fbpx
Ferd gegn FH

Deeply Dippy

Fólkið spyr mig stundum: „Fréttaritari Framsíðunnar: hvað með þessi göng til Vestmannaeyja? Er þetta ekki tómt bruðl og óráðsía?“

Þá svarar fréttaritarinn: „Nei, þetta er eina vitið. Byrjum að bora strax á morgun!“

Fólkið: „Já en, kostar þetta ekki sautján skrilljarða og fimmtán gommumilljónir? Hvað með börnin?“

Fréttaritarinn: „Jújú, en svo lengi sem Eyjamenn verða að treysta á Herjólf þurfa leikir þeirra í borginni að fara fram á fábjánalegum tímum eins og klukkan sex á miðvikudögum. Borum göngin og þá verður hægt að spila Fram:ÍBV á almennilegum kvöldtíma!“

Fólkið: „En er það ekki dálítið mikið fyrir einn leik?“

Fréttaritarinn: „Njah, í fyrsta lagi þá er það náttúrlega leikur á hverju ári – safnast þegar saman kemur. Og með nýja keppnisfyrirkomulaginu gætum við lent í tveimur heimaleikjum gegn ÍBV á einni leiktíð…“

Fólkið: „Og svo er það náttúrlega bikarkeppnin!“

Fréttaritarinn: „Hvaða helvítis bikarkeppni?“

Klukkuna vantaði fimm mínútur í sex þegar fréttaritari Framsíðunnar beygði tignarlega upp Bauhaus-afleggjarann á leið á fimmta leik Bestu deildar karla. Leiktíminn var glataður og ekki bætti úr skák að dagarnir eru undirlagðir af samskiptum við iðnaðarmenn, nánar tiltekið rafvirkja sem eru að draga í nokkur herbergi í kjallaranum í Eskihlíðinni og eru almennt sómamenn svo það hafi verið sagt. Það var því enginn tími til að éta kótelettur í fínumannaboðinu eða sötra öl með almenningnum. Blessunarlega voru skjaldsveinninn Valur Norðri og Rabbi trymbill, nýstiginn uppúr flensunni, búnir að finna þessi fínu sæti á besta stað í sömu röð og mamma Þóris.

Án kynningarfundsins með Nonna þjálfara þurfti fréttaritarinn sjálfur að finna út úr uppstillingunni með hjálp Úrslit.net. Það voru engin eldflaugavísindi. Óli Íshólm í markinu með Hlyn og Orra Akureyring í miðvörðunum. Þetta er sama varnarpar og í markasúpunni gegn Blikum í síðustu umferð. Brynjar Gauti og Delphin eru báðir meiddir, að sögn vegna höfuðhögga. Þetta hlaust af því að byrja að líta á miðverði sem vitsmunaverur – hér í gamla daga hafði enginn áhyggjur af því þótt hafsent fengi bolta í haus. Heimur versnandi fer!

Már og Adam voru hvor í sínum bakverðinum. Aron, Albert og Tiago á miðjunni. Fred og Maggi á köntunum og Gummi Magg uppi á toppi. Það var örlítið hryssingslegt í Dal draumanna og nokkur vindur eins og í ljós kom í hornspyrnum leiksins. Áhorfendafjöldinn ásættanlegur ef horft er til leiktímans og áreksturinn við kvöldmatinn kom glögglega í ljós í fáránlega langri hamborgararöðinni.

Fréttaritarinn var ekki fyrr búinn að hlamma sér niður þegar ÍBV fékk hornspyrnu og allt fór í voða. Höskuldarviðvörun: þetta var ekki í síðasta sinn sem það gerðist! Eyjamenn voru ákveðnari í upphafi og okkur gekk illa að koma boltanum fram á við. Ekki leið þó á löngu uns Framarar létu finna fyrir sig. Eftir tæpar tíu mínútur átti Albert, sem hefur verið mjög öflugur í sumar í öllu varnarsinnaðra miðjuhlutverki en verið hefur, góða sendingu á Tiago sem lét skot ríða af vel fyrir utan teig sem small af stönginni. Skömmu síðar vann Már boltann af harðfylgi, sendi á Fred sem átti prýðilegt skot sem Hollendingurinn í Eyjamarkinu varði.

Framarar áttu betri færin í þessum fyrsta hluta leiksins, en gestirnir virtust þó allt eins hættulegir vegna þess að ringulreið virtist grípa um sig í Framvörninni í hvert sinn sem ÍBV fékk horn eða aukaspyrnu.

Orri kom boltanum í Eyjanetið eftir tuttugu mínútna leik en rangstöðuflaggið var komið á loft. Tveimur mínútum síðar virtist Már felldur í vítateignum en ekkert dæmt. Skytturnar þrjár í stúkunni kipptu sér lítið upp við það, vitandi að hann myndi bara fá víti næst. Fljótlega á eftir var rifið í Fred þegar hann var að komast á skrið, hann reif sig lausan og fékk gult spjald að launum. Skrítnar smáákvarðanir af þessu tagi einkenndu dómgæsluna sem varð til þess að hleypa illu blóði í leikmenn – og var spennustigið þó nokkuð hátt fyrir. Leikmenn beggja liða voru duglegir við smábrot og að atast hver í öðrum, oftar en ekki þegar boltinn var ekki í leik. Gestirnir þó ívið meira.

Á 27. mínútu fengu Eyjamenn aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Framara sem rataði beint á óvaldaðan mann sem náði engum krafti í skotið sem rataði beint í fangið á Óla. Viðvörunarbjöllur tóku að hringja. Tveimur mínútum síðar kom markið. Slysalegt úthlaup Óla og farsakenndur varnarleikur urðu til þess að einn ÍBV-maðurinn náði einhvern veginn að þvæla boltanum í netið, 0:1.

Óli lá meiddur eftir markið, en félagar hans gerði litlar tilraunir til að heimta brot. Það tók örugglega þrjár mínútur að hefja leik að nýju, en varla voru liðnar nema tuttugu sekúndur frá því að miðjan var tekin þar til Eyjamenn ákváðu að úr því að ekki hefði tekist að gefa Má víti í fyrra skiptið væri ráð að bæta um betur. Honum var hrint beint fyrir framan Vilhjálm Alvar sem var ekki í neinum vafa um að benda á punktinn. Gummi fór á punktinn og skoraði með góðu skoti þótt markvörðurinn færi í rétt horn, 1:1 og einmöltungur flaut úr pyttlu. Á markamínútunni var Albert nærri því að ná forystunni þegar góður skalli hans fór rétt framhjá.

Af því að fréttaritarinn er alþýðuhetja ákvað hann að taka Framherjakaffið og bjórdæluna fram yfir fínumannakótiletturnar. Hljóðið var þokkalegt í mannskapnum en nokkur beygur þó greinilegur. Fyrri hálfleikurinn hafði verið í jafnvægi og Eyjamenn jafnvel ívið hættulegri. Með þunnskipaðan bekk var hætt við að illa færi þegar lykilmenn færu að þreytast.

Áhyggjurnar virtust ætla að raungerast í blábyrjun seinni hálfleiks þar sem hvítklæddir komust í gott færi. En þar með var líka skellt í lás!

Eftir um fimm mínútna leik átti Adam góða rispu upp að endamörkum en var óheppinn að koma boltanum ekki fyrir markið. Rétt í kjölfarið átti Hlynur fast skot að marki sem miðaði á tunglið. Framarar tóku völdin jafnt og þétt og eftir frábæran undirbúning Magga var Albert hársbreidd frá því að skalla í netið.

Margir Framarar áttu góðan leik í dag. Bakverðirnir voru fínir og Maggi ógnandi. Sendingarnar hans Tiago eru þær bestu í deildinni. Meðan sultuslaki Portúgalinn okkar er í þessu formi verður allt gott. Enginn var þó betri en Fred sem dansaði á milli Eyjaböðlanna og ógnaði markinu reglulega.

Þegar seinni hálfleikur var hálfnaður fékk Fram aukaspyrnu rétt við vítateigshornið Grafarholtsmegin. Fred stillti boltanum upp. Ungur maður með sixpensara sneri sér við og sagði við Fréttaritarann: ertu til í að skrifa núna í minnispunktana þína að Fred hafi skorað úr aukaspyrnu á 67. mínútu? Klukkan sýndi 66:14. Fred lét vaða og bamm – boltinn í markið. Það kann vel að vera að þrælarnir á KSÍ skrái þetta sem sjálfsmark á einhvern Eyjamanninn en við í stúkunni vissum að þetta var markið hans Fred og ungir menn með sixpensara vita hvað þeir syngja, 2:1.

„Fyrirsögnin er komin: Right Said Fred“, sagði Rabbi glaðhlakkalegur. Vissulega freistandi orðaleikur með vísunum í poppmenningu tíunda áratugarins, en sem hliðvörður íslenskrar tungu getur fréttaritarinn ekki látið hafa sig út í slíkt flipp og léttúð. Það er heldur ekki í boði að vera með einhvern plebbaskap eins og „I´m too sexy“ (sem vel að merkja var hugsað sem ádeilusöngur á yfirborðsmennsku og brenglaða fegurðardýrkun en snerist upp í andhverfu sína). Hins vegar sleppur til að nota titilinn „Deeply Dippy“ eftir hinum hittara snoðinkollanna frá Manchester. Þau skilja sem skilja.

Eyjamenn ætluðu að svara um hæl en glæsileg tækling frá Aron kom í veg fyrir það. Þetta var farið að verða kvöldið okkar!

Með fimmtán mínútur eftir gerði þjálfarateymið tvöfalda skiptingu. Albert hafði orðið fyrir smáhnjaski og fór af velli fyrir Tryggva og Gummi sem var orðinn kúguppgefinn eftir að hafa hlaupið úr sér lungun bað um skiptingu. Þórir leysti hann af hólmi og mæltist sú breyting dável fyrir í sætaröðinni.

Framarar áttu færin sem eitthvað kvað að næstu mínúturnar. Eyjamenn virkuðu þungir og andlausir og létu okkur líta út eins og Brasilíu, sem er nokkuð afrek – nema þá helst hvað Fred varðar. Elvis, miðvörður Eyjamanna (já, ég vík til hliðar reglunni um að nafngreina ekki mótherja ef þeir heita Elvis) hafði verið mjög einbeittur allan leikinn í að spila boltanum upp að eigin hornfána óháð því hvort lið hans væri undir eða ekki. Þegar tíu mínútur voru eftir gerði hann það einu sinni sem oftar, glutraði svo boltanum frá sér til Tryggva sem þáði höfðinglegt boð, renndi á Þóri sem skoraði af stakri yfirvegun. Rauðhærða tröllið fagnaði vel, 3:1 og sigurinn nálega í höfn.

Gestirnir misstu gjörsamlega hausinn eftir þriðja mark okkar. Tiago var fruntalega sparkaður niður í broti sem verðskuldaði amk gult spjald. Grindvíkingurinn Adam er með sterka réttlætiskennd og stuggaði við brotamanninum en var snarlega sleginn niður af Eyjamanninum með mörgu nöfnin. Nær allir á vellinum komu hlaupandi að til að hrópa „slagur-slagur“ og dómarinn hefði getað útbýtt fjölda spjalda í öllum regnbogans litum. Eyjamenn máttu þakka fyrir að sleppa með eitt rautt kort og slæm höfuðborgarferð varð enn ömurlegri.

Óskar leysti Tiago af hólmi þegar fimm mínútur voru eftir. Fred og Maggi komust í dauðafæri beint í kjölfarið en inn vildi boltinn ekki. Það gerði hann hins vegar mínútu síðar þegar Fred skoraði úr hjólhestaspyrnu en því miður var búið að flagga rangstöðu. Rétt fyrir lokaflautið fengu tveir úr unghanadeildinni mínútu í reynslubankann þegar Breki og Sigfús komu inná fyrirAron og Adam.

Það voru kátir Framarar sem gengu út í bjart Úlfarsárdalskvöldið eftir að hafa tekið tali harðasta stuðningsmannagengið af þeim öllum – Raufarhafnardeildina sem heldur með Fram út af Hólmsteini Jónassyni og var sérsaklega mætt á völlinn að þessu sinni. Fagna því allir góðir menn.

Mikið er gaman að vinna fótboltaleiki. Það kallar jafnvel á að maður skelli Deeply Dippy með Right Said Fred í gettóblasterinn. Næsti leikur er heima gegn Stjörnunni 8. maí. Mættu eða vertu ferningur ella!

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Karfa0
There are no products in the cart!
Halda áfram að versla
0