fbpx
FRAM - Breiðablik

Gripdeild

Í kunnri skáldsögu eftir Jens Sigsgaard frá árinu 1942 segir frá ungum manni sem upplifir skyndilega að fótunum er kippt undan tilveru hans. Snögglega hefur hann öðlast völd og áhrif, en á kostnað samneytis við annað fólk. Hin nýja valdastaða stígur honum til höfuðs. Hann sankar að sér auðæfum til þess eins að gefa þau frá sér aftur. Hann freistar þess að ganga í störf meistarakokka og reynir meira að segja að stýra sporvagni á tímum þar sem þörfin fyrir virkar almenningssamgöngur hefur aldrei verið eins lítil. Að lokum kemur í ljós að um skelfilega martröð er að ræða.

Palli var einn í heiminum og það var fréttaritari Framsíðunnar líka þegar hann hélt upp í braggann stóra í Kórahverfi í kvöld. Skaldsveinninn og Rabbi staddir útí miðri laxveiðiá eða rallhálfir í veiðikofanum og Hnífsdalstrymbillinn staddur á Eyjunni grænu. Og það var engin leið 18 til að flytja Framara úr Hlíðahverfinu upp í efri byggðir.

Fréttaritarinn mætti samt tímanlega, enda kunningi fjölda góðra HK-manna. Kópavogsliðið er í harðri fallbaráttu á meðan Fram þurfti tilfinnanlega að stöðva blæðinguna eftir þrjá tapleiki í röð, hentug úrslit annars staðar hefðu hins vegar sett örlögin í okkar eigin hendur þrátt fyrir rýra uppskeru síðustu umferða.

Fram tefldi fram óbreyttu liði frá tapinu gegn KA. Óli í marki. Þorri, Brynjar og Kennie aftastir. Halli og Alex í bakvörðunum/á kantinum. Adan aftastur á miðjunni með Frey og Fred fyrir framan sig og Gummi og Mingi frammi. Varamannabekkurinn var svipaður og síðast, þar sem viðbúið var að þjálfarateymið reyndi að forðast skiptingar – í trausti þess að búið verði að lappa upp á meidda og laskaða eftir komandi landsleikjahlé.

Frá fyrstu mínútu var ljóst að heimamenn ætluðu fyrst og fremst að verjast til að hanga á stiginu og freista þess að komast í eins og eina og eina skyndisókn. Ekki heimskuleg taktík frá þeirra sjónarhorni og kallaði á að Framarar þyrftu að stýra leiknum, sem hentar okkur misvel.

SóknirFramarar komu á færibandi allan hálfleikinn. Alex og Halli áttu báðir föst skot hátt yfir markið á fyrstu tíu mínútunum, einkum var færi þess fyrrnefnda gott. Nokkur hálffæri litu dagsins ljós í framhaldinu. Kennie átti skalla yfir og Fred skot framhjá af löngu færi. Eftir 35. mínútna leik virtist markvörður HK ætla að færa okkur mark á silfurfati þar sem hann sendi boltan beint í tærnar á Minga, sem freistaði þess að leika á hann, en á síðustu stundu náði markmaðurinn að bæta fyrir mistökin. Magnús Ingi, Halli, Fred, Gummi og Kennie áttu svo allir skot eða skalla að marki áður en komið var fram í uppbótartíma – þá áttu Halli og Alex prýðilegt samspil kantana á milli, boltinn var lagður út á Kennie sem lét vaða af krafti, boltinn hrökk í hönd eins Bismarck-brjótsykurmolans (miðaldra-líkingamál) og vítaspyrna var dæmd. Fred fór á punktinn og tók stutt tilhlaup. Markvörðurinn varði auðveldlega, en í hléinu lá Valtýr Björn ekki á þeirri skoðun sinni að hann hefði verið löngu kominn af línunni. Sjáum til hvað sjónvarpsvélarnar sýna.

Markalaust í hléi. Yfirburðir Framara talsverðir en uggur í stuðningsmönnum yfir hversu hægt gengi að brjóta mótspyrnuna á bak aftur.

Kópavogsbúar komu örlítið skipulagðari til leiks í seinni hálfleik en þeim fyrri. Þeim tókst betur að verjast Fram-sóknunum, en engu að síður komu fyrstu færin í okkar hlut. Á sitthvorri mínútunni var Gummi fyrst hársbreidd frá því að ná skoti á HK-markið og beint í kjölfarið skallaði hann í hliðarnetið eftir fyrirgjöf frá Haraldi. Tveimur mínútum síðar kom framherjinni svo til bjargar hinu meginn á vellinum með því að skalla frá á marklínu eftir eina af fyrstu hættulegu sóknum HK í leiknum.

Lagalega skilgreiningin á gripdeild er sú að hún sé þjófnaður þar sem gerandinn gerir ekkert til að leyna verknaðinum. Það að hirða hlut á víðavangi telst t.d. gripdeild og er nokkuð annars eðlis en innbrot eða rán, þar sem slægð eða hótunum er beitt við stuldinn. Úrslitin í leiknum í Kórnum eru smkv. þessu lagamáli hvorki rán né þjófnaður, heldur gripdeild – þar sem Framarar létu stigin liggja eftirlitslaus og gerðu andstæðingunum auðvelt fyrir að hirða þau.

Þegar seinni hálfleikur var um það bil hálfnaður tók mjög að draga af mörgum leikmönnum Framliðsins. Freyr fékk hvíldina þegar kortér var eftir og Daniels kom inná í hans stað, en ekkert hefði veitt af fleiri frískum mönnum – þó óvíst sé hvort þeim hafi í raun verið til að dreifa á bekknum.

Glúrin útfærsla á aukaspyrnu, beint af æfingasvæðinu, var nærri búin að skilja Kennie einan eftir á auðum sjó, en HK-menn komust fyrir á síðustu stundu. Tveimur mínútum síðar reið áfallið yfir – og í raun ekkert sérstaklega óvænt. Heimamenn höfðu beðið þolinmóðir og eftir augnabliks einbeitingarleysi í vörn Fram náðu þeir skjótri sókn með góðri fyrirgjöf og flottum skalla í markhornið, 1:0 og allar vonir um baráttu í efri hluta Íslandsmótsins roknar út í veður og vint.

Þegar klukkan sýndi 88. mínútur kom seinni skiptingin. Unglingurinn Markús Páll leysti Minga af hólmi, en það var alltof seint til að ná að setja mark sitt á leikinn. Örvæntingarfullar lokamínútur gengu einkum út á kýlingar fram völlinn sem aldrei voru líklegar til að skila neinu. Gunnar Freyr Róbertsson – prýðilegur dómari leiksins sem mun hafa verið að þreyta frumraun sína í deildinni – flautaði til leiksloka og HK-menn stigu skiljanlega stríðsdans. Við vorum sjálfum okkur verstir og þurfum að hyska upp um okkur til að klára mótið með sæmd. Ljósið í myrkrinu hjá okkur Frömurum þessa daganna er kvennaliðið sem vann frábæran sigur um helgina og þarf bara að ná að vinna lokaleikinn á heimavelli næsta laugardag til að fara í Bestu deildina. Það lætur enginn sig vanta á þann leik, nema labbakúturinn Fréttaritarinn sem álpaðist til að kaupa sér flugmiða til útlandsins, þar sem er ekkert nema moskítóflugur og fæðuöryggi óverulegt. Ljótt er að heyra!

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!