„Haag, eru 17 metrar á sekúndu undir Hafnarfjalli???“ – spurði furðulostinn Skjaldsveinninn þegar hann og Fréttaritarinn óku framhjá tilkynningaskilti Vegagerðarinnar við Esjumela. Félagarnir höfðu yfirgefið Reykjavík í dúnalogni og 16 stiga hita og þótt augljóslega myndi veðrið vera eitthvað verra á Skaganum, var enginn búinn undir ljósgula veðurviðvörun. Félagarnir voru bara tveir í bílnum. Rabbi trymbill átti að vera þriðja hjól undir vagninum en forfallaðist á síðustu stundu út af iðnaðarmönnum – sumir eru lukkunnar pamfílar.
Það er klisja að tala um sex-stiga leiki en Fram og Akranes eru í sama pakka – fimm liða sem bítast um þrjú sæti í efri hluta úrslitakeppninnar – þar af eitt mögulegt Evrópusæti. Hver leikur er úrslitaleikur þennan mánuðinn.
Byrjunarliðin voru komin á netið í miðjum Hvalfjarðargöngunum. Framliðið var laskað á miðjunni, Tryggvi og Tiago báðir meiddir og utan hóps. Fyrir vikið voru óvænt nöfn í byrjunarliði. Óli auðvitað í markinu. Kyle, Þorri og Kennie í miðvörðum. Alex og Halli í bakvörðum – allt kunnuglegt það. Óvæntu fréttirnar voru þær að Orri Sigurjónsson var kominn aftastur á miðjuna, með Fred og Frey hvorn til sinnar hliðar. Gummi Magg og Daniels hinn hollenski frammi. (Glöggir lesendur vita nú hvernig leiknum lauk.)
Þorbjörn Atli og Ragnheiður, foreldrar Þorra, stóðu frekar áttavillt við innganginn á Akranesvellinum. Bjössi uppástóð að hann hefði aldrei horft á leik á Akranesi öðruvísi en úr grasbrekkunni, en fljótlega tók hann sönsum og samþykkti að rölta yfir í stúkuna hinu meginn. Þar hlammaði hópurinn sér innan um valinkunnugt sómafólk: Adda úr bankanum, Ivar og Sævar Guðjónssyni og mömmu þeirra. Enginn áttaði sig á því úr hvaða átt blési og fánarnir umhverfis völlinn virðust standa í allar áttir.
Leikurinn byrjaði afar rólega. Heimamenn greinilega staðráðnir í að liggja til baka og draga Framara upp völlinn, en við álíka staðráðnir í að láta ekki plata okkur í neitt slíkt. Fyrsta markverða atvikið sem náði í bókina var eftir tíu mínútur þegar Kennie náði ekki nægilega góðum skalla að marki eftir ágætan undibúning frá Alex og Gumma.
Daniels komst í hálffæri á 35. mínútu með ágætu skoti, en varnarmaður ÍA náði að renna sér fyrir boltann. Fljótlega í kjölfarið skallaði Gummi boltann niður fyrir Frey sem var hársbreidd frá því að komast í skotfæri, en markvörðurinn varð fyrri til. Heimamenn fengu sín færi líka og rétt fyrir markamínútuna áttu Skagamenn eina skotið á mark í fyrri hálfleik, neglu sem Óli varði með tilþrifum. Mikið er búið að vera gaman að fylgjast með framförum Óla Íshólm í markinu hjá okkur á þessu ári – við hljótum að þakka Gareth markmannsþjálfara þessi umskipti.
Undir blálokin koms Halli svo í hættulegasta færi leiksins þar sem hann komst allt í einu á auðan sjó en skot hans sleikti stöngina utanverða.
Eftir þrjú kortér af leiðindum trítluðu fréttaritarinn og skjaldsveinninn í hvíta veitingasölutjaldið, skröfuðu við mann og annan og skelltu sér svo í endalausa biðröðina í veitngasölunni. Á sjónvarpsskjá í horninu sást að liðin gengu inn á völlinn, röðin styttist – en þó hægt. Skyndilega heyrðust hávær fagnaðaróp að utan – sjónvarpið reyndist vera tveimur mínútum á eftir. Framliðið hafði hafið leik, misst boltann klaufalega og gulklæddir náð að dansa vandræðalítið í gegnum vörnina og skora – algjört klúður og varnarleikur undir pari, 1:0.
Eftir markið duttu Skagamenn aftar á völlinn, sem vænta mátti. Frömurum gekk þó illa að færa sér það í nyt. Kennie átti bylmingsskot framhjá markinu á 52 . mínútu. Þegar hálftími var eftir fór Orri af velli fyrir Sigfús. Það var óvænt að sjá Orra í byrjunarliði eftir að hafa varla sést á bekknum hvað þá meira frá því í byrjun tímabils. Hann stóð sig þó með ágætum og var ásamt Daniels okkar líflegasti maður í kvöld. Skagamenn komust nærri því að tvöfalda forystuna á 70. mínútu en Kennie, sem var langt frá sínu besta í kvöld, varði á línu. Skömmu síðar kom Mingi inná fyrir Frey á miðjunni.
Daniels skallaði framhjá Skagamarkinu á 81. mínútu og fór skömmu síðar af velli fyrir táninginn Markús Pál á sama tíma og Adam leysi Alex af hólmi. Markús Páll kom sér í þokkalegt færi áður en yfir lauk en skalli hans fór vel yfir. Átta mínútna viðbótatími var tilkynntur en Frömurum tókst ekki að gera sér neinn mat út því. Dauflegasti leikur sumarsins staðreynd, ef Fylkisleikurinn í Árbæ er undanskilinn. Enn einn ósigurinn á Skaganum – en þá er bara að vinna Blika næst!
Stefán Pálsson