fbpx
FRAM stelpur

 blablabla

Í raun hefði fréttaritari Framsíðunnar átt að skrifa fyrir vef Augnabliks. Pistillinn hefði skrifað sig sjálfur, enda þrautreynd bókmenntagrein: blablabla… eitthvað um kornungt lið… blablabla… erfitt að keppa við þrautreynda andstæðinga… blablabla… fer allt í reynslubankann … blablabla… sigurinn kannski óþarflega stór – en við getum öll verið stolt af okkar liði. Þetta væri hægðarleikur og fengi fullt af skylduræknis-lækum á samfélagsmiðlum. Vandræðin aukast hins vegar þegar skrifa þarf út frá hinu sjónarhorninu: sterkara liðsins sem innbyrti stóran skyldusigur á botnlðinu.

Augnablik er borið uppi af 16-17 ára stúlkum úr risavöxnu unglingastarfi Breiðabliks. Þar eru unglingalandsliðsmenn á hverju strái og í liðinu eru leikmenn sem eiga eftir að ná langt, þótt liðið sjálft sé fullmikil léttvigt til að eiga erindi í Lengjudeildina. (Að því sögðu er þó rétt að halda því til haga að eini sigur Augnabliks nú í sumar kom einmitt á móti Fram – reyndar meiðslaþjökuðu Framliði og í því afleita knatthúsi Fífunni).

Fréttaritarinn ók einn upp í Dal draumanna og sat einsamall í stúkunni fyrir hlé. Flestir fastagestirnir líklega lagstir í ferðalög og meirihluti þeirra 107 áhorfenda sem taldir voru við innganginn líklega fjölskyldumeðlimir leikmanna. Það var þó ekkert að veðrinu, amk þegar ekki var staðið í skugga.

Fram hefur verið duglegt við að sanka að sér leikmönnum fyrir lok félagaskiptagluggans, sem mun víst skýrast af því að mikilvægir póstar í liðinu eru nú að hverfa á braut til náms erlendis. Elaina var vitaskuld í markinu. Eydís Arna og Jóhanna Melkorka aftastar í vörninni með Sylvíu og Katrínu hvora á sína hlið. Þyrí og Lilja á miðjunni, með Breuk fyrir framan sig. Sylvía og Ólína Sif á köntuum og Alexa uppi á toppi. (Þessi liðsuppstilling er sett fram með hefðbundnum fyrirvörum um að fréttaritarinn er fáráður og sneyddur öllum skilningi á leikkerfum.)

Leikurinn byrjaði rólega og einkenndist af stöðubaráttu á miðjunni. Kópavogsliðið hefur á að skipa spretthörðum leikmönnum sem geta sótt hratt fram á við. Þetta virtist koma okkar konum örlítið á óvart og í nokkur skipti skapaðist talsverð hætta, aldrei þó jafnmikil og á tólftu mínútu þegar steinsofandi vörnin missti framherja Augnabliks aleina í gegn en Elaina náði að gera sig breiða og loka markinu á stórkostlegan hátt. Beint í kjölfarið mátti hún hafa sig alla við að grípa boltann á marklínu eftir hornspyrnuna.

Sannast sagna voru gestirnir miklu betra liðið fyrsta hálftímann. Þetta var ekki alveg það sem fréttaritarinn í gula vestinu hafði mætt til að horfa á! Fyrsta markverða færi Fram kom ekki fyrr en eftir 27 mínútna leik og byggðist algjörlega á einkaframtaki hjá Breuk sem prjónaði sig í gegnum Augnabliksvörnina en sending hennar fyrir markið rataði ekki til samherja. Eftir sléttar þrjátíu mínútur fengu hvítklæddir Kópavogsbúar annað dauðafæri eftir að kantmaður sem virtist grunsamlega rangstæður slapp ein í gegn en neyddist til að taka skot úr þröngri stöðu eftir að Jóhanna náði að renna sér fyrir hana og hættunni afstýrt. Jóhanna þurfti aftur að verjast vel tveimur mínútum síðar.

En fótboltinn er stundum grimmur. Í stað þess að Augnablik skoraði 2-3 mörk, náði Fram forystunni á 35. mínútu nánast upp úr engu. Alexa fékk boltann á miðjum vallarhelmingi Augnabliks, sendi hratt fram á Þóreyju sem lék vel upp að endamörkum og sendi fyrir markið, Ólína Sif virtist ætla að skjóta en sleppti boltanum skynsamlega framhjá sér og beint fyrir tærnar á Breuk sem var óvölduð og átti ekki í vandræðum með að koma honum í netið, 1:0.

Gestirnir létu markið ekki slá sig út af laginu og reyndu að blása til sóknar á ný en Framkonur voru fljótar að refsa. Eftir hættulega skyndisókn fengu þær hornspyrnu á sjálfri markamínútunni (sem er 43. mínútan, fyrir þau ykkar sem voruð ekki uppi á níunda áratgunum). Hornspyrnan sjálf var ekkert sérstök en varnarleikur Kópavogsliðsins afleitur og boltinn endaði í netinu, fréttaritarinn hallaðist að sjálfsmarki en vallarþulur eignaði Þyrí markið, 2:0. Þar með var björninn unninn og litlu mátti muna að þriðja markið kæmi fyrir lok hálfleiksins.

Í  leikhlénu hnippti fréttaritarinn í Lárus Grétarsson, menningarráðunaut Færeyja á Íslandi og fræddi hann á því að Klaksvíkingar hefðu unnið í Meistaradeildinni og væru nú orðnir ríkari en Jóakim aðalönd. Þetta þóttu Lalla mikil tíðindi og undir það tóku félagi Valtýr Björn og heilbrigðisráðherra. Var ekki rætt um annað en færeyska frændur okkar þar til flautað var til seinni hálfleiks.

Þjálfaradúettinn gerði þrefalda breytingu áður en byrjað var á ný. Þyrí, Eydís og Ólína Sif fóru af velli fyrir Eriku, Grace og Ólínu Ágústu. Sú síðastnefnda kom við sögu tíu mínútum síðar þegar hún átti lúmskt skot sem markvörður Augnabliks mátti hafa sig alla við að verja. Það segir sína sögu um hvað hægðist á leiknum í seinni hálfleik að þetta var það fyrsta sem fréttaritarinn hafði séð ástæðu til að pára niður í minnisörkina. Tíu mínútum síðar komst Þórey ein inn fyrir en vippaði yfir markvörðinn og framhjá markinu úr upplögðu færi.

Þegar tuttugu mínútur voru eftir kom næsta skipting. Alexa og Þórey fóru af velli en Ylfa og Telma komu inná. Skiptingin var frábærlega tímasett því um leið og hún var búin tók Breuk á rás, sólaði sig í gegnum nokkrar Augnabliksstúlkur og sendi svo Ylfu sem skoraði í fyrstu snertingu eftir að hafa bara verið inná í fáeinar sekúndur, 3:0.

Hinn varamaðurinn vildi ekki vera eftirbátur og Telma gerði tveimur mínútum síðar tilraun til að vippa boltanum í Augnabliksmarkið. Aðvífandi varnarmaður gerði tilraun til að skora glæsilegt sjálfsmark en það endaði í hornspyrnu sem hrökk beint fyrir fætur Telmu sem klíndi boltanum í þaknetið, 4:0 og enn stundarfjórðungur eftir.

Síðustu mínúturnar voru bragðdaufar þar til komið var fram í uppbótartíma. Kæruleysi hjá Breuk og Ylfu komu í veg fyrir að fimmta markið kæmi úr dauðafæri þar sem þær sluppu báðar innfyrir, en sú fyrrnefnda bætti um betur í þriðju mínútu uppbótarinnar þar sem tekin var aukaspyrna úti á miðjum velli, sem sveif inn í teiginn og beint á okkar konu sem var vandræðalega óvölduð og skoraði fimmta og síðasta markið. Vallarþulurinn kynnti um valið á konu leiksins, sem var Elaina – og hlýtur að vera uppörvandi fyrir lið sem tapar 5:0 að það hafi þó verið markvörður hins liðsins sem lék best. En það er erfitt að deila við þetta val. Elaina er ekki bara besti markvörðurinn í þessari deild. Hún er líka betri en allar í deildinni fyrir ofan. Næsti áfangastaður er Gróttuvöllurinn þar sem við ætlum að spilla fyrir toppbaráttudraumum Seltirninga.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!