fbpx
Kenny

Áttundi viðaukinn

Peysuveður er eitt fegursta orð íslenskrar tungu. Það vísar augljóslega til veðurs sem er svo milt að hægt er að fara um og reka sín erindi á peysunni án þess að eiga á hættu að fá bronkítis og blöðrubólgu. Í Dal draumanna er nánast alltaf peysuveður. Raunar má velta því fyrir sér hvort ekki væri eðlilegt að hækka miðaverðið, þar sem áhorfendur frá bæði Benidormblíðu OG að horfa á Móðurskip íslenskrar knattspyrnu að leik?

Fréttaritarinn mætti seint í Úlfarsárdalinn, beint úr skírnarveislu í Kópavogi hjá mági og svilkonu. Það tók sig ekki að kíkja á fínumannaboðið, þar sem Rúnar þjálfari var löngu búinn að kynna byrjunarliðið. Einföld netleit leiddi hins vegar í ljós að hér vantar meira sjúkrateip og voltaren forte. Lykilpóstar eru meiddir og utanliðs eða á bekknum. Blessunarlega er langt á milli leikja núna og vonandi tekst sjúkra- og iðjuþjálfurum félagsins að koma fleiri mönnum á lappir fyrir lokasprettinn.

Óli stóð í markinu með Kennie, Þorra og Brynjar Gauta í miðvörðunum fyrir framan sig, þar sem Kyle var sárt saknað. Brynjar Gauti hefur ekki verið mikið í hóp í sumar og var örlítið ryðgaður í byrjun en vann sig svo vel inn í leikinn og var einn okkar bestu manna í seinni hálfleik. Alex og Halli bakverðir. Adam var aftastur á miðjunni með Frey og Fred fyrir framan sig. Mingi og Gummi Magg frammi.

Kristján Hnífsdalstrymbill og hlaðvarpsstjóri sat í Bar-8unni ásamt Stefáni syni sínum. Hann tyllti sér svo hjá Geiramönnum og stýrði kjuðum en fréttaritarinn leitaði uppi sína hefðbundnu sessunauta. Þetta var greinilega feðgadagur, því Rabbi mætti með son sinn ÍR-inginn en Skjaldsveinninn hafði álpast í golf með pabba sínum og tafðist á tíunda teig og skrópaði því eina ferðina enn. Spurning um að stofna sektarsjóð?

 Strax á fyrstu mínútunum flugu nokkrir leikmenn úr báðum liðum á hausinn. Völlurinn hafði greinilega verið vökvaður hraustlega. Varnirnar voru sömuleiðis staðar og nokkur hálffæri komu á báða bóga. Fyrsta markið var svo alltof auðvelt. Löng sending á víðförlan framherja gestanna olli óþarfa usla í Framvörninni og hann komst svo í færi til að setja boltann snyrtilega í fjærhornið framhjá Óla, 0:1 eftir tæpar tíu mínútur.

Markið virtist eitthvað ýta við okkar mönnum og Framarar voru talsvert sterkara liðið það sem eftir var hálfleiks. Bestu sóknirnar áttu það yfirleitt sameiginlegt að Fred kom við sögu og á 16. mínútu var hann hársbreidd frá því að skora eftir góðan samleik með Adam. Strax á næstu mínútu skapaðist hætta við bæði mörkin, fyrst komust KA-menn í gott marktækifæri, því var varist og þvínæst tók Alex á skeið upp að endimörkum þar sem hann lét vaða á KA-markið en það var varið. Alex var afar líflegur í leiknum.

Á nítjándu mínútu kom jöfnunarmarkið. Enn var Alex að sækja að marki Norðanmanna. Hann sendi fram á Frey sem var kominn alveg að endamörkum og í stað þess að reyna að ná góðri sendingu úr þröngu færi ákvað hann að negla inn í þvöguna fyrir framan markið. Það var góð ákvörðun því boltinn skaust í KA-mann og í netið, 1:1.

„Er maðurinn virkilega með vettlinga í brakandi hitanum?“ – spurði Rabbi forviða, þegar hann sá hanskana á höndum eins gestanna. Okkar allra besta Kennie, með glænýjan samning til 2026, var greinilega jafnmisboðið og eftir hálftíma leik ákvað hann að taka kuldakreistuna engum vettlingatökum (sáuði hvað ég gerði þarna?), vann af henni boltann á miðjunni og skeiðaði fram. Sending hans inn á Fred tókst ekki nægilega vel, fær rann út í sandinn og Fred þurfti aðhlynningu, hnjaskaður eftir samstuð við markvörðinn.

Segja má að í knattspyrnudómgæslu sé tveir meginskólar. Annars vegar Gylfa Orrasonar-skólinn sem aðhyllist þá skoðun að knattspyrna sé falleg og göfug íþrótt þar sem bakhrindingar eru bannaðar. Hins vegar er það skólinn sem vill líta fram hjá slíkum hrindingum og pústrum. Það er fólkið sem svindlar í biðröð. Í kvöld var Gylfa Orrasonar-skólinn ekki í hávegum hafður.

Besta færi leiksins leit dagsins ljós á 36. mínútu þegar Gummi fékk boltann í þröngri stöðu inni í vítateig, prónaði sig framhjá tveimur og ætlaði að vippa snyrtilega í markið, en aðvífandi Akureyringur bjargaði á marklínu. Skömmu síðar var Gummi aftur í eldlínunni þegar Kennie átti frábæra sendingu inn á teiginn en framherjinn okkar lenti í þriggja manna samstuði og uppskar skurð á höfði og glæsilegan vefjarhött það sem eftir lifði leiks. Fjórum mínútum var bætt við hálfleikinn og alveg undir lok þess tíma fengu bæði lið tækifæri til að ná forystunni.

Stemningin í Bar-8unni var almennt á þá leið að Framarar væru nær því að hirða öll stigin þrjú, sem hefðu reynst svo mikilvæg upp á framhaldið. Það skiptir einfaldlega öllu máli að lenda í efri hlutanum og losna þar með við neðri hlutann og KR með tilheyrandi lögfræðikostnaði. Biskupinn, biskupsbróðirinn og fulltrúi Coventry-manna hafa legið yfir tölfræðinni og greindu stöðuna fram og til baka.

Allar vonir um að Framarar myndu halda sama krafti í seinni hálfleik og þeim fyrri brugðust snemma. Eftir tæplega tíu mínútna leik átti Halli reyndar skemmtilega stungusendingu inn á teig KA þar sem Gummi reyndi flugskalla og hefði líklega náð að stanga glæsilega í netið ef sjúkraþjálfarinn hefði bara vafið örlítið meira sárabindi um kollinn á honum! Að þessu atviki frátöldu bar fátt til tíðinda fyrr en eftir tæpar tuttugu mínútur af seinni hálfleik þegar markaskorari gestanna var óvænt skilinn eftir líttvaldaður á markteig en tókst að sópa yfir úr algjöru dauða-dauðafæri.

Eftir því sem leið á hálfleikinn fór mjög að draga af mörgum leikmanna Framliðsins. Engar komu þó skiptingarnar, enda fáu slíku til að dreifa. Flestir á varamannabekknum í raun líka á sjúkralistanum og mikið álitamál hvaða sénsa vert væri að taka með þá. Fyrsta og eina skiptingin kom svo á 71. mínútu þegar Daniels (Höskuldarviðörun) kom inná fyrir Minga.

Tíminn leið og jafntefli virtist stöðugt líklegri úrslit – og svo sem ekki versta niðurstaðan miðað við útreikninga snjöllustu reiknimeistara. En sagan hræðir. Fyrir kvöldið hafði Fram tapað tvisvar fyrir KA á þessu keppnistímabili, í annað skiptið með marki í blálokin. Gæti slíkt orðið niðurstaðan í þriðja sinn?

Árið 1689 setti enska þingið mikilsverða mannréttindalöggjöf, þar sem meðal annars var tiltekið bann við grimmdarlegum og óhefðbundnum refsingum. Það hugtak hefur síðan ratað inn í grundvallarlög fleiri samfélaga og var til að mynda bundið í bandarísku stjórnarskránna með áttunda viðaukanum við hana árið 1791. Sama orðalag má finna í fimmtu grein mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Siðmenntuð samfélög eru sammála um að grimmdarlegar og óhefðbundnar refsingar séu ólíðandi í nútímasamfélagi.

Og hvað er það annað er grimmdarleg og óhefðbundin refsing að tapa þrisvar sinnum á einu og sama sumrinu fyrir gulbláum knattspyrnuarmi IKEA á Íslandi?

Á lokamínútu venjulegs leiktíma gerði Fred árás á KA-vörnina, þar sem varnarmaður gestanna sparkaði knettinum í höndina á sjálfum sér fyrir framan nefið á dómaranum sem gaf merki um að spila áfram. Einungis þremur mínútum var bætt við og Framarar lögðu allt kapp á að vinna, sem sást m.a. af því að þegar okkar menn fengu hoornspyrnu í uppbótartímanum var Alex aftasti maður rétt við vítateigshorn KA. En stundum eru harmleikir eins og skrifaðir í skýin. Á lokasekúndunum kom löng sending inn í vítateig Fram, Alex virtist í stöðu til að skalla frá en fékk hrindingu á bakið og féll til jarðar til að sækja aukaspyrnuna – en þetta var leikurinn þar sem bakhrindingar voru heimilaðar og einn norðlendingurinn stangaði í netið, 1:2. Grátur og gnístran tanna. Eftir leikinn er fréttaritaranum eiginlega sama hvort Fram endar í efri eða neðri hlutanum – svo fremi að það verði hlutinn sem ekki inniheldur Knattspyrnufélag Akureyrar. Urr.

Stefán Pálsson

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!