Tilvalið fótboltaveður.

Leikurinn var nýbyrjaður þegar Fréttaritarinn renndi í hlað. Framkonur, í hvítu varabúningunum, voru með frekar varnarsinnaða uppstillingu – kannski skiljanlega, illa brenndar af því að hafa misst unnin leik gegn Gróttu niður í tap á lokamínútunum fyrr í sumar. Marissa stóð í markinu. Miðverðir voru Erika og Emilía, sem er tvítugur lánsmaður úr KR en þó stórættaður Framari með tengsl við Sæbjargar-fisksöluveldið. Ekki amalegt. Eydís og Ólöf bakverðir. Iryna, Ana og Lára á miðjunni. Ylfa Margrét og Fanney hvor á sínum kanti og Jessica ein uppi á toppi.

Leikurinn var ekki mikið fyrir augað framan af og sannast sagna ekkert sérlega vel leikinn af hálfu beggja liða á stórum köflum. Sárasjaldgæft var í fyrri hálfleiknum að liðin næðu að halda boltanum í meira en 2-3 sendingar. Þau fáu marktækifæri sem litu dagsins ljós urðu flest til eftir kæruleysi í vörnum beggja liða, þar sem leikmenn misstu boltann frá sér á stórhættulegum stöðum. Fyrsta alvöru færið kom í hlut Gróttu einmitt á þennan hátt eftir um tuttugu mínútna leik og endaði á góðri vörslu frá Marissu.

Beint í kjölfarið myndaðist stórhætta við Gróttumarkið eftir hornspyrnu, þar sem markvörðuinn brá sér í skógarferð. Fjörið hélt svo áfram á 25. mínútu þar Emilía (sem er líka afkomandi Kristjáns Oddssonar, handboltakappa) gleymdi sér í stutta stund við upprifjun á ættfræði og ein Gróttustúlkan var snögglega komin ein á móti markmanni en tókst einhvern veginn að negla framhjá.

Leikurinn var snögglega orðinn mjög fjörugur og eitthvað hlaut undan að láta. Á 28. mínútu vann Fanney boltann á hliðarlínu, sótti hratt fram, sendi fyrir á Jessicu sem náði að losa boltann yfir á Ylfu Margréti sem kom aðvífandi og skaut í netið, reyndar með viðkomu á aðvífandi varnarmanni, 0:1 og Fram komið yfir!

Viðurkenna má að markið var ekki alveg í samræmi við gang leiksins á þessum tímapunkti, en í kjölfarið virtust heimakonur slegnar út af laginu og Framarar gerðu sig líklegar til að ganga á lagið. Þegar tíu mínútur voru eftir að hálfleiknum varð darraðardans í teig Gróttu en Önu og Jessicu mistókst báðum að ná almennilegum skotum úr dauðafærum.Tveimur mínútum síðar varð fáránlegur misskilningur í vörn Seltirninga til þess að Jessica fékk boltan óvölduð í teignum en varð svo undrandi að hún annað hvort skaut langt framhjá eða reyndi mjög furðulega sendingu á ímyndaðan samherja.

Gróttuliðið vaknaði þó aftur til lífsins undir lok hálfeiksins og á 40. mínútu tókst þeim að jafna. Aðdragandinn var slysalegur. Framkonur voru ósáttar við einhvern úrskurð dómarans og gleymdu sér við að skammast yfir því, á meðan einn Seltirningurinn fékk góða stungusendingu og skoraði 1:1. Meira gerðist ekki fyrir hlé.

Fréttaritarinn hélt í veitingatjaldið ásamt Sigurði Frey, sem vitaskuld var mættur á völlinn og múltítaskaði – horfði á leikinn og símskjá um leið, væntanlega West Ham að keppa. Í greiðasölunni mátti fá vöfflur með stærstu rjómafjöllum sem sést hafa á íslensku sætabrauði. Fréttaritarinn ákvað að halda sig við kaffið, en ekki tókst betur til en svo að hann dældi sér fullu glasi að kakói. Skýrslugerðina eftir hlé verður því að skilja í því ljósi að maður í sykursjokki stýrir penna.

Eitthvað höfðu taugar beggja liða styrkst í seinni hálfleik því skyndilega fór að örla fyrir aðeins meira samspili. Fá færi litu þó dagsins ljós, amk ekkert sem manninum í kakóvímunni þótti taka sig að festa á blað. Eftir tæplega klukkutíma leik gerðu Framkonur sig líklegar. Liðið fékk horn sem Gróttu tókst illa að hreinsa í burtu og að lokum var Erika nærri búin að skalla yfir markvörðinn, sem náði naumlega að grípa.

Hinu megin varð stórhætta nokkrum mínútum síðar þegar ein Gróttukonan komst upp að endamörkum, sendi fyrir en einn Framarinn náði á síðustu stundu að renna sér fyrir boltann. Á 65. mínútu rak Sigurður Freyr upp fagnaðaróp – West Ham greinilega búið að skora. Sjálfur var Fréttaritarinn með annað augað límt á leik Luton og Wigan sem endaði með ólýsanlegum hörmungum.

Um miðjan hálfleikinn var komið að fyrstu skiptingu Framara. Eydís og Fanney fóru af velli fyrir þær Svövu Björk og Ólínu Sif. Sú síðarnefnda átti eftir að eiga mjög ferska innkomu.

Þegar tuttugu mínútur voru eftir, var Ana augljóslega spörkuð niður í dauðafæri á markteigslínu. Dómari og aðstoðardómari tóku ekki eftir neinu. Nokkrum mínútum síðar skall hurð nærri hælum þegar Marissa gerði sjaldgæf mistök, hljóp út til að reyna að hreinsa boltann í burtu en skaut í mótherja sem komst í kjölfarið í skotfæri en hitti ekki tómt markið. Gróttufólk hafði lítinn húmor fyrir þessu misnotaða marktækifæri og ekki jókst kátínan skömmu síðar þegar dómari leiksins komst (að því er virtist ranglega) að þeirri niðurstöðu að Marissa hefði slegið boltann utan vítateigs til þess að forða marki. Úr því að hann komst að þeirri niðurstöðu lá beint við að sýna markverðinum rauða spjaldið en í staðinn varð það gult. Úr aukaspyrnunni kom ekkert.

Nokkrum mínútum síðar fékk varnarmaður Gróttu að kippa niður fremsta leikmanni Fram sem var að sleppa ein í gegn. Fleiri skrítnir dómar á báða bóga litu dagsins ljós það sem eftir leið leiksins. Á þeim tíma skapaðist í tvígang hætta við Frammarkið. Það voru því örlítið fegnir gestir þegar flautað var til leiksloka. Fréttaritarinn og Gummi Magg, sem var bjástrandi við barnakerru, voru sammála um að þetta væri gott stig á útivelli. Þrír leikir eftir, þar af tveir í Dal draumanna. Sjö stig af þessum níu tryggja okkur sæti upp!

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!