Þegar fréttaritari Framsíðunnar var táningur vann hann í byggingarvinnu á Sauðárkróki. Þar var hann í fæði á Hótel Tindastóli og át rauðsprettu í hvert mál í minningunni. Og þar lærði hann líka að drekka bjór. Eftir eina slíka æfingatörn vaknaði hann heldur framlágur á fágætum sólardegi og var settur á brotvél, til að brjóta niður þakskyggni. Andstyggileg höggin í bitlitlum fleygnum sem hamaðist á grófri steypunni og hálfryðgaðri járnabindingunni nísti inn að beini. Högg eftir högg eftir högg. Það var samt fegurri tónlist en trumbuslátturinn á leik kvöldsins í Úlfarsárdal.
Ákafur stuðningsmaður ástsællra nágranna okkar úr Mosfellsbæ var mættur með eina trommu sem hann barði nálega linnulaust, oftast nær syngjandi hástöfum: „Aftu Relding“ sem var fyrst örlítið ruglandi, vandist svo með tímanum en varð aftur óþægilegt þegar það rann upp fyrir fréttaritaranum að „Afturelding“ rímar fullkomlega við „Lárus Welding“ og það sem eftir var leiks héldu martraðarkennd leiftur frá fréttatímum hrunáranna áfram að birtast fyrir hugskotssjónum. Nokkrir barnungir Framarar ákváðu að gjalda líku líkt í hálfleik og sóttu sér heljarmikið trommusett sem þeir börðu af kappi frekar en forsjá. Útkoman minnti á Einstürzende Neubauten á þriðja degi Þjóðhátíðar. En það er enginn að kvarta! Framkonur lönduðu sínum öðrum deildarsigri í sumar og lyftu sér aftur úr fallsæti. Slagurinn um tengivirkið Korpu var unninn!
Það var menningarreisa í póstnúmer 113 hjá fréttaritaranum í kvöld. Vinnudeginum lauk á fundi í menningarmiðstöðinni við Dalskóla og þar sem stutt var í leik var ákveðið að slá þessu bara upp í kæruleysi og njóta þess besta sem hverfið hefur upp á að bjóða í mat og drykk. Fyrir valinu varð staður við Þjóðhildarstíg sem sérhæfir sig matseðlum frá suðausturríkjum Bandaríkjanna með sérstakri áherslu á transfitu og salt. Því næst var brunað aftur í Dal draumanna þar sem franskt gangsterarapp var blastað í hljóðkerfinu okkar fína. Meira að segja plötusnúðarnir okkar eru svalari en á hinum völlunum!
Stúkan var tóm að kalla fjórum mínútum fyrir leik og hjartað sökk lítið eitt. Hvað var orðið um alla fínu mætinguna sem hefur einkennt okkur frá því í fyrra sumar? Áhyggjurnar voru óþarfar. Eftir að flautað hafði verið til leiks dreif mannskapinn að og í lokin var þetta orðinn hinn myndarlegasti söfnuður.
Elaina stóð í markinu, sem voru miklar gleðifréttir í ljósi þess að hún var borin af velli gegn Fylki í síðasta leik og mun hafa þurft ellefu spor á slysó (ég neita að lítilsvirða gáfur lesenda minna með því að setja hér brandara um 12 spora kerfið). Varnarlínan virtist amk til að byrja með vera þriggja manna með Jóhönnu, Karítas og Sylvíu. Írena, Þyrí og Erika inni á miðjunni – sú síðastnefnda er eins og nýr leikmaður í miðjuhlutverkinu eftir að hafa mikið til verið í miðverðinum í fyrra. Þórey og Ólína hvor á sínum kanti og bandaríska tvíeykið Breuk og Alexa frammi. Meiðslin hafa tekið sinn toll í sumar en nú erum við loksins að ná að tefla fram besta liði.
Fram byrjaði betur og átti nokkur hálffæri fyrsta stundarfjórðunginn en fátt þó svo markvert að það rataði í minnisbókina góðu. Framliðið pressaði hátt og olli það talsverðri taugaveiklun í liði Aftureldingar, sem er væntanlega ennþá sært eftir að við slógum þær út úr bikarkeppninni í vor. Á sextándu mínútu kom flott sókn þar sem Breuk og Alexa voru með stuttan samleik í gegnum miðjuna, stungu út í hornið á Ólínu sem kom aðvífandi og sendi boltann fyrir, eftir klafs í teignum barst boltinn í þverslánna og þaðan fyrir fætur Alexu sem skoraði, en dómari leiksins dæmdi markið af án sýnilegs tilefnis annars en þess að það hefði verið frekar slysalegt og óvirðulegt.
Tveimur mínútum síðar sleikti boltinn slánna hinu megin eftir að Elaina hafði náð að reka fingurnar í hann. Fimm mínútum síðar mátti hún hafa sig alla við að verja lúmskan skalla frá leikmanni Aftureldingar. Framliðið hélt undirtökunum, þótt gestunum tækist að vinna sig betur inn í leikinn seinni hluta hálfleiksins. Háskaleg sending aftur á markvörðinn var nærri búin að enda með ósköpum en gott úthlaup kom í veg fyrir að framherjinn Joseph sem var potturinn og pannan í leik liðsins næði að komast á milli.
Þegar tíu mínútur voru eftir átti Breuk aukaspyrnu rétt framhjá marki rauðklæddra eftir að brotið hafði verið á henni á vítateigshorni. Strax í næstu sókn setti Joseph boltann í net Framara en var kolrangstæð svo það stóð ekki. Hún virtist aftur augljóslega rangstæð nokkrum mínútum síðar en flaggið fór ekki á loft og Elaina þurfti að bjarga með góðu úthlaupi. Þetta er langbesti markvörður deildarinnar og hallaðist ónefndur ráðherra í hópi áhorfenda að því að hún eigi sér fáa jafningja í Bestu deildinni líka! Ekki deilum við við fulltrúa framkvæmdavaldsins.
Breuk var heppin að komast upp með harða tæklingu á hliðarlínunni alveg við miðju og var svo örskömmu síðar komin í fremstu sóknarlínu þar sem þær Alexa gerðu harða hríð að marki Aftureldingar. Þegar Mosfellskonur virtust hafa náð að afstýra hættunni misstu þær boltann í hornspyrnu á ákaflega klaufalegan hátt. Hornspyrna Sylvíu rataði beint á kollinn á Breuk sem stökk hæst allra þrátt fyrir að vera fráleitt sú hávaxnasta og þaðan í netið, 1:0 þegar aðeins mínúta var eftir í leikhlé.
Pizzusneiðarnar úr sjoppunni virtust gómsætar en fréttaritarinn ákvað þó að leggja ekki meira á kransæðarnar, heldur lét nægja að spjalla við Tóta íþróttafulltrúa. Á næstu grösum mátti sjá dönsku útlendingahersveitina úr karlaboltanum, Jannik og Delph. Ó, hvað það væri gaman að sjá Jannik komast aftur á ról!
Afturelding byrjaði seinni hálfleik með látum og Joseph kom sér í gott færi á fyrstu mínútu en Elaina varði vel í horn. Eftir nokkrar mínútur hvarf skjálftinn og Framkonur tóku völdin á ný. Þórey átti stungu inn í teig þar sem Þyrí var óvölduð en skot hennar var varið. Breuk átti svo gullsendingu á Þóreyju sem hefði getað sent áfram á samherja í opnu færi en reyndi í staðinn frekar misheppnað skot að marki.
Þegar seinni hálfleikur var rétt hálfnaður eygði Ólína færi á að vippa yfir markvörð gestanna sem var líka fljót að hugsa og náði að blaka boltanum í horn á síðustu stundu. Framliðið hafði talsverða yfirburði á þessum leikkafla en sá grunur læddist þó að áhorfendum að þeim yrði refsað ef þær skoruðu ekki annað mark til viðbótar. Slegið var á þær áhyggjur á 70. mínútu þegar Breuk stökk upp með bakið í markið og flikkaði boltanum inn fyrir vörnina þar sem Ólína var fljótust að hugsa, stakk varnarmennina af og afgreiddi boltann í netið af miklu öryggi, 2:0.
Fimm mínútum síðar fékk Þórey olnbogaskot í höfuðið sem fór þó algjörlega fram hjá starfsmönnum leiksins. Það var meira en réttlætiskennd markvarðarþjálfarans Hermanns Valssonar þoldi. Hann nældi sér í tvö gul spjöld í kjölfarið, annað væntanlega fyrir að vera í Arsenal-jakka en ekki Framúlpu. Þórey þurfti að yfirgefa völlinn eftir höggið og kom Ylfa Margrét inn í hennar stað.
Ólína hefði getað klárað leikinn endanlega þegar tíu mínútur voru eftir, en skot frá henni var varið glæsilega. Skömmu síðar fóru Ólína og Alexa kæruleysislega með ágætt færi.
Furðuleg uppákoma átti sér stað á 84. mínútu. Framarar áttu sendingu í gegnum Aftureldingarvörnina þar sem markvörður Mosfellinga renndi sér út en skall á samherja og hélt um höfuð sér. Boltinn barst til leikmanns Fram sem var í smá tíma að ná valdi á honum og hljóp svo í átt að marki, albúin að senda fyrir markið. Þá stöðvaði dómarinn loksins leikinn eins og vera ber þegar um höfuðmeiðsli er að ræða. Þegar búið var að stumra yfir markverðinum lýsti hann því yfir að Afturelding ætti boltann og rak Framara burtu þrátt fyrir mótmæli þeirra. Dómarakast var framkvæmt og Mosfellingar héldu knettinum. Sérkennilegt!
Fanney Birna kom inná í lokin fyrir Ólínu og markmiðið virtist vera að svæfa leikinn. Það mistókst hrapalega. Þegar mínúta var eftir þurfti Framvörnin að bjarga í horn. Afturelding snarfjölgaði í sókninni og smá fát virtist grípa um sig. Eftir klaufagang í Framvörninni tókst Mosfellingum að minnka muninn þegar ein mínúta var liðin af fjórum í viðbótartíma. Tveimur mínútum síðar fipaðist einum varnarmanna Fram svo að Afturelding fékk færi á að stela stigi í blálokin en skotið reyndist slakt. Þrátt fyrir mark í uppbótartíma bætti dómarinn ekki nema tíu sekúndum við og létu Framarar sér það vel líka. Sjöunda stigið er komið á töfluna og við tekur risaslagur í næstu umferð milli KR og Fram. Aðeins flón missa af þeirri rimmu!
Stefán Pálsson