FH-ingarnir Eydís Arna Hallgrímsdóttir og Katrín Ásta Eyþórsdóttir hafa báðar gengið til liðs við meistaraflokk kvenna á lánssamningi sem gildir út tímabilið.
Eydís er 19 ára miðvörður sem við Framarar þekkjum vel, þar sem hún spilaði með liðinu seinni hluta síðasta tímabils og gegndi lykilhlutverki þegar liðið tryggði sér sigur í 2.deild.
Katrín Ásta er er 18 ára bakvörður sem á nú þegar þó nokkra leiki að baki í Lengjudeild þrátt fyrir ungan aldur. Hún ætti að smella vel inn í hópinn þar sem eldri systir hennar, Þórey Björk, gekk til liðs við félagið fyrir tímabilið.
Báðir leikmenn koma til með að styrkja liðið fyrir komandi átök í Lengjudeildinni og við fögnum því ákaft að fá þær í dalinn. Við viljum jafnframt þakka FH fyrir gott samstarf, nú sem áður.