Hlynur Örn, lánsmaður úr Blikum var í markinu. Unnar Steinn var fyrirliði, þrátt fyrir að vera rétt um nítján ára gamall. Brasilíski lurkurinn í vörninni, Marcão, dúndraði öllu frá sem að kjafti kom. Fred, Mási og Maggi voru allir inni á vellinum og raunar Gummi Magg líka – nema hann var í hinu liðinu. Heiðar Geir var svo öldungurinn á bekknum, hokinn af reynslu. – Liðsuppstillingin hljómar kunnuglega en er samt eins og frá annarri öld. Við erum að sjálfsögðu að tala um leik Fram og Víkings Ólafsvíkur í lok ágúst 2019… síðast þegar Fram gerði markalaust jafntefli í deildarleik.
Það voru ekki bara fjögur ár frá síðasta markalausa jafnteflinu, heldur hafði Fram ekki haldið hreinu í deildarleik í allt sumar. En kraftaverkin gerast enn.
Geiramenn boðuðu rútuferð suður með sjó sem byrjaði á upphitun í Dal draumanna. Þar stillti klappliðið rækilega saman strengi og fyllti svo upp í laus sæti í bílnum með táningspiltum í bláum íþróttagöllum og sem samræmda klippingu og aflitað hár. Þetta var fallegt að sjá! Fréttaritarinn mætti þó ekki í rútuna enda nýkominn af fundi austur í sveitum. Þess í stað brunaði hann á metanfáknum fagurbláa og tók með sér skjaldsveininn Val Norðra og markafleyginn. Honum reyndist ofaukið. Pelanum það er.
Sólin skein í Keflavík og í augnabliks hrifningu fór fréttaritarinn að gæla við að stuttermabolur og gula vestið gætu verið hentugur klæðnaður. Um leið og stigið var út úr bílnum var sá misskilningur leiðréttur. Auðvitað var vindur og dauflega gráa vindúlpan var dregin fram. Áður en stigið var inn á völlinn þurfti bara að klára eitt formsatriði – hina reglubundnu niðurlægingu miðaldra karla með tíu þumla við að virkja Stubbs-miðann í hliðinu. Stubbur lækkar í hverjum manni rostann.
Það er yfirleitt gaman að mæta á völlinn í Keflavík þótt úrslitin séu oftar en ekki verri en vistarbandið. Einvalalið stútungskarla stóð við og grillaði strangheiðarlega hamborgara sem seldir voru á kostakjörum. Heimamenn hafa oft verið fleiri á vellinum en uppgefin áhorfendatala upp á innan við 400 manns hljómaði samt grunsamlega lág – einkum í ljósi þess að bara Framararnir hafa verið a.m.k. hundrað talsins. Þeir voru með trumbur og skemmtilega söngva. Uppskrift að velgengni!
Byrjunarliðið var keimlíkt því sem við höfum séð upp á síðkastið. Óli í markinu. Delphin og Brynjar Gauti í miðvörðum. Adam og Óskar í bakvörðum. Breki afastur á miðjunni með Tiago og Aron Jó fyrir framan sig. Fred og Aron Snær á köntunum og Gummi frammi. Bekkurinn var furðusterkur og ýmsir sem hefðu mögulega átt tilkall til sætist í liðinu.
Fyrstu 5-7 mínúturnar byrjuðu Framarar að krafti, spiluðu boltanum hratt á milli sín og fyrsta færið kom þegar Gummi skallaði yfir úr þröngu færi. Keflvíkingar voru hins vegar með sína leikaðferð á hreinu: að negla hátt og fast fram á stóra framherjann og vona að hann gæti gert e-ð úr því undan vindinum. Það er nánast óskiljanlegt að flugvallaryfirvöld í landinu heimti að barrtré séu felld vegna nálægðar við Reykjavíkurflugvöll á sama tíma og Keflvíkingum leyfist að spila fótbolta sinn rétt hjá alþjóðaflugvelli!
Fljótlega fjaraði undan þessari björtu byrjun Framliðsins og sóknirnar fóru sífellt að byggjast upp á lengri og ómarkvissari sendingum upp á von og óvon en eiginlegu spili. Við vitum að okkar menn kunna betur við sig á gervigrasi en því náttúrúlega, en það þarf samt að geta spilað á hvoru tveggja.
Delphin skapaði smáhættu með skalla eftir hornspyrnu eftir tæpar tuttugu mínútur og eftir hálftíma leik endaði boltinn í neti Frammarksins eftir risakýlingu Keflavíkurmarkvarðarins og skalla upp í loftið en það var dæmt af fyrir bakhrindingu. Beint í kjölfarið hlupu Framarar upp. Keflavíkurmarkvörðurinn potaði boltanum undan fótum Gumma en beint til Arons Jó sem fékk góðan tíma til að hlaða í skot en keflvískur varnarmaður á marklínunni náði að verja glæsilega. Langbesta færi leiksins fram að þessu.
Undir blálok fyrri hálfleiks virtist boltinn syngja í útréttri hönd eins Keflvíkingsins í eigin vítateig eftir fyrirgjöf frá Fred. Dómarinn virtist í kjöraðstöðu til að sjá atvikið en dæmdi ekkert. Markalaust í leikhléi eftir afar bragðdaufan og ekkert sérstaklega vel spilaðan leik. Framarar þó ívið sterkari. Þetta hlyti fjandakornið að verða betra eftir hlé!
„Það bjargast ekki neitt, það ferst það ferst“ – orti skáldið en var þó líklega ekki með Bestudeildarleik Keflavíkur og Fram í huga. Seinni hálfleikur var enn verr spilaður af hálfu beggja liða en sá fyrri. Keflvíkingarnir héldu áfram að negla fram á við, nema að þessu sinni upp í vindinn en við fórum að fordæmi þeirra og kýldum stöðugt lengra fram í stað þess að reyna að halda boltanum niðri á jörðinni og innan liðsins. Bæði lið fengu að sönnu færi en þau voru yfirleitt afleiðingin af varnarmistökum eða feilsendingum mótherjanna. Þau fáu hálffæri sem rötuðu í minnisbók fréttaritarans fyrstu tíu mínúturnar voru Keflvíkinga og upp úr því fór varamannabekkur Framara fyrst að hita upp.
Eftir rúmlega klukkutíma leik rataði ein kýlingin fram völlinn á Fred sem var fljótur að senda á Aron Jó sem átti prýðilega skottilraun sem small í þverslánni. Beint í kjölfarið kom Aron aftur við sögu eftir sendingu frá Breka, en í stað þess að senda frá sér freistaði hann þess að prjóna sig í gegnum þétta Keflavíkurvörnina og ekkert varð úr neinu. Hvað er orðið um skemmtilega samspilið okkar frá síðustu misserum?
Þegar seinni hálfleikur var hálfnaður kom fyrsta skiptingin. Tryggvi kom inná fyrir Tiago. Fimm mínútum síðar kom Jannik svo inná fyrir Aron Snæ. Enn liðu svo fimm mínútur uns Már kom inná fyrir Fred. Þar með voru skiptingar okkar búnar og má spyrja sig hvort betra hefði verið að sameina tvær þessara skiptinga til þess að eiga enn fleiri skiptimöguleika undir lokin þegar nokkrir leikmenn virtust örþreyttir?
Tryggvi og Aron höfðu komist í vænlegt tækifæri rétt fyrir síðustu skiptinguna en skot þess síðarnefnda var ekki nógu hnitmiðað. Þótt Jannik fengi ekki margar mínútur í leiknum skipti innkoma hans máli því Keflvíkingarnir voru greinilega logandi hræddir við hann og á fáeinum mínútum voru tveir Keflvíkingar búnir að fá gult fyrir að brjóta á honum án bolta. Það skiptir öllu fyrir framhaldið að koma honum betur inn í spilið og fyrr.
Á 83. mínútu kom Gummi boltanum í netið eftir undirbúning frá Má og Jannik, en markið var réttilega dæmt af þar sem hann hafði sett knöttinn fyrir sig með hendinni. En þótt Framarar væru allt í einu með síðbúnu lífsmarki þá urðu líka til marktækifæri hinu megin á vellinum og Delph þurfti einu sinni að taka á honum stóra sínum til að forða marki. Jafntefli gegn botnliðinu er auðvitað alltaf svekkelsi, en það skyldi þó enginn forsmá stig í Keflavík. Næst er heimaleikur gegn Víkingi. Fréttaritarinn verður í Kaupmannahöfn og þarf því að taka leikinn símleiðis eins og svölu krakkarnir, en hver veit nema skjaldsveinninn mæti og pári einhver orð ef hann verður ekki í dagpeningaharki í Botswana eða Kúala Lúmpúr.
Stefán Pálsson