fbpx
Ólína gegn HK

Tannhirða

Í bíómyndinni Rocky frá árinu 1976 segir frá hálfgerðum undirmálsmanni, Rocky Balboa, sem kemst í hæstu hæðir í hnefaleikaheiminum með mjög óvenjulegri leikaðferð. Þegar í hringinn er komið lætur Rocky heimsmeistarann Appollo Creed lemja sig linnulaust í andlitið þar til maðurinn með lakkrísrúllunafnið verður þreyttur í handleggjunum og Rocky vinnur frægan sigur – í það minnsta móralskan.

Þessa bardagaaðferð ítalska folans hefur kvennaflokkur Fram í fótbolta tileinkað sér síðustu tvö árin. Taktíkin er nokkurn veginn þessi: tapaðu öllum vorleikjum svo stórt að andstæðingarnir verða orðnir þreyttir í löppunum á allri þessari markaskorun og sérfræðingarnir í hlaðvörpunum spá þér afhroði. Þá er tímabært að byrja mótið og hlæja alla leiðina í bankann. Þetta var aðferðin sem tryggði Frömurum meistaratitilinn í C-deildinni í fyrra og nú á fyrsta ári í Lengjunni ætlum við að hafa sama háttinn á. Eftir að hafa tapað með tennistölum í deildarbikarnum mættu Framkonur til leiks í bikarnum í síðustu viku og skelltu hörkuliði HK og í kvöld hófst deildarkeppnin. Andstæðingarnir: Grindavík á heimavelli.

Fréttaritarinn ákvað að hefja daginn á upphitun og heimsótti því tannlækninn sinn strax í morgunsárið. Fréttaritarinn hefur þá vinnureglu að hleypa engum upp í munnholið sitt með oddhvassa bora og krókstjaka nema viðkomandi séu verðlaunaðir og krosslagðir Framarar í bak og fyrir. Það var til skamms tíma Raggi Steinars en í seinni tíð Kjartan sonur hans. Eftir hrókasamræður um stafafurur og félagsmál Fram skóf félagi Kjartan um 100 grömm af tannsteini á brott. Þeim bar saman um að Framstelpur myndu massa þetta um kvöldið.

Það var hryssingslegt í Dal draumanna þegar líða tók að sjálfum leiknum. Mætingin var góð og umgjörðin öll til fyrirmyndar. Áhorfendatalan 170 manns heyrðist, það þætti fínt hjá mörgum liðum í efstu deild. Tveir stórir fánar blöktu í stúkunni og börnin á trommunum voru taktvissari en stundum gerist.

Nokkrar breytingar hafa orðið á leikmannahópi Fram milli ára og munar þar mikið um að útlendingahersveitin hefur verið endurnýjuð eins og hún leggur sig. Markvörðurinn heitir Elaina Carmen La Macchia, sem verður hér eftir einfaldlega kölluð Elaina. Erika Rún var á sínum stað í annarri miðvarðarstöðunni og Jóhanna Melkorka í hinni. Sylvía og Eydís Arna í bakvörðunum. Alexa Kirton og Grace Theresa Santos á miðjunni. Írena Björk og Ólína Sif hvor á sínum kanti og Thelma Lind og Breukelen Lachelle Woodard frammi. (Þessi uppstilling er að öllu leyti sett fram með þeim fyrirvara að fréttaritarinn gæti verið gjrösamlega í ruglinu enda skilur hann ekki leikkerfi og varla rangstöðuregluna.)

Það var hrollur í áhorfendum í veðurparadísinni sjálfri en ekkert þó miðað við hrollinn í Framliðinu sem byrjaði leikinn á eins skelfilegan hátt og hugsast gat. Eftir rétt um mínútu leik fengu gestirnir hornspyrnu sem tekin var nærri markinu, þar sem engri okkar kvenna tókst að böðla boltanum í burtu og einhvern veginn lak hann inn. Hvort það var beint úr hornspyrnunni eða einhverjum Grindvíkingnum í teignum var ómögulegt að segja, 0:1 og mótið varla hafið!

Betra tók ekki við næstu mínúturnar. Framvörnin virtist í hálfgerðu losti eftir þetta áfall og Grindavík fékk nokkur færi til að auka forystuna. Það besta á 17. mínútu þegar óvænt markskot af löngu færi virtist á leið upp í marknetið en Elaina var vel með á nótunum og sló glæsilega frá. Grindavík hefði hæglega getað skorað þrisvar á fyrstu tuttugu mínútunum. Hinu megin á vellinum sópaði Ólína boltanum yfir á fjarstöng eftir glæsilega sendingu frá Grace.

Eftir skjálftann í byrjun tóku Framkonur þó að vinna sig jafnt og þétt inn í leikinn og áberandi var hversu miklu sterkari og kröftugri þær voru í öllum návígjum en gestirnir. Efir rétt um tuttugu mínútna leik var Woodard (það er vandræðalega lítið samræmi í því hvort erlendir leikmenn eru nefndir með skírnarnafni eða eftirnafni í þessum pistlum, sumir kalla það stílbragð aðrir vanhæfni) nærri sloppin ein í gegn eftir góða stungusendingu en skaut í marknetið utanvert.

Nokkrum mínútum síðar fengu Framarar horn. Grace sendi fyrir markið þar sem allt var í voða í Grindavíkurvörninni og Ólínu tókst að komast í boltann og vippa upp í hornið eftir glæfralegt úthlaup markvarðarins, 1:1.

Eftir tæplega þrjátíu mínútna leik vildu Grindvíkingar fá víti en líklega var Elaina bara fljótari út í 50/50 bolta. Þetta er dúndurmarkvörður sem við höfum nælt okkur í og verulega flott í öllum úthlaupum ef upphafsmínúturnar eru frátaldar.

Á 33. mínútu náðu Framarar forskoti og markið var af dýrari gerðinni. Alexa, sem virðist ætla að vera svar kvennaboltans við Fred hinum brasilíska, fékk boltann rétt úti við vítateigshorn, lagði hann aftur á Alexu sem setti hann einfaldlega með föstu og einföldu bogaskoti upp í bláhornið, gjörsamlega óverjandi og algjör skrímer eins og unga fólkið segir.

Beint í kjölfar marksins tóku Framkonur öll völd og flóðgáttirnar virtust ætla að bresta. Sylvía skallaði framhjá í dauðafæri rétt fyrir framan markið en rangstöðuflaggið var komið á loft. Grindavík fékk þó sínar sóknir líka og boltinn small í þverslánni á marki Framara eftir eina hornspyrnuna þegar fimm mínútur lifðu af hálfleiknum. Skömmu síðar var klunnalega brotið á Alexu inni í vítateig, beint fyrir framan nefið á dómaranum, en brotið var eiginlega svo aulalegt, eins mikið úti í vítateigshorninu og mögulega var og hún hvort sem er ekki í neinu færi svo það var erfitt annað en að hafa skilning á því að sá með flautuna þættist ekki taka eftir neinu.

Mínútu síðar kom aftur til kasta dómarans. Grace elti bolta inn fyrir Grindavíkusvörnina sem hún átti engan möguleika á að ná. Þegar boltinn var í þann mund að rúlla aftur fyrir endamörk og okkar kona búin að hægja á ferðinni tókst einum Grindvíkingnum að hlaupa hana niður. Dómarinn virtist fyrst vera að gera sig líklegan til að draga upp gult spjald fyrir leikaraskap, en eftir að hafa ráðfært sig við aðstoðardómarann dæmdi hann réttilega víti – en aulalegra brot munum við ekki fá í sumar! Þarna gafst prýðilegt færi á að drepa leikinn en markvörður Grindavíkur varði þokkalegt skot Alexu í stöngina og þaðan rúllaði það eftir marklínunni og að lokum útaf hinu megin.

Framarar héldu inn í yl íþróttahússins örlítið svekktir með að hafa ekki náð að tvöfalda forystuna en almennt sátt við fína frammistöðu. Fram var mun betri aðilinn í fyrri hálfleik. Bjórdælan var látin ganga og ungviðið smjattaði á pizzum. Eftir á að hyggja smáklúður að hafa ekki kveikt upp í hamborgaragrillinu miðað við fjölmennið á vellinum en við erum enn að læra á nýja deild og erfitt að spá fyrir um mætingu.

Grindavíkurþjálfarinn hefur væntanlega öskrað kröftuglega á sínar konur í hléi og þær mættu til leiks staðráðnar í að láta finna aðeins meira fyrir sér en í fyrri hálfleiknum. Stundum birtist þetta reyndar í óþarfa hrindingum og tilefnislausum pústrum, en mun meira jafnræði var með liðunum í seinni hálfleik. Ekki liðu nema fimmtán sekúndur frá því að dómarinn flautaði leikinn á að nýju fyrr en Elaina þurfti að grípa inn af festu.

Þótt gestirnir sprikluðu gekk Frömurum ágætlega að drepa leikinn. Um miðjan hálfleikinn gerði Fram fyrstu breytingu. Þórey Björk kom inn á fyrir Alexu, sem var aðeins farin að þreytast eftir prýðilegan leik. Miðjan veiktist þó nokkuð við að missa hana af velli. Þegar tuttugu mínútur voru eftir kom Ylfa Margrét inná fyrir Eydísi. Framliðið virtist fyrst og fremst hugsa um að halda fengnum hlut og jafnt og þétt jókst þunginn hjá Grindavík.

Með fimmtán mínútur til leiksloka fékk framherji Grindavíkur frítt skot úr miðjum vítateignum eftir hornspyrnu en negldi vel framhjá. Hættumerkin voru að hrannast upp. Á hinn bóginn fengu Framarar sínar skyndisóknir líka á þessum tíma og eftir eina hornspyrnuna skallaði Grindavík frá á marklínu. Naskir lesendur þessa pistils eru mögulega búnir að átta sig á að þetta var leikur þar sem hornspyrnur voru ávísun á almennt uppnám og hasar.

Þegar sjö mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma uppskáru gestirnir laun erfiðisins. Framvörnin sofnaði í augnablik og Grindavík komst í skyndisókn upp að endamörkum sending fyrir markið var á leiðinni til sóknarmanns Grindavíkur þegar Erika komst fyrir, en tókst ekki betur til en að boltinn hafnaði í netinu, sjálfsmark og 2:2.

Í kjölfarið gerði Fram síðustu skiptinguna. Katrín Ásta kom inná fyrir Thelmu Lind, sem hafði komist í prýðilegt færi rétt áður eftir góðan undirbúnin Woodard. Framliðið virtist ákveðnara í að knýja fram sigurinn á lokamínútunum en þær leystust þó upp í hálfgerða vitleysu undir lokin þar sem bæði lið hefðu getað stolið sigrinum. Jafntefli verða að teljast sanngjörn úrslit í bráðskemmtilegum leik. Næsta viðureign er í bikarnum, þar sem mótherjarnir eru Afturelding – liðið sem dömpaði okkur um árið, sem hlýtur að vera smá svekk núna þar sem við eigum flottasta völl á Norðurlöndum og þau eru bara sögusviðið í einhverjum skandinavískum fyllerísvandamálaþáttum um harpixhnoð á RÚV… Það er einhver boðskapur í þessu!

Stefán Pálsson

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!