N1 mótið fór fram dagana 5-8 júlí. Um var að ræða eitt stærsta N1 mót til þessa, sem er það 37. í röðinni, en 202 lið tóku þátt eða um 2000 þátttakendur.
Fram sendi 6 lið til leiks sem öll stóðu sig með mikilli prýði. Fram 1 náði 4. sæti í Argentísku deildinni, en það er besti árangur Fram í mörg ár eða síðan 2017 þegar Fram 1 sigraði mótið. Drengirnir voru að vonum mjög stoltir af sér, enda eina Reykjavíkurliðið sem náði í undanúrslit þetta árið. Fram 2 stóð sig einnig með prýði og nældi sér í 5. sætið í Chile deildinni og Fram 6 tók 5. sætið í Mexikósku deildinni. Fram 3 endaði í 10. sæti í Frönsku deildinni, Fram 4 í 14. sæti í Hollensku deildinni og Fram 5 í 15. sæti í Íslensku deildinni. Heilt yfir góður árangur hjá félaginu.
Auðvitað er þetta orðin fúlasta alvara þegar í 5.flokk er komið en engu að síður er líka mikilvægt að strákarnir skemmtu sér konunglega á mótinu. Veðrið var til mikillar fyrirmyndar, kvöldskemmtunin geggjuð og auðvitað farið í sund, ísrúnt og allt þetta klassíska með vinum sínum. Kannski situr það einna mest eftir þegar allt kemur til alls.
Við óskum strákunum í 5.flokki til hamingju með flotta frammistöðu. Framtíðin er björt!
Myndir hér: https://framphotos.pixieset.com/2023-orkumti-stvalduraddijhannesson/
📷 Ástvaldur Addi Jóhannesson