Tímabilið 2022 var frábært hjá Guðmundi og setti hann boltann í netið alls 17 sinnum í Bestu deildinni og deildi þar með markakóngstitlinum. Guðmundur hefur framlengt út keppnistímabilið 2024 og er því ljóst að Guðmundur mun leika allavega tvö tímabil í viðbót í bláu treyjunni.
„Það er ánægjulegt að vera búinn að framlengja við félagið mitt. Það kom ekkert annað til greina en að vera áfram og byggja ofan á þá góðu hluti sem eiga sér stað bæði innan félagsins og hjá mér persónulega. Ég er virkilega spenntur fyrir komandi tímum og vona að við náum að gera betur á næsta ári og að við höldum áfram að skemmta okkar fólki sem og áhugamönnum um íslenska boltann.“ Sagði Gummi.
Árið var ekki bara stórt hjá Guðmundi hvað frammistöðu varðar en þá rauf hann einnig 200 leikja múrinn í sumar og hefur spilað 202 leiki fyrir félagið. Guðmundur fer því í hóp 26 eðal manna sem hafa afrekað það hjá Fram.
„Það var löngu vitað að Gumma líður vel í bláu og ánægjulegt að hann sé búinn að framlengja við okkur út tímabilið 2024. Gummi hefur verið ákveðinn í því frá fyrsta samtali að hann ætlaði að taka þátt í áframhaldandi uppgöngu félagsins.
Gummi er líka vinsæll meðal ungra stuðningsmanna klúbbsins og er frábært að uppalinn leikmaður sé svo góð fyrirmynd“ Sagði Agnar Þór Hilmarsson formaður knd. Fram.
Knattspyrnudeild Fram