fbpx
Tryggvi gegn UBK

…næstum eins og sigur!

Titillinn á leikskýrslu fréttararitara Framsíðunnar var tilbúinn snemma í seinni hálfleik: „Grátt“ – það hefði kallast á við dumbungslegt veðrið, stemningsleysi á pöllunum, fullkomið andleysi Framara í leiknum og almennt séð ömurleg úrslit þar sem heimamenn í FH voru að rúlla yfir okkar menn. Ágætis fyrirsögn svo sem, en skjótt skipast veður í lofti og hún endaði á ruslahaugum sögunnar. Meira um það á eftir.

Það var hellirigning í Hlíðunum þegar Valur Norðri sótti fréttaritarann um hálfsjöleytið. Tíminn var knappur. Fyrst þurfti skjaldsveinninn að renna heim í Fossvoginn, sækja sína ektakvinnu Laufeyju og skutla henni í vinnustaðapartý og því næst að bruna í Seljahverfið að sækja Rabba trymbil áður en hægt var að bruna suður í Kaplakrika þar sem við tók mikil leit innan um pallaleigur og bílapartasölur áður en hægt var að finna bílastæði.

Það var mínúta liðin af leiknum þegar skytturnar þrjár klöngruðust loks upp í stúkuna á FH-vellinum. Hún var fámenn og hljóðlát. Þeir hlömmuðu sér niður í næstu röð fyrir ofan biskupinn og Esperantistann en í næstu röð fyrir neðan Skúla Helga. Annars var lítið um kunnugleg andlit.

Byrjunarliðin höfðu verið kynnt á netinu klukkutíma fyrr og þar voru engar stórbreytingar frá fyrri leikjum. Óli í markinu. Þorri, Kyle og Adam í miðvörðum. Mási fór á bekkinn en Alex og Halli voru í bakvarðastöðunum. Tiago, Tryggvi og Fred á miðjunni. Gummi og Mingi frammi, sá síðarnefndi kominn aftur í liðið fyrir Viktor Bjarka.

Veðrið hefði vissulega getað verið betra fyrir þennan fyrsta af þremur grasleikjum Framara í sumar (hinir tveir eru ÍA úti og bikarúrslitin á Laugardalsvelli). Völlurinn var þungur og frá fyrstu mínútu var ljóst að sumir okkar manna væru ekkert að komast í tengingu við leikinn.

FH-ingar – sem einatt spila í sauðalitunum – ákváðu að mæta gulklæddir, sem var reyndar gagnlegt í þungbúnu veðrinu á velli án flóðljósa. Þetta er líklega birtingarmynd þeirrar furðulegu tísku í fótboltaheiminum að kynna til sögunnar varabúninga í takmörkuðu upplagi til að pranga inn á hrekkleysingja og/eða til að breiða yfir veika og brotna sjálfsmynd. Vonandi hjálpa þessar aflóga Fjölnistreyjur þó til þess að redda næstu afborgun af yfirdráttarláninu.

Leikurinn byrjaði dauflega og þar fyrsta sem rataði í minnisblokk fréttaritarans var aukaspyrna FH sem Óli sló auðveldlega frá á 9. mínútu. Það næsta markverða gerðist eftir um tuttugu mínútur. Gummi Magg og leikmaður FH hlupu saman í vítateig Fram og báðir lágu eftir. Dómari leiksins flautaði og fréttaritarinn reiknaði með því að Gummi hefði fengið aukaspyrnu, enda stóð hann fyrir framan Hafnfirðinginn í hinu meinta brota. Eftir smá ringulreið kom hins vegar í ljós að dæmd hafði verið vítaspyrna á Fram sem virtist – líka eftir yfirlegu á myndskeiðum úr sjónvarpinu – vera glórulaust rugl. En um það var ekki spurt og FH-ingur skoraði, 1:0.

Það var varla að FH-markinu væri fagnað í stúkunni, svo slöpp var stemningin hjá hinum blautu og þunglyndu áhorfendum sem þó höfðu séð ástæðu til að mæta. Næstu mínútur bar lítið til tíðinda, þó átti Fred ágætis stungu innfyrir sem Alex náði ekki almennilega að koma á markið. Á sömu mínútu kom Óli sér í stórhættu með slakri sendingu frá marki en bætti fyrir með ágætri markvörslu. Þorri lagðist í grasið og virtist meiddur. Hann átti svo eftir að þurfa að fara af velli í leikhléi, sem eru vondar fréttir. Vonandi ná sjúkraþjálfararnir að kippa þessu í liðinn á næstu tveimur vikum.

Bjössi, pabbi Þorra, lét þessi meiðsli sonarins ekki hindra sig í að hrópa reglulega hátt og snjallt að dómara leiksins og benda honum kurteislega á að vítið fyrr í leiknum hefði verið hreint réttarmorð. Á 42. mínútu gafst prýðilegt tækifæri til að jafna metin þegar FH-ingur reyndi að klæða Gumma Magg úr treyjunni inni í vítateig, en ekkert var dæmt. Beint í kjölfarið brunuðu heimamenn svo upp kantinn í páskaungabúningunum sínum, sendu fyrir og komust í 2:0. Aldrei þessu vant leit okkar allra besti Kyle ekkert sérstaklega vel út í markinu eftir afleita dekkun. Í uppbótartíma fyrri hálfleiks náðu Framarar góðri stungusendingu á Gumma Magg sem virtist sloppinn einn í gegn en var flaggaður rangstæður… sem virtist tæpt í meira lagi.

Það var mjög glatað að fara niður í bjórtjald Hafnfirðinga 2:0 undir og það sem verra var, við höfðum ekki getað rasskat. Liðið var slakt, höndlaði völlinn illa og hafði enga trú á verkefninu. Kotrosknir FH-ingar voru yfirlætisfullir en við litlir í okkur. Bjórinn var flatur en hamborgararnir ágætlega steiktir.

Rúnar og þjálfarateymið gerðu þrefalda skiptingu í hálfleik. Að hluta sjálfvalið og að hluta tilneyddir. Þorri fór af velli ásamt þeim Minga og Tiago. Sá síðarnefndi fann sig aldrei á þungu grasinu og alveg spurning um að við hlífum honum við að spila á Skaganum seinna í sumar. Inn komu Brynjar Gauti í vörnina, Mási og Viktor Bjarki. Brynjar byrjaði ekki vel, átti misheppnaða sendingu til baka strax á annarri mínútu sem gaf heimamönnum dauðafæri en Óli varði vel. Eftir það komst hann hins vegar í mun betri takt við leikinn.

FH átti bylmingsskot framhjá á 53. mínútu og fréttaritarinn kepptist við að semja þunglyndislega greinartitla í höfðinu – þetta var ekki að fara að enda vel. Framarar sýndu þó örlítið lífsmark og skipti þar máli að Már hafði náð að blása smá lífi í spilið á miðjunni. Á 59. mínútu átti Fram svo vænlega sókn sem fjaraði út, heimamenn óðu upp völlinn og skoruðu þriðja markið – aftur eftir frekar slæglegan varnarleik Kyle, sem hefur annars verið okkar allra besti maður. Staðan orðin 3:0 eftir klukkutíma og ekkert nema hyldýpið blasti við.

Rétt eftir markið stuggaði einn FH-ingurinn af tilefnislausu við Fred, sem brást reiður við. „Þarna reytti hann Fred til reiði – það hefði hann ekki átt að gera…“ – sagði Rabbi trymbill og þetta reyndust áhrínisorð…

Á 62. mínútu átti Tryggvi (sem var eiginlega eini Framarinn sem barðist í allar 90 mínúturnar) sendingu fyrir á Viktor Bjarka sem skallaði vel að marki – boltinn virtist fara inn fyrir marklínuna en dómarinn gaf merki um að spila áfram. Mínútu síðar skeiðuðu Framarar upp hægri kantinn, sendu fyrir og Gummi Magg sýndi það sem hann er með mastersgráðu í – að flikka boltanum áfram með kollinum – beint fyrir fæturnar á Alex sem negldi honum upp í samskeytin, 3:1. Alex var frábær í kvöld og næstbesti maður vallarins.

Þrátt fyrir markið var fátt sem benti til að Framarar ætluðu að snúa leiknum sér í vil. Næsta stóra færi kom í hlut FH-inga sem þrumuðu í hliðarnetið á 72. mínútu og krafturinn í Framliðinu virtist heldur vera að þverra.

Á 79. mínútu var Tryggvi ruddalega klipptur niður rétt fyrir utan vítateig FH og einn páskaunginn fékk réttilega rauða spjaldið. Fred og Halli stilltu boltanum upp. Allir reiknuðu með að Halli tæki falskt upphlaup en Fred reyndi svo einhverja flókna krúsídúllu í fjærhornið – en okkar allra besti Haraldur þrusaði einfaldlega í markmannshornið, alltof fast fyrir markmanninn. 3:2 og frábært mark!

Eftir þetta mark tóku Framarar öll völd á vellinum. Heimamenn voru skjálfandi á beinunum og á 86. mínútu gáfu þeir aukaspyrnu úti á kanti. Halli tók spyrnuna á Kyle sem var algjörlega óvaldaður og þurfti aldrei þessu vant ekki að nota hausinn, heldur gat spyrnt með fótunum til að jafna 3:3. Frábærlega svarað fyrir mistökin fyrr í leiknum. Halli með mark og stoðsendingu – og klárlega þriðji besti maður Fram í leiknum.

Undir blálokin komust Framarar í dauðafæri til að hirða öll stigin eftir darraðardans í vonlausri FH-vörninni en tilefnislítið brot var flautað á okkar menn. Það voru mörg stór vafaatriði í dómgæslunni í þessum leik og fæst féllu okkur í vil. En það er samt ekki hægt að vera svekktur eftir að hafa komið til baka 3:0 undir og ekki gert neitt af vitið í klukkutíma og herja að lokum út 3:3 jafntefli. Frammistaða sem þessi hlýtur að gera liðinu gott í framhaldinu.

En úr því að Halli var þriðji bestur og Alex næstbestur… hver var þá maður leiksins? Jú: Adam var hin óvænta hetja leiksins. Frábær og þétt frammistaða frá leikmanni sem var varla í hópi í byrjun tímabils en er búinn að spila sig rækilega inn í byrjunarliðið og er orðinn einn okkar mikilvægustu manna.

Nú tekur við ömurlegt landsleikjahlé en síðan er það næsta skref í okkar óumflýjanlega bikarmeistaratitli. Sjáumst svo á fimmtudaginn kemur í Mosó þar sem stelpurnar jafna reikninga gegn Aftureldingu.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!