Í gær, miðvikudaginn 12. júlí, var haldið árlegt Símamótsgrill og gistipartý í Úlfarsárdalnum.
Þar sem hið stórkostlega Símamót fer fram um helgina, hvar nánast allir yngri flokkar kvenna taka þátt, var tekin góð upphitun á gleðina. Eins og venjulega lék veðrið við okkur Framara á þessum degi og svæðið var stappfullt af frábærum stelpum og aðstandendum þeirra. Hoppukastalar, grillaðir Framborgarar og eintóm hamingja. Meistaraflokkur kvenna mætti auðvitað á svæðið líka til að fagna með stelpunum og svo var auðvitað spilaður fótbolti þar sem stelpurnar mættu foreldrum og öðrum aðstandendum. Þar var ekkert gefið eftir á báða bóga og keppnisskap margra miðaldra foreldra síst minna en dætranna.
Eftir að öllu húllumhæinu lauk var öllu stelpustóðinu stefnt inn í Framheimilið þar sem ráðist var í að græja fastar fléttur, naglalakk og meira stuð sem lauk svo með því að stelpurnar gistu í Framheimilinu yfir nóttina. Fullkominn undirbúningur fyrir stærsta mótið í ár.
Það var frábært að sjá svona marga í dalnum og mjög gleðilegt að sjá hvað við eigum margar glæsilegar fótboltastelpur í Fram.
Myndir frá gleðinni eru hér: https://framphotos.pixieset.com/2023-smamtsgrill/
📷 @toggipop