fbpx
Óli Íshólm gegn ÍBV betri vefur

Brúin

Árið 1959 kom út vestur-þýska kvikmyndin Die Brücke – eða Brúin. Hún var gerð eftir ársgamalli skáldsögu rithöfundarins Gregor Dorfmeister sem raunar notaðist við listamannsnafnið Manfred Gregor. Verkið var stríðsádeila sem byggðist á raunverulegum atburðum undir lok síðari heimsstyrjaldarinnar þegar hópi þýskra táninga, vopnlitlum og óþjálfuðum, er gert að verja brú gegn ofurefli liðs fullorðinna karlmanna. Höskuldarviðvörun: það endar allt í tárum.

Það er ekki laust við að þessi þunglyndislega eftirstríðsmynd hafi leitað á huga fréttaritara Framsíðunnar þegar komið var upp í Kór löngu fyrir fyrsta leik okkar manna í úrslitakeppni neðri hlutar Bestu deildarinnar í kvöld. Fréttaritarinn vanmat stórkostlega skilvirkni almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Einföld strætóferð með ásnum þar sem skipt var yfir í tvistinn í botni Kópavogarins þar sem gamall maður felldi tár skilaði honum upp í rjúpuveiðisvæðin ofar snjólínu í góðum tíma. Það var skynsamleg ráðstöfun því það getur tekið tím að venjast þunna loftinu fyrir okkur af lásléttunni.

HK-ingar eru höfðingjar heim að sækja og klárlega næstminnst hvimleiða fótboltaliðið í kaupstaðnum. Öndvegisborgarar voru tilbúnir á grillinu klukkutíma fyrir leik og í bjórherberginu voru gárungar með pöbbkviss og hvaðeina. Fréttaritarinn var of svalur til að taka þátt í pöbbkvissinu og þekkir þess utan enga HK-inga aðra en Einar Þorvarðarson. Hann lét því nægja að rífressa vefmiðla og KSÍ-síðuna – uns byrjunarliðið kom í ljós. Og sjá: það hefði sómt sér vel í vestur-þýskri heimsangistarmynd frá 1959.

Stutta útgáfan er sú að hálfur leikmannahópur Fram er meiddur, beinbrotinn, lasinn eða í leikbanni. Til að fylla upp í töluna þurfti að byrja með pjakka inná sem hafa varla komið við sögu hjá Fram í ár og sum nöfnin á bekknum litu út fyrir að vera hreinn tilbúningur. Þetta voru ekki óskatíðindin gegn spútknikliðinu frá Bláfjöllum.

Fréttaritarinn ákvað þó að taka þann pól í hæðina að glasið væri hálffullt og vissulega voru velflest Heineken-glösin af HK-barnum á einhverjum tíma hálffull. Hann rölti yfir í Framhluta áhorfendastúkunnar og var fljótur að finna félaga Rabba á vísum stað. Opinberi starfsmaðurinn Valur Norðri lenti hins vegar akkúratt í vinnuvikunni sinni á árinu og var fjarri góðu gamni!

Byrjunarlið Fram var sem hér segir: Óli í markinu. Delphin og Þengill Orrason í miðvörðunum (nei – Orrason, ekki vondi kallinn í Ísfólksbókunum. Skiljanleg mistök samt!) Adam var í annarri bakvarðarstöðunni og Sigfús Árni Guðmundsson í hinni (ég kem jafnmikið af fjöllum og þið). Breki Baldurs aftast á miðjunni með Tiago fyrir framan sig, Fred og Aron Snær á köntunum og Gummi Magg og Jannik frammi. Gott lið en reynsluleysið mikið á veigamiklum póstum. Það var amk ljóst að þetta yrði ekki leikur þar sem við myndum vilja liggja til baka.

Fram byrjaði kröftuglega og Jannik átti góða sendingu fyrir á Fred á upphafsmínútunum sem menningarsendiherra Brasilíu tókst ekki að nýta sér. Skömmu síðar freistaði Fred þess að leika í gegnum alla HK vörnina en ætlaði sér um of. Aron Snær fékk hörkufæri og á tólftu mínútu ógnuðu Fred og Jannik vel, uppskáru horn og upp úr því skallaði næstbesti Daninn í sögu Íslands (Rasmus Rask er hinn, fyrir þau sem eru að velta því fyrir sér) í þverslána á marki HK. Eftir kortér komst Jannik á ný í dauðafæri eftir flottan undirbúning frá Breka og Aroni Snæ. Stundarfjórðungur liðinn og Fram hefði getað verið komið í þrjú-núll.

Heimamenn áttu þó sín færi og á 18. mínútu tókst Þengli að þvælast fyrir einum HK-ingnum sem átti loks skot sem lak framhjá utanverðri stönginni. Óháð öllum Ísfólksbröndurum í byrjun þessa pistils stóð Þengill sig afar vel í frumraun sinni. Gerði allt sem til var ætlast og var ekki með neinar flóknar æfingar í sendingum. Lengi lifi unglingastarfið í Dal draumanna!

Á 26. mínútu dró aftur til tíðinda. Aron Snær átti góða sendingu fyrir markið þar sem einn Kópavogsbúinn reif Jannik niður eins og í slagsmálum á línunni í handboltaleik. Augljóst víti og enn sannast hvað varnarmenn andstæðinganna eru logandi hræddir við Jannik og brjóta á honum í stöðum sem alls ekki kalla á slík inngrip. Fred fór á punktinn og átti mikið og flókið aðhlaup áður en hann puðraði hátt yfir markið – svekkelsi og enn eitt vítið farið í súginn í sumar. (Á þessum tímum var félagi Ragnar Kristinsson, faðir krikketíþróttarinnar á Íslandi, mættur og sestur við hliðina á fréttritaranum og Rabba. Hann er Víkingur og augljóslega orðinn leiður á hóglífi meistaratitla og leitar því skiljanlega í fegurð fallbaráttuströglsins. Góður drengur Ragnar.)

Skömmu eftir vítið var Jannik nánast sloppinn í gegn en árvökull HK-markvörðurinn náði að vinna tæklingu upp við hlíðarlínu. Hinu megin þurfti Óli að verja vel eftir að HK fékk dauðafæri uppúr horni og úr hornspyrnunni sem kom í kjölfarið náði HK-maður fríum skalla rétt yfir. Svo maður leyfi sér að hugsa örlítið út fyrir boxið: hvernig væri að við reyndum að æfa okkur í verjast föstum leikatriðum í stað þess að líta út eins og kjánar? Er er það of framúrstefnuleg pæling?

Skemmtilegasta sókn fyrri hálfleiks leit svo dagsins ljós á 39. mínútu þar sem Fred, Gummi og Arons Snær komu allir við sögu í flottum undirbúningi en Jannik náði ekki að stýra sendingunni í netið úr hörku færi. Markalaust í hálfleik og Framarar máttu svo sannarlega vera ósáttir við að leiða ekki, eins og forsvarsmenn HK viðurkenndu fúslega á barnum í hléi. Bæði lið gátu þó sameinast um að pirra sig á dómgæslunni sem var tilviljanakennd og sveiflaðist á milli þess að leyfa mjög mikið og nánast ekki neitt.

Aron Jó. mom inná fyrir Gumma í hléi en hann hafði nælt sér í gult spjald fyrir kjaftbrúk snemma leiks og virtist ekki fyllilega heill. Eftir rúma mínútu gaf dómarinn HK-liðinu aukaspyrnu fyrir litlar sakir eftir að hafa líka látið liðið njóta hagnaðarins. Upp úr henni kom snotur sending sem enginn Framari gerði minnstu tilraun til að verjast og HK náði forystunni með ótrúlega einföldu skallamarki frá gömlum samherja sem verður ekki nafngreindur hér frekar en aðrir mótherjar.

Framliðið virtist ekki kippa sér mikið upp við þetta áfall og beint í kjölfarið stakk Tiago inn í gegnum vörnina þar sem Jannik komst í dauðafæri og Aron Jó í kjölfarið en hetjumarkvarsla Kópavogsbúans forðaði marki. Þar á eftir átti Jannik góða fyrirgjöf á Arona Snæ sem var varin.

Það er erfitt að vera fótboltaskríbent á síðustu og verstu tímum þar sem reglum íþróttarinnar er breytt í sífellu. Einu sinni var t.d. eitthvað til sem hét tvígrip en það hefur væntanlega verið afnumið enda fékk HK markvörðurinn að halda vel og lengi á boltanum í eigin teig, missti hann svo í jörðina og tók aftur upp með báðum höndum athugasemdalaust. Það er vonlaust að reyna að fylgjast með öllum þessum nýju reglum.

Aronarnir Jó og Snær áttu góða sóknarlotu þegar klukkutími var liðinn af leiknum. Augljóst var að heimamenn höfðu ákveðið að pakka í vörn og halda fengnum hlut. Í hornspyrnunni í kjölfarið náði Þengill hörkuskalla sem var varinn á marklinu!

Þegar stundarfjórðungur var til leiksloka nældi Jannik í aðra vítaspyrnu sína í leiknum og aftur var um óþarfa taugaveiklun mótherja að ræða sem ákvað að gefa honum olnbogaskot í bringuna á vítateigslínunni. Eftir að stumrað hafði verið yfir Dananum grjótharða í nokkra stund fór hann beint á punktinn og skoraði af öryggi, 1:1.

Bæði lið virtust staðráðin í að innbyrða sigurinn og sannast sagna sóttu heimamenn af öllu meiri krafti undir blálokin. Fred, sem hafði hlaupið úr sér lungu og lifur, fékk hvíldina á lokamínútunni þegar Viktor Bjarki kom inná. Þegar þar var komið sögu voru flestir okkar manna orðnir verulega framlágir enda búnir að djöflast frá fyrstu mínútu. Jannik var mikilvægastur í Framliðinu og mun skipta sköpum þegar kemur að næstu leikum. Sjálfsagt er að hrósa öllum ungu mönnunum þremur. Breki skilaði sínu virkilega vel og er að afla sér mikilvægrar reynslu á þessu tímabili. Sigfús Árni stóð sig vel og Þengill gerði engin mistök. Þeim hefði öllum verið vel treystandi til að verja mikilvæga brú í Þýskalandi árið 1945 með lúinn riffil og fáein skothylki.

Næsti leikur er í Eyjum á laugardag. Verður ekki örugglega siglt úr Landeyjahöfn?

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!