fbpx
Viktor

Sparneytni

Klukkan var kortér í sex og fréttaritari Framsíðunnar trítlaði út á stoppistöð. Eins og margoft hefur komið fram í þessum pistlum er bein strætóleið úr Hlíðunum og upp í Dal draumanna – og eftir að það varð félagslega viðurkennt hjá íslenskum fótboltaliðum að dæla út bjór eins og e-pillum á Tetris í Fischersundinu á tíunda áratugnum, hefur það legið beint við að taka stóran gulan Volvo á völlinn í stað þess að hökta á einkabílnum uppeftir. Strax á annarri stoppistöð steig félagsmálatröllið Obba – móðir Ömma uppáhaldsmarkvarðar okkar allra um borð og það urðu fagnaðarfundir. Rætt var um Fram og landsins gagn og nauðsynjar alla leið upp að Lambhagavelli.

Það er alltaf pínkulítið skrítið að mæta neðrideildarliðum í bikarkeppninni. Ef maður væru glasið-er-hálffullt týpan mætti benda á að Fram sé Reykjavíkurmeistari ársins 2023 og ÍH Hafnarfjarðarmeistari ársins 2024, sem eina Hafnarfjarðarliðið í 16-liða úrslitum – en það blekkir samt engan. Það að dragast gegn D-deildarliði í bikarnum er happdrættisvinningur en um leið bananahýði. Í 49 af 50 skiptum vinnur úrvalsdeildarliðið svona viðureign en þú vilt ekki vera 50.skiptið, því það kallar á háðsglósur og brandara svo áratugum skiptir…

Rúnar og félagar stilltu upp sterku liði en þó með fullt af innskiptingum. Stefán Þór fékk að spreyta sig í markinu og stóð sig vel. Hann fékk á sig nokkur langskot úr fríu færi og var mjög duglegur við að framkalla sjónvarpsvörslur sem létu skotin líta út fyrir að vera hættulegri en þau voru í raun og veru.

Varnarlínan var Adam, Kyle og Brynjar Gauti – sem er að snúa aftur eftir langvinn meiðsli. Allir stóðu sig vel í kvöld en verkefnið var vissulega ekki sérlega krefjandi. Már og Halli tóku sitthvorn bakvörðinn. Á miðjunni voru Breki, Fred og Egill Otti. Gummi og Viktor Bjarki frammi.

Fréttaritarinn og Obba tróðu sér upp í fínumannastofuna, þótt þar væri engin sérstök dagskrá í gangi enda bikarleikur. Valinkunnur hópur stjórnarfólks og velunnara hafði komið sér vel fyrir. Framborgararnir stiknuðu á grillinu og ölgerðarbjórinn flaut. Valtýr Björn reyndist hafa vandræðalega sterkar skoðanir á forsetakosningunum – sem var samt ekki alveg óvænt.

Leikurinn byrjaði og fréttaritarinn fékk sér sæti hjá Þorkatli Gunnari sem var á RÚV-vaktinni. Almannasjónvarpið hefur sinnt bikarkeppninni mjög vel í sumar, sem verður mjög hentugt þegar kemur að því að gefa út dvd-diskinn þegar við vinnum hana í haust.

Framarar sköpuðu fyrstu alvöru færin í leiknum þar sem markvörður ÍH varði frá Agli Otta, greip glæsilega skalla frá Gumma Magg, horfði á Fred þruma yfir markið eftir horn og varði svo með herkjum bakfallsspyrnu frá Gumma – allt á fyrsta kortérinu. Það var ljóst frá fyrstu mínútu að hér væri ekki jafnræði með liðum.

Íþróttafélag Hafnarjarðar er þrátt fyrir nafnið ekki hundrað ára gamall klúbbur, heldur félag sem stofnað var árið 1983 um handboltaiðkun. Þeirra stund í sólinni var þegar ÍH rambaði upp í efstu deild fyrir löngu síðan, þjálfaðir af Vidda Sím – gamla leikfimikennara fréttaritarans – og enduðu á að vinna einn handboltaleik en tapa restinni, yfirleitt með miklum mun. Á tuttugustu mínútu vildi ÍH fá víti en það var tllefnislítið.

Um það leyti sem fyrri hálfleikur var hálfnaður kom fyrsta markið. Fred fékk boltann uppi við endamörk hægra megin, lyfti yfir á hinn kantinn þar sem Halli kom aðvífandi og sendi fyrir markið. Gummi og Viktor Bjarki stóðu nánast hlið við hlið og reyndu báðir að skalla boltann í netið – Viktor náði að teygja álkuna örlítið lengra og skallaði fram hjá Atla Gunnari í markinu, 1:0. (Atli Gunnar er nafngreindur, þrátt fyrir að vera í hinu liðinu af því að hann lék með okkur í Lengjudeildinni fyrir nokkrum árum og var bara helvíti fínn.)

Rétt í kjölfar marksins var Fram nærri því að tvöfalda forystuna þegar Jón Otti skaut í hliðarnetið eftir góða sendingu frá Gumma Magg. Eftir hálftíma leik átti Brynjar Gauti bakfallsspyrnu í vítateignum sem skapaði stórhættu við ÍH-markið og mínútu síðar skallaði Gummi rétt framhjá eftir sendingu frá Má.

Staðan í hálfleik var 1:0 fyrir Fram. Fréttaritarinn, verandi maður alþýðunnar, ákvað að sniðganga fínumannaboðið og drekka þess í stað með skrílnum í Bar-áttunni. Orðið á götunni var að Fram hefði átt að skora meira, en fréttaritarinn var gallharður á móti því. Bikarkeppni gengur út á að vinna leiki og engum er hampað eða verðlaunað fyrir að skora fleiri mörk en nauðsyn krefur. Eins marks sigrar eru til marks um nægjusemi og sparneytni.

Eftir hlé tók fréttaritarinn sér stöðu hjá Birni úr hverfaráðinu og Gumma Liverpool-manni sem bjó til fyrstu heimasíðu Fram fyrir hundrað árum. Hann átti svo eftir að skutla ykkar einlægum heim eftir leikinn. Í hálfleik fór Egill Otti útaf en Freyr hornafjarðarsmátröll kom inná.

Seinni hálfleikur var þriggja mánaða gamall þegar Fram breytti stöðunni í 2:0. Löng aukaspyrna aftur af vallarhelmingi Fram rataði beint á Má sem var nálega óvaldaður og skoraði auðveldlega. Þar með var leikurinn í raun búinn.

Á 66. mín fóru Fred og Halli af velli fyrir Tiago og Alex. Tíu mínútum síðar kom Aron Kári Aðalsteinsson inná fyrir Kyla. Gaman að sjá Aron Kára sem hefur verið ótrúlega óheppinn með höfuðhögg á sínum ferli. Á 80. mínútu kom Gummi Magg boltanum í netið eftir frábæra sendingu frá Alex. Aðstoðardómari flaggar rangstöðu sem virtist hæpin niðurstaða á vellinum en fréttaritarinn nennir ekki að bíða eftir svipmyndum frá RÚV til að kveða upp sinn dóm.

Skömmu fyrir leikslok var Hlyni Atla skipt inn á fyrir Brynjar Gauta. Gaman að sjá okkar trygga þjón fá nokkrar mínútur. Þegar komið var fram í uppbótatíma leit þriðja markið dagsins ljós. Viktor Bjarki skallaði þá inn eftir sendingu frá Alex, 3:0. Það er augljóslega léleg nýting á tíma og orku að vinna bikarleik með meira en einu marki, þar sem markatala telur ekki neitt en svona er staðan samt. Fram er komið í fjórðungsúrslit bikarsins og dregið verður á þriðjudaginn. Allir hljóta að óska þess að við fáum Víkinga á heimavelli til að leiðrétta ákveðinn misskilning frá fyrri viðureign og til að Alex Freyr geti sópað boltanum inn af fjærstönginni.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!