fbpx
saman

Plast er best

Áður er lengra er haldið, skulum við öll gera okkur grein fyrir því hvers vegna þessi skýrsla er yfirhöfuð skrifuð. Það að skrifa um fótboltaleiki Knattspyrnufélagsins Fram er krefjandi iðja sem helst að jafnaði í hendur við árangur. Hvaða fábjáni sem er getur skrifað um sigurleiki og fengið skrilljón læk og rítvít nánast óháð því hvað segir í meginmálinu. Málið vandast örlítið þegar Framarar missa unnin leik niður í jafntefli eða tapa jafnvel naumlega þegar eitt stig hefði átt að vera í kortunum. Þá flykkjast unnendur blárra og klárra á heimasíðuna og vilja láta stappa í sig stálinu. Og fréttaritarinn er með diplómu og lektorshæfi í því. En svo eru það skiptin þegar við skítum upp á bak og töpum stórt. Hvað gera Danir þá?

Það er enginn að fara að lesa fótboltapistil um 4:0 tap í Kaplakrika sjálfviljugur, en það er ekki hægt að sleppa því að skrifa skýrsluna af þeirri einföldu ástæðu að það myndi kæta um of hælbítana og hýenurnar! Jakobar Bjarnarar þessa heims myndu renna á blóðlyktina og niðurlæging okkar yrði enn meiri. Þess vegna mun fréttaritari Framsíðunnar standa keikur og skrifa sín mörgþúsundslög út í tómið í færslu sem enginn mun lesa nema Tóti íþróttafulltrúi sem hefur skráningaraðgengi að heimasíðunni.

Í dag var Árni Johnsen borinn til grafar. Hann var stjórnmálamaður, blaðamaður og músíkant. Líklega er hans þekktasta kvæði Þykkvabæjarrokkið þar sem Cotton Field með Leadbelly var snúið upp á ræktun garðávaxta á suðurlandsundirlendinu. „Í þeim gömlu, kartöflugörðunum heima!“ – söng Árni og sama kvöld mættu Framarar til leiks í kartöflugarðinum Kaplakrika í fyrsta leik sumarsins á á alvöru grasi.

Fréttaritarinn mætti til leiks ásamt skjaldsveininum, sem var nestaður með markapelann (Höskuldarviðvörun: hans var ekki þörf). Skjaldsveinninn verður fimmtugur í næstu viku og var slíkt flón að setja partýið niður á sama tíma og heimaleikurinn gegn HK, það er því afar ólíklegt að nokkur skýrsla verði skrifuð um næsta leik. TURK182!

Það var áfall að frétta um leið og komið var í stúkuna á Kaplakrika að okkar allra besti Fred væri ekki í hóp, vegna einhverra óútskýrðra meiðsla. Að missa besta mann deildarinnar úr liðinu er skellur. Þjálfarateymið brást við á frumlegan hátt. Fram mætti til leiks með uppstillingu sem leit helst út sem 3-6-1. Óli í markinu, Brynjar, Delph og Hlynur í varnarlínu. Adam, Már, Tiago, Maggi, Aron og Tryggvi á miðju/köntum og Gummi frammi. Hafi þetta verið planið þá entist það í kortér. Heimamenn náðu forystunni eftir vítaspyrnu á fimmtu mínútu þar sem sóknarmaður FH lenti á milli Adams og Brynjars og uppskar víti, 1:0.

Framarar virtust í losti eftir markið og FH sópaði yfir á markteig eftir tæpar fimmtán mínútur. Mínútu síðar kom sending inn fyrir Framvörnina þar sem fremsti maður FH virtist rangstæður (en var það líklega ekki) og Hafnfirðingurinn vippaði vandræðalaust í netið yfir Óla, 2:0.

Eftir afleita byrjun tókst Frömurum að byggja upp smá sóknarþunga þegar um hálftími var liðinn. Aron var sleginn niður í teig FH-inga en fékk ekki víti. Aron var líflegur á þessum tíma og kom að nokkrum sóknum Framara sem fæstar náðu þó að skapa mikinn usla. Óli varði vel eftir góða sókn heimamanna þegar um fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfeik.

Glataður fyrri hálfleikur og almennt slök frammistaða gerði það að verkum að erfitt var að velja út hetju vorra tíma. Kom þá sterkur inn gamli markahrókurinn Þorbjörn Atli Sveinsson sem var höfðingi hinn mesti og lét bera marga umganga af bjór úr plastglösum Hraunbúa í fréttaritann og næstu nágranna. Svona tryggja menn sér hlutdeild í leikskýrslunum!

Eftir hlé byrjaði leikurinn mjög rólega en eftir 7-8 mínútna leik virtust Framarar hressast og fara að pressa fram á við. Stóð þá á endum að nálega um leið og Framarar fóru að ógna FH-markinu galopnaðist vörnin og FH komst í 3:0 fyrirhafnarlítið.

Fram fékk upplagt tækifæri til að minnka muninn þegar klukkutími var liðinn. Maggi vann þá boltann með harðfylgi við endamörk og sendi fyrir á Delhin sem kom aðvífandi en skot hans að tómu marki var varið á síðustu stundu.

Tryggvi og Maggi fóru af velli fyrir Albert og Breka þegar hálftími var eftir. Allir góðir menn fagna því að okkar allra efnilegasti maður, Breki, fái alvöru mínútur. Á næstu mínútum áttu FH-ingar tvö hálffæri og Framarar eitt. Þegar tólf mínútur liðu af leik gerðu bæði lið þrefalda skiptingu. Brynjar, Tiago og Aron fóru allir af velli fyrir Þóri, Orra og Óskar. Það breytti litlu fyrir gangverk leiksins.

Skömmu fyrir leikslok heimtuðu Framarar vítaspyrnu fyrir hendi en uppskáru ekkert, FH-ingar fóru hins var upp í uppbótartímanum og skoruðu fjórða markið sem verður að teljast vel af sér vikið í 6-7 alvöru marktækifærum. En einhver daprasta frammistaða okkar manna í sumar leit dagsins ljós. Við verðum að gera miklu betur á móti spútnikliði HK næst!

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!