Júdasargeit er magnað fyrirbæri í sambýli manna og dýra. Þetta hugtak er notað um búsmala, hvort heldur sem er geitur eða annan búfénað, sem er sérþjálfaður í að róa hin dýrin í hjörðinni með því að láta eins og allt sé í lagi, jafnvel þegar hópurinn er leiddur til slátrunar. Vel þjálfuð Júdasargeit skokkar glaðbeitt fyrst allra í gegnum sláturhúsið, til að fullvissa félaga sína um að öllu sé óhætt og fer svo óhult í gegnum færibandið á meðan hrekklausum fylgiskepnunum er breytt í kótilettur og lærissneiðar. Almennt séð þykir það til marks um frekar lásí persónuleika að taka að sér hlutverk Júdasargeitarinnar.
Fréttaritari Framsíðunnar var Júdasargeit í kvöld. Laugardagskvöldinu var varið í fimmtugsafmæli hjá Ragnari Kristinssyni, föður krikketíþróttarinnar á Íslandi (löng saga – verður kannsi rakin síðar) í hjarta Fossvogshverfisins. Ragnar er gamall handboltamarkvörður úr Víking og á gestalistanum var allt þotulið Víkurinnar, klappstýrur, stjórnarmenn og Þorbergur Aðalsteinsson. Á fjórða bjór var samið um að fréttaritarinn og skjaldsveinninn (sem leikur tveimur skjöldum og grillar hamborgara fyrir Víkinga á tyllidögum) fengju frímiða í fínumannastúkuna. Þar yrði setið að snæðingi með óvininum á meðan almennir Framarar, salt jarðar, myndu norpa við vesturjaðar Blesugrófarinnar. Það örlar ekki á félagshugsun í þessum manni!
Það var upphitun í síðdegissólinni hjá Val Norðra. Þangað mættu tilfallandi Víkingar, Valsmaður og Blikinn Gylfi Steinn sem er sonur Gunnars Steins Pálssonar sem bjó til slagorðið „Mjólk er góð“. Gylfi var í blazer og var reddað lopapeysu svo hann yrði ekki úti. Fréttaritarinn er feitur og loðinn og lét stuttermabolinn nægja undir vindjakkanum.
Í fínumannaboðinu var múgur og margmenni, en fréttaritarinn og skjaldsveinninn misstu þó af ræðu þjálfarateymisins. Þar kom fram að enginn Helgi Guðjónsson var í byrjunarliði Víkinga, enda kann þetta lið ekkert að fara með verðmæti. Gat nú verið! Snitturnar voru fínar og Lite-bjórflöskurnar kaldar. Sem sagt fínt.
Á netinu kom í ljós að Framliðið var óbreytt frá sigrinum á móti Keflavík. Óli í marki. Brynjar og Delph miðverðir. Már og Adam bakverðir. Hlynur aftastur á miðjunni. Aron og Tryggvi þar fyrir framan. Fred og Tiago á köntunum og Þórir frammi.
Rétt áður en flautað var til leiks örkuðu fréttaritarinn, skjaldsveinninn og Gylfi Bliki út í stúkuna til þjáningarbræðra sinna og -systra með snittur og bjór í vömbinni. Siðrofið var algjört. Rabbi trymbill og sonur höfðu bókað sæti við hliðina. Tveir af þremur Guðjónssonum voru í röðinni fyrir ofan og skáhalt til austurs var Evrópumeistararöðin þar sem Biskupinn og Siggi Helga, landskunnir West Ham og Man. City-stuðningsmenn sátu hlið við hlið. Nokkrum röðum neðar var svo trommusveit Geiramanna sem mætti og yfirtók stúkuna nánast allan tímann.
Fyrir leik hafði fréttaritarinn sagt hverjum sem heyra vildi að leikurinn færi 5:3 fyrir Fram. Auðvitað yrði spennustigið hátt enda ekki á hverjum degi sem besta og næstbesta lið Reykjavíkur – Reykjavíkurmeistararnir og silfurliðið – mættust á fótboltavellinum. Sá spádómur rættist hins vegar ekki og liðin voru mun varnarsinnaðri en búast hefði mátt við.
Fyrsta alvöru marktækifærið kom eftir tæpar tuttugu mínútur þegar Tryggvi átti eitraða sendingu fyrir markið frá endamörkum en Þórir var aðeins of seinn til að koma og stýra boltanum í netið. Þetta reyndist hins vegar ekki gefa fyrirheit um það sem koma skyldi því tveimur mínútum síðar skoruðu Víkingar úr sinni fyrstu alvöru sókn þar sem vörnin opnaðist eftir örlítið einbeitingarleysi í Framvörninni, 1.0.
Framarar reyndu að vinna sig aftur inn í leikinn en nokkrum mínútum síðar reið ógæfan yfir. Hættulítil sending kom inn í teig Framara en Óli markvörður og Brynjar Gauti virtust hlaupa saman og boltinn féll fyrirhafnarlítið fyrir fætur eins Víkingsins sem átti ekki í vandræðum með að skora. 2:0 í tveimur marktækifærum!
Fred, sem lék allra manna best í fyrri hálfleik, minnti á sig með því að fífla þrjá varnarmenn Víkinga strax í næstu sókn en náði að lokum ekki að taka skot á markið. Fjórum mínútum síðar voru hörmungar Framara fullkomnaðar þar sem Delph missti einbeitinguna í augnablik upp við endamörk og heimamenn komust í 3:0 – og það án þess að hafa í raun nokkru sinni farið úr öðrum gír.
Stemningin í stúkunni var orðin nokkuð þung en blessunarlega náðu Framarar marki til baka fyrir hlé. Fred sendi á Aron sem var straujaður í miðjum vítateignum. Hann náði þó skoti að marki sem markvörður Víkinga varði meistaralega. Augljóst víti var dæmt og Fred skoraði af öryggi, 3:1.
Svikamörðurinn sem fréttaritarinn er fór aftur í fínumannakaffið með óvininum á meðan heiðarlegir Framarar létu sér nægja viðurgjörninginn úti við. Á leiðinni til baka í sætin tóku fréttaritarinn og skjaldsveinninn þó tali yfirsteikarmeistara Víkingsgrillsins sem vildi koma því á framfæri að stuðningsmenn Fram hefðu verið allra skemmtilegustu og líflegustu viðskiptavinir Víkinga á grillvaktinni. Ekkert við það kemur á óvart.
Víkingar einsettu sér að verja fenginn hlut eftir hlé. Fyrsta markverða færið var eftir tæpar tíu mínútur eftir góðan samleik hjá Fred og Tiago. Skömmu síðar var Tiago nærri sloppinn í gegn eftir góða sendingu frá Þóri og þar á eftir átti Hlynur góðan skalla að marki en dómarinn hafði raunar dæmt leikbrot á Brynjar Gauta.
Þegar tuttugu mínútur voru eftir komu Gummi Magg og Magnús inná fyrir Þóri og Tryggva. Það breytti þó ekki miklu fyrir dýmaník leiksins. Fimm mínútum síðar þurfti Óli að taka á honum stóra sínum eftir snarpa sókn Víkinga, sem segir sitt að þetta var líklega fyrsta varsla okkar manns í leiknum.
Aron komst næst því að minnka muninn á 83. mínútu með góðu skoti sem varið var á síðustu stundu. Gaman væri að velta því fyrir sér hvernig lokamínúturnar hefðu þróast ef sá bolti hefði ratað í neið.
Undir blálok venjulegs leiktíma komu Óskar og Albert inná fyrir Aron og Adam en það breytti litlu. Fram mátti sætta sig við 3:1 tap gegn toppliðinu en frammistaðan var samt ekkert til að skammast sín fyrir og líklega hefðum við unnið flest önnur lið á þessum degi. Hlynur Atli var óvæntur maður leiksins. Nú þarf bara að þreyja þorrann og góuna yfir landsleikjahlé (vill til að stelpurnar munu spila á meðan) og svo er það bara að vinna FH í Kaplakrika.
Stefán Pálsso