fbpx
Stjarnan-Fram

Vont, vont

„Auðvitað er það vestið!“ – hugsaði fréttaritari Framsíðunnar þegar hann fór að búa sig undir ferðina í Garðabæinn í kvöld. Tvö síðustu keppnistímabil hefur gula vestið verið í aðalhlutverki í leiklýsingum viðureigna Fram þar sem sjálfhverfa höfundar hefur verið í öndvegi. Í ár hefur gula vestið hins vegar verið oní skúffu. Hér var augljóslega fundin skýringin á brösóttu gengi Úlfarsárdalsgreifanna í sumar. Hæstánægður með að hafa uppgötvað lykilinn að endurnýjaðri sigurgöngu dró fréttaritarinn fram gráu peysuna og gula vestið áður en hann skottaðist út á strætóstoppustöð til að taka ásinn á Ásvelli. Kom í ljós að það var ekki vestið…

Fréttaritarinn var með bjór í belgnum og hafði hugsað sér að bæta um betur þegar í póstnúmer 210 væri komið. Almenningssamgöngur voru því augljós kostur. Það var hálftími í leik þegar hann mætti í sólríkjuna vestan við kæliklefann sem Stjörnumenn kalla heimavöll. Þar var gnótt góðra manna til að spjalla við. Liðsuppstillingin kom á óvart. Óli var í markinu. Brynjar Gauti og Orri miðverðir. Adam og Már bakverðir og Hlynur aftastur á miðjunni. Aron og Tiago þar fyrir framan, Fred og Maggi hvor á sínum kanti og Tóti fremstur. Á bekknum sátu m.a. Delphin, Albert og Gummi Magg. Þetta var í það minnsta djörf tilraun til að höggva á markaleysishnútinn sem hefur hrjáð okkur upp á síðkastið.

Rétt fyrir leik mætti Rabbi. Valur er enn að frílysta sig við Eyrarsundið. Menn hljóta að fara að spyrja sig alvarlegra spurninga um hollustu þessa manns og kolefnisfótspot. Fréttaritarinn og félagi Rafn fundu sér um það bil einu sætin á Stjörnuvellinum þar sem járnsúla birgir ekki sýn. Fljótlega komu Sævar Guðjónsson og mamma hans og tylltu sér við hliðina. Þetta var órennilegt gengi.

Fregnir bárust fyrir leik af því að í fínumannaboði Garðbæinga hefði þjálfarinn talað fjálglega um að Stjarnan ætlaði að halda boltanum allan tímann og Framarar fengju varla að snerta hann. Þessi oflátungsháttur hljómaði vel og Framarar komu gestgjöfunum í opna skjöldu með því að halda boltanum vel í sínum röðum og sækja að Stjörnumarkinu, án þess þó að skapa neina sérstaka ógn. Sú sæla varði í rúmar tíu mínútur. Eftir það náðu Stjörnumenn yfirhöndinni og sköpuðu flest þau færi sem e-ð kvað að . Fred fékk raunar prýðilegan séns á þrettándu mínútu þegar hann slapp upp í gegnum vítateigshornið og náði góðu skoti sem Stjörnumarkvörðurinn varði vel með fótunum. Það sem enginn vissi þá var að þetta yrði eina alvöru sókn Framara í leiknum.

Stjarnan skapaði sér 2-3 góð marktækifæri en það var samt heppnisstimpill yfir fyrsta marki þeirra. Eftir tæplega hálftíma leik náðu þeir skyndisókn sem lauk með slöku skoti að marki sem Óli virtist ekki ætla að eiga í nokkrum vandræðum með, en það hrökk af varnarmanni og í fallegum boga í hitt markhornið, 1:0.

Fyrri hálfleik lauk og fréttaritarinn tók strikið á Stjörnubarinn og svo út á torgið til að rabba við aðra Framara. Hljóðið var almennt frekar þungt og menn undruðust andleysið. Hvað væri til ráða? Tjah, kannski að gefa Gumma einhverjar mínútur eða leyfa Tryggva að spreyta sig aftast á miðjunni?

Seinni hálfleikur hófst og Framarar létu örlítið finna fyrir sér, þannig átti Már bjartsýnislegan skalla eftir tæpar fimm mínútur og skömmu síðar skaut Maggi vel yfir eftir sendingu frá Fred. Þórir lét svo vel finna fyrir sér á 57. mínútu þar sem markvörður Stjörnunnar varði vel. Engu að síður voru það Garðbæingar sem fengu flest færin og þeir hefðu auðveldlega getað aukið forystunum. Eftir klukkutíma leik freistarði Nonni þess að brjóta upp leikinn með því að setja Albert og Breka inná fyrir Hlyn og Tiago – sem var langt frá sínu besta.

Hafi vonir staðið til þess að þessi breyting hleypti Frömurum aftur inn í leikinn fuku þær út í veður og vind rétt í kjölfarið þar sem ónákvæmar sendingar í öftustu vörn Framara hleyptu heimaliðinu í gegn og staðan var snögglega orðin 2:0.

Upp úr þessu seinna marki kom Gummi inná fyrir Magga og Fram skipti í 4-4-2. Það breytti engu. Þegar tólf mínútur voru eftir að venjulegum leiktíma kom þriðja mark Stjörnunnar. Garðbæingar höfðu fengið horn og upp úr því kom skot sem rataði í varnarmann og aftur í snotrum boga í markið, óverjandi fyrir Óla. Tryggvi og Óskar komu inná í fjölfarið fyrir þá Fred og Aron. Það breytti engu og Stjarnan skoraði fjórða og síðasta markið eftir skyndisókn.

Martraðardagur í Garðabænum og kannski tilgangslaust að reyna að velja út góðar frammistöður til að hrósa. Og þó. Orri var fínn í miðvarðarhlutverkinu og kannski maður leiksins okkar megin, að svo miklu leyti sem hægt er að hampa varnarmanni eftir 4:0 flengingu. Góðu fréttirnar eru þær að við höfum góðan tíma til naflaskoðunar fyrir næsta leik. Ekki veitir af. Fréttaritarinn er ennþá sannfærður um að stjórnendur liðsins séu réttu mennirnir til að snúa stefnunni við, en það vantar miklu meiri hörku! Það segir sína sögu að ekkert gult spjald var gefið kvöld. Allt í góðu með að tapa leik og leik, en spörkum þó að minnsta kosti í mótherjann á meðan á því stendur!

Stefán Pálsson

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!