Knattspyrnudeild Fram tilkynnir með miklu stolti að Alda Ólafsdóttir hefur framlengt samning sinn við félagið út árið 2026.
Alda gekk til liðs við Fram í vetur eftir að hafa raðað inn mörkum í 2.deildinni með Fjölni tímabilið á undan. Hún hefur haldið uppteknum hætti síðan hún kom til Fram og hefur þegar þetta er skrifað skorað 27 mörk í 30 leikjum með Fram það sem af er tímabili. Þar af 12 mörk í 16 leikjum í Lengjudeildinni þar sem hún hefur verið algjörlega frábær í sumar.
Fyrir utan fullt af mörkum og frábærum frammistöðum hjá meistaraflokki þá hefur Alda einnig sinnt þjálfun yngri flokka kvenna og verið frábær fyrirmynd innan vallar sem utan.
Óskar Smári, þjálfari meistaraflokks kvenna, er að vonum glaður:
“Það er liður í því metnaðarfulla starfi sem er í gangi hjá Fram að halda lykilleikmönnum liðsins innan okkar raða fyrir næstu ár.
Frá komu sinni til félagsins hefur Alda verið til fyrirmyndar í einu og öllu. Hún mætir á hverja einustu æfingu eins og það sé hennar síðasta og hún er þeim eiginleikum gædd að hún hugsar um sig eins og atvinnumaður. Það er mikilvægt upp á okkar kúltúr að leikmenn eins og Alda verði áfram hjá okkur næstu árin, til þess að stækka og dafna með liðinu, og setja fordæmi fyrir yngri kynslóðina hvað það þýðir að vera leikmaður í meistaraflokki kvenna hjá Fram.
Ég fagna framlengingunni á samning hjá Öldu gífurlega, enda er ekki nokkur vafi á því að hún er einn öflugasti framherji landsins um þessar mundir.”
Alda er sjálf hæstánægð með framlenginguna:
“Ég er mjög ánægð með að hafa framlengt samning minn við Fram. Mér hefur liðið mjög vel hjá félaginu og þar hef ég allt sem ég þarf til að bæta mig sem leikmann og einstakling, geggjaða aðstöðu, gott þjálfarateymi, góða liðsheild innan liðsins og frábæra einstaklinga á bakvið liðið.
Ég hlakka til komandi tíma með Fram við að hjálpa liðinu að bæta sig og komast á hærra level. Þetta verður skemmtileg vegferð!” Veislan heldur áfram. Áfram FRAM