Valur mætti ekki til leiks á Hlíðarenda í kvöld. Undir eðlilegum kringumstæðum ættu þetta að vera góðar fregnir í upphafsorðum leikskýrslu um viðureign hinna fornu fjenda af Njálsgötunni og Bergþórugötunni – en vondu fréttirnar eru þær að það var skjaldsveinninn sauðtryggi, Valur Norðri sem ekki mætti, enda upptekinn við að sólunda ferðapunktum í Köben sjálfum sér til ánægju en Birni Leví til armæðu. Knattspyrnufélagið Valur mætti hins vegar til leiks og vann meira að segja. Tapsárir lesendur þurfa því ekki að fara lengra í þessum lestri.
Fréttaritari Framsíðunnar hefur verið fjarri góðu gamni um alllangt skeið eins og dyggir lesendur kunna að hafa veitt athygli. Nú síðast var hann á flandri um Finnland og Eistland og lenti í Leifsstöð seinnipartinn með litaraft Árna Páls Árnasonar og sjóriðu eftir að hafa arkað stræti stórborganna frá einni knæpunni til þeirrar næstu milli þess að svitna í gufuböðum að hætti heimamanna. Klukkan var því rúmlega tíu á tíma fréttaritarans þegar flautað var til leiksloka í kvöld og langt yfir miðnætti þegar hafist var handa við ritun þessarar skýrslu, sem verður varla annað en óráðshjal með dassi af blammeringum og rangfærslum – með öðrum orðum: fastir liðir eins og venjulega.
Búandi í Hlíðunum mætti fréttaritarinn snemma á svæðið og settist inn í Fjós þeirra Valsmanna. Þar var ekki vitleysan töluð með Valsmennina Henson og Hörð Hilmarsson sitjandi til borðs með Framaranum Ragga Steinars sem var einu sinni yfirtannlæknir fréttaritarans áður en hann fól næstu kynslóð að sjá um tannsteinsbrotið. Mikið er Fjósið skemmtilegt félagsheimili, eins djöfullegt og það er nú að þurfa að hrósa lýðnum af Bergþórugötunni.
Eftir ölkrús og hamborgara lá leiðin í stúkuna. Fréttaritarinn var hálfumkomulaus með Val við Eyrarsund og Rabba trymbil í laxveiði í einhverri sprænunni, en það fannst þó athvarf uppi í rjáfri Valsstúkunnar við hliðina á Gylfa Orra og Adda í bankanum. Ívar Guðjóns og Kjartan annararkynslóðartannsi slógust í hópinn þegar leið á leikinn. Þetta er nálega orðabókarskilgreining á einvalaliði.
Leikbönn eru að höggva skarð í Framliðið þessi dægrin og þess sá stað í liðsuppstillingu kvöldsins. Óli var vitaskuld í markinu en fyrir framan hann Brynjar og Orri í miðvörðum og Adam og Már í bakvörðum. Tryggvi og Aron voru aftast á miðjunni með Albert fyrir framan sig og Magnús og Tiago hvorn á sínum kanti. Gummi fremstur. Stúkan virtist þunnskipuð og hvorugt liðið hafði fyrir því að mæta með trumbuslagara eða sérstaka klappstjóra.
Rétt um það leyti sem liðin gengu inn á fannst vallarstjórum sniðugt að spila fálkaskræki sem eru einhvers konar sambland af brunaviðvörunarbjöllu í fjölbýlishúsi og ketti sem lent hefur í drifskafti. Við þurfum að ræða þetta rjúpumorðingjablæti síðar.
Leikurinn hófst og var tilþrifalítill framan af. Albert var kvikur og reyndi að koma sér í stöður. Eftir um tíu mínútna leik virtist hann við það að sleppa innfyrir Valsvörnina en var ranglega flaggaður rangstæður. Nokkrum mínútum síðar sköpuðu heimamenn sína fyrstu marktilraun með skoti yfir úr upplöðgu færi. Rétt í kjölfarið kom fyrsta (og raunar eina) mark leiksins. Valsmenn léku upp að endamörkum og áttu einfalt og hnitmiðað samspil framhjá áttaviltri Framvörninni sem endaði í netinu, 1:0.
Rétt í kjölfar marksins fóru Valsmenn nærri því að tvöfalda forystuna en Óli varði vel skot af stuttu færi. Framarar áttu sínar sóknir á móti. Um miðjan hálfleikinn á Tryggvi, sem var mjög frískur í dag, góða sendingu á Magga sem fékk boltann á ranga löpp og náði engum krafti í skot úr ágætu færi. Besta færi fyrri hálfleiks kom svo eftir stungu Tiago á Albert sem komst einn í gegn en náði ekki nægilega góðu skoti og boltinn fór framhjá.
Valsmenn fengu tvö góð marktækifæri það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Í öðru þeirra kixaði framherjinn á ögurstundu en í hinu varði Óli vel. Flautað var til leikhlés og fréttaritarinn tók strikið í Fjósið. Fátt hafði glatt augað fyrir hlé, en Framarar þó fjarri því yfirspilaðir og á meðan munurinn var bara eitt mark var ennþá allt mögulegt.
Framliðið kom ívið ákveðnara til leiks í seinni hálfleik og á köflum örlaði fyrir hörkunni og kraftinum sem stuðningsmennirnir kölluðu eftir. Dramatískustu atburðirnir áttu sér þó stað utan leikvallarins. Tveir hrafnar, mögulega lokkaðir á svæðið með óhljóðum fálkanna í upphafi leiks, mættu undir stúkuskyggnið þegar skammt var liðið af seinni hálfleik. Sá bíræfnari tyllti sér á þakbita yfir miðri stuðningsmannasveit Framara og skeit þar með miklum tilþrifum svo menn og konur áttu fótum fjör að launa. Eftir þetta valhoppuðu hrafnarnir eftir bitunum með stélið upp í loftið og gerðu sig líklega til að drita á réttláta og rangláta, sem stal athyglinni frá sjálfum leiknum. Svona hegðun fiðurfénaðarins yrði aldrei liðin í Dal draumanna.
Þegar nærri klukkutími var liðinn að leiknum komst danski framherji Valsmanna í dauðafæri. Óli beið á línunni í stað þess að fara út í boltann, sem hefði líklega afstýrt hættunni en úr því sem komið var gerði hann frábærlega í að slá fast skot framhjá.
Þegar hér var komið sögu áttu áhorfendur bágt með að skilja hvers vegna Valsarar létu ekki hné fylgja kviði og kláruðu einfaldlega leikinn, en þess í stað kusu þeir að drga sig sífellt aftar á völlinn og Framarar fengu möguleika á að fikra sig framar á völlinn. Fram fékk allnokkrar hornspyrnur en engin þeirra skapaði minnstu hættu, þar sem þær reyndust allar fallhlífarboltar sem féllu dauðir í teignum með hávaxna varnarmenn og markvörð Valsmanna. Gummi Magg náði skalla að marki á 71. mínútu eftir sendingu frá Má en annars voru færin fá og langt á milli.
Valsmenn áttu sína sénsa líka og eftir aukaspyrnu small boltinn í slá Frammarksins eftir spyrnu úr frákasti. Þegar þrettán mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma gerði Nonni tvöfalda skiptingu. Þórir og Óskar komu inn fyrir Magga og Albert. Þremur mínútum síðar fékk Óskar besta færi leiksins þegar hann fékk sendingu inn fyrir vörnina en Valsmarkvörðurinn náði að verja – og uppskar að launum nafnbótina „maður leiksins“ hjá heimamönnum (sem lætur sóknarlotur okkar í leiknum líta óþarflega vel út). Þegar klukkan sýndi 88. mínútur fóru Tryggvi og Tiago af velli fyrir ungu leikmennina Breka og Egil Otta. Það var alltof seint til að raunhæft væri að þeir næðu að setja mark sitt á leikinn. Fréttaritarinn veit fátt skemmtilegra en þegar kjúklingar fá að spreyta sig og þá dugir helst ekkert minna er kortér!
Úrslitin urðu 1:0 tap gegn andlitlu Valsliði. En það er stutt í næsta leik, sem fram fer á næðingssamasta stað á byggðu bóli – Stjörnuvellinum í Garðabæ. Mætum og skjálfumst saman til sigurs!
Stefán Pálsson