fbpx
FRAM stelpur

Ísinn brotinn

Á Íslandi eru vetrarmánuðirnir tími fyrir inniíþróttir eins og bridds, fluguhnýtingar og harpixballett. Sumrin eru hins vegar tími fótboltans. Þetta vita stelpurnar í meistaraflokki Fram og um leið og sumarið rann formlega upp í dag, tíunda júní, ákváðu þær að hefja þátttöku sína í Lengjudeildinni í ár. Svo heppilega vildi til að það var leikdagur.

Fréttaritarinn var mættur tímanlega upp í Dal draumanna. Veðrið var gullfallegt. Ágætur lofthiti og léttskýjað. Hins vegar var nokkuð sterkur vindur, sem beit ekki á áhorfendum í stúkunni en átti þó eftir að setja talsvert mark á leikinn. Áhorfendur voru fáir í upphafi leiks, þótt þeim fjölgaði nokkuð þegar á leið. Greinilegt að skellurinn gegn Gróttu í síðasta heimaleik hefur setið eitthvað í stuðningsfólkinu, en á það ber að líta að þá vantaði hálft liðið vegna meiðsla.

Sjúkraþjálfunarteymið hefur staðið sig vel, í það minnsta var Fram mun nær því að geta stillt upp sterkasta liði en í síðustu leikjum. Elaina var komin aftur á milli stanganna og munar um minna. Karítas og Jóhanna Melkorka voru í miðvörðunum og Sylvía og Irena hvor í sinni bakvarðarstöðunni. Fyrirliðinn Erika aftast á miðjunni. Þyrí Ljósbjörg og Alexa fyrir framan hana. Þórey og Ylfa á köntunum og Ólína fremst. Eða nokkurn veginn svona sýndist fréttaritaranum uppstillingin líta út, sem er birt með fyrirvörum um að hann er fáráður og var þess utan í hrókasamræðum við sendiráðsbílstjórann Garðar, Jón úr Bolungarvíkinni og Tóta íþróttastjóra sem gaf sér tíma til að horfa á slitrur af leiknum þegar hann var ekki að gera og græja. Þetta var fádæma mannval og enginn tók eftir því þótt skjaldsveinninn Valur Norðri víðs fjarri, líklega að undirbúa ræðuna fyrir fimmtugsafmælið sem við erum báðir að fara að mæta í í kvöld.

Til marks um breyttar áherslur Framliðsins í þessum leik má nefa að við lentum ekki undir á fyrstu tveimur mínútunum sem var skemmtileg nýbreytni og líklega skynsamleg. Mótherjarnir FHL byrjuðu með vindinn í bakið. Þrátt fyrir nafnið er FHL hvorki póstþjónustufyrirtæki eða nafn á persónuleikaröskun eða taugasjúkdómi heldur mun það vera bræðingslið Héraðsbúa úr Hetti frá Egilsstöðum og fólksins niðri á fjörðunum í Fjarðabyggð og Leikni Fáskrúðsfirði. Hér eftir verður vísað til þeirra sem Austlendinga eða e-ð álíka.

Austurlandsliðið með ógagnsæju skammstöfunina hefur verið árinu lengur í Lengjunni en okkar konur. Í liðinu eru nokkrir mjög fliknir leikmenn sem geta refsað hratt fyrir mistök og þær kunna greinilega að nýta sér að leika í meðvindi.

Í fyrri hálfleiknum gekk  stúlkunum hans Smára Geirssonar líka betur að leika boltanum sín á milli en Framliðinu. Okkar leikmenn eru hins vegar líkamlega sterkari en flestir mótherjar (sem gildir sérstaklega um Alexu sem virðist bryðja steðja í morgunmat) og með kraftinum urðu okkar sóknir mun hættulegri þótt spilið væri kannski ekki svo lipurð. A fyrstu tuttugu mínútunum punktaði fréttaritarinn niður þrjú hálffæri og komu þau öll í hlut Fram. Fjarðaálspíurnar fengu þó sín færi og þegar fyrri hálfleikurinn var nákvæmlega hálfnaður náði Karítas með glæsilegri tæklingu að koma í veg fyrir að ein austfirsk slyppi ein í gegn.

Strax í næstu sókn náðu Framarar forystunni. Há sending kom á kollinn á Alexu sem stóð vel fyrir utan vítateig og átti erfitt með að ná valdi á knettinum sem skoppaði fyrir fætur Ólínu sem lét umsvifalaust vaða á markið. Boltinn sleikti samskeytin innanverð og Fram komið yfir með glæsilegu marki. Hvort okkar konu tækist að endurtaka leikinn í tíu tilraunum í röð skulum við láta liggja milli hluta – þetta taldi og Fram komið yfir.

Markið virtist vekja valkyrjur Lagarfljótsins til lífsins. Sóknarþungi þeirra jókst jafnt og þétt það sem eftir var hálfleiks. Tvö skot í röð fóru nærri Frammarkinu og eftir hálftíma leik reið ógæfan yfir. Ein Gerpisgrýlan (austfirskar örnefnavísanir verða blóðmjólkaðar í þessum pistli og það verður ekki allt fagurt) komst upp að endamörkum og sendi fyrir þar sem vörn Fram svaf á verðinum. Framherji Eiðaþinghár skaut af örstuttu færi, Elaina varði vel en boltinn hrökk í varnarmann og þaðan í netið, 1:1 og hundfúlt jöfnunarmark.

Leiðindin áttu eftir að tvöfaldast sex mínútum síðar þegar hreindýrabændurnir fengu horn (pun intended) sem Framvörninni virtist takast að bægja frá, en boltinn hrökk fyrir eina Hallormsstaðahrísluna sem smellhitti hann í gegnum þvöguna og í netið. Óþarflega snoturt skot og gestirnir komnir í 1:2. Á þessum tímapunkti leit lið okkar sannast sagna ekkert sérstaklega vel út og mátti heita vel sloppið að vera bara markinu undir þegar Tómas Mayer, góður dómari leiksins, flautaði til leikhlés.

Stemningin var örlítið blúsuð inni í íþróttahúsinu í hléi en kaffið nærði þó sálartetrið og vissan um að spila með vindinn í bakið í seinni hálfleik hughreysti mannskapinn.

Það var enginn Óskar Smári til að halda hálfleiksræðuna. Hann er staddur suður í sólinni með unglingaliðið í æfingaferð. En Aníta, hinn aðalþjálfarinn, var á sínum stað og með sjálfan Gumma Magg sér til halds og trausts. Hvernig svo sem ræðan var þá virkaði hún. Það var allt annað Framlið sem kom út eftir hlé og tók fljótlega öll völdin í leiknum.

Þegar seinni hálfleikur var fjögurra mínútna gamall átti Alexa bylmingsskot framhjá. Tveimur mínútum síðar kom löng sending af miðjunni inn fyrir vörn Litlu Moskvu. Markvörður gestanna og Þórey fóru í æðisgengið kapphlaup um hvor yrði á undan í boltann. Þórey vann, hljóp í fallegum boga framhjá markverðinum og lyfti knettinum svo yfir aðvífandi varnarmann og upp í þaknetið, 2:2. Fréttaritarinn og bílstjóri norska sendiherrans hæ-fævuðu hvor annan. Landið var allt farið að rísa.

Leikurinn róaðist aðeins eftir markið. Drottningar Drekasvæðisins virtust sáttar við stigið og þótt Framarar stýrðu leiknum varð lengra á milli hættulegra sókna. Héraðsstubbarnir hótuðu að ná forystunni á ný þegar 25 mínútur voru eftir, en óttalaust úthlaup hjá Elainu kom í veg fyrir það. Þetta er frábær markvörður sem við höfum nælt okkur í.

Um miðjan hálfleikinn hefði Fram átt að ná forystunni þegar Ólína átti góða sendingu utan af kanti á Alexu sem negldi á markið úr dauðafæri en því miður þráðbeint á markvörðinn. Þetta var síðasta snerting Ólínu í leiknum því hún fór af velli fyrir Fanneyju Birnu.

Þegar kortér var eftir af venjulegum leiktíma fékk Fram aukaspyrnu úti á miðjum velli. Írena, sem tók flestar slíkar spyrnur, ákvað að nýta vindinn og láta bara vaða á markið. Góður markvörður námsmeyja Hjörleifs Guttormssonar (ókey, ég fer að hætta bráðum) var vel vakandi og náði að blaka honum í þverslána og út.

Thelma leysti Ylfu af hólmi skömmu síðar og fáeinum sekúndum síðar náði Helgustaðasilfurbergsmolinn í marki Austlendinga að bjarga á marklínu eftir horn. Sóknin var að þyngjast og eitthvað hlaut undan að láta!

Timinn vann ekki með Framliðinu og eftir því sem mínúturnar liðu virtist líklegra að svekkjandi 2:2 jafntefli yrði rauninn. Við virðum stigið en jafntefli gefa ekki mikið þegar maður er í botnsætinu. En á fyrst mínútu fjögurra mínútna uppbótartíma tókst að höggva á hnútinn. Framarar sóttu upp kantinn og náðu sendingu fyrir þar sem Fanney Birna var óvölduð og afgreiddi frábæra fyrirgjöf auðveldlega í netið, 3:2 og almenn kátína braust út í stúkunni.

En það er ekki búið fyrr en það er búið! Enn voru þrjár mínútur eftir af leiknum og þótt Framarar verðu honum að mestu leyti í sókn, tókst okkur að missa eina Oddskarðsfrenjuna eina í gegn á lokaandartökum leiksins. Allir á vellinum sáu fyrir sér jöfnunarmark en Elaina rauk út úr markinu með hetjuvörslu í síðustu snertingu leiksins. Vonbrigði FHL-stúlkna voru sár og skiljanleg. Þetta er gott lið og eftirlætistengdasonur Norðfjarðar mun klappa fyrir því í öllum öðrum leikjum en í dag. Fram vann dýrmætan sigur sem þýðir að við erum ekki lengur í fallsæti og KR komið á botninn (örstutt hlé á skýrsluritun vegna ekkasoga). Koktelberið á kökunni var svo ziggi-zaggi við hliðarlínuna. Þetta er besta lag í heimi og virkar meira að segja í sópran.

Næsti leikur er Fylkir á útivelli. Mætið þangað eða verið ferningar ella.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!