Ó, hvað við höfum oft verið í þessari stöðu. Að vera í fallsæti að berjast fyrir lífi sínu á móti tiltölulega áhugalausum mótherjum, sem einhvern veginn vinna samt. Þeirra skot voru stöngin inn, okkar stöngin út. Þetta er saga jafngömul og sólin sjálf. Sólin sem settist svo fallega í kvöld í Dal draumanna. Appelsínugult sólarlagið var fáránlega táknrænt. Og aldrei þessu vant vorum það ekki við, heldur gestirnir, sem voru í hlutverki þolandans.
Við Framarar erum enn að sleikja sárin eftir að hafa endað í neðri hluta Íslandsmótsins og verið þannig svikin um að tapa enn eina ferðina ómaklega fyrir Víkingum. Sorgarferlið er djúpt, enginn knattspyrnuunnandi ætti að þurfa að fylgja liðinu sínu tvisvar sinnum í Kórinn á einu og sama tímabilinu. Það er líka ekki að miklu að keppa, þótt tæknilega séð sé bikar í boði fyrir sjöunda sætið. Næstu fjórar helgar þarf því að afplána leiki til að klára mótið sem flestir vilja nú þegar gleyma.
Fréttaritarinn tók leið 18 úr Hlíðunum og kættist þegar í ljós kom að frítt var í strætó í tilefni bíllausa dagsins. Í fínumannaboðinu á efstu hæð var boðið upp á hamborgara en minna fór fyrir formlegri liðskynningu, enda allir búnir að sjá byrjunarliðið á netinu. Freyr og Brynjar voru báðir utan hóps vegna veikinda. Óli kom aftur inn í markið. Þorri, Kennie og Adam voru í bakvörðunum. Halli og Alex í bakvörðum, Tiago aftastur á miðjunni með Fred og Minga fyrir framan sig. Gummi og Djenairo frammi.
Þegar líða fór að leiknum trítlaði fréttaritarinn niður í almenninginn í Bar-áttunni. Þar gat að líta KR- og Manchester City-goðsögnina Sigga Helga, sem mættur var sérstaklega til að styðja Framara í þeirri von að það gagnaðist Vesturbæingum í fallbaráttunni. Það hljóta að vera þung skref. Hnífsdalstrymbillinn var mættur með húðirnar og kjuðana, Biskupinn var kominn til að fá ábendingar um unaðsreiti til að heimsækja í heimsborginni Luton síðar á misserinu og skjaldsveinninn rak inn nefið rétt áður en flautað var til leiks. Þótt lítið væri undir og veðrið frekar suddalegt var mætingin með ágætum, munaði þar mikið um Árbæinga sem mættu í stórum stíl.
Framarar byrjuðu ívið betur fyrstu mínúturnar en sköpuðu sér þó lítið annað en hálffæri. Það voru hins vegar Fylkismenn sem fengu fyrstu háskalegu sóknina á tíundu mínútu þegar Óli sló frá aukaspyrnu, en boltinn hrökk beint á kollinn á einum appelsínugulum sem skallaði í stöngina. Tíu mínútum síðar nötraði stöng Fram-marksins aftur þegar einn Fylkismaðurinn lét vaða af löngu færi, en boltinn hrökk af innanverðri stönginni og skoppaði eftir marklínunni.
Öll vötn virtust falla til Dýrafjarðar. Gestirnir voru miklu betri og Framarar sköpuðu sér lítið sem ekkert. En enginn skyldi vanmeta hversu feigðarleg lið í botnsætum geta verið. Þegar fyrri hálfleikur var um það bil hálfnaður fékk Fred boltann á miðjum vallarhelmingi Fylkis, lék á 2-3 mótherja og lagði boltann svo út á kantinn þar sem Alex kom aðvífandi og lét vaða að marki. Knötturinn söng í innanverðri stönginni og þaðan í markinu, 1:0. Fram var komið yfir, þvert á gang leiksins og appelsínugular axlir sáust falla út um allan völl.
Framarar létu ekki kné fylgja kviði heldur drógu sig aftar á völlinn. Fylkismenn fengu hverja hornspyrnuna á fætur annarri, sem allar reyndust háskalegar og Framarar sönkuðu að sér gulum spjöldum, flest fremur tilgangslaus. Stuðningsmenn á pöllunum gátu varla beðið eftir að flautað yrði til hálfleiks svo færi gæfist á að endurskipuleggja liðið. En áður en til þess kom náðu okkar menn að tvöfalda forystuna, gjörsamlega upp úr engu. Þorri lúðraði boltanum framávið og Gummi nokkaði boltanum áfram á Minga sem virtist ekki í neinu færi, en allt í einu missti Fylkismaðurinn gjörsamlega af honum og markvörðurinn ákvað að hlaupa frá nærhorninu og bjóða upp á auðveldustu afgreiðslu í heimi, staðan orðin 2:0 og Fram varla búið að fá nema eitt færi í leiknum.
Það var hálffurðuleg stemning í fínumannaboðinu þar sem fréttaritarinn og skjaldsveinninn mættu til að bæta á Gullbaukastöðuna. Framliðið hafði sáralítið sýnt en var með góða forystu. Hvenær gerðist það síðast?
Við höfum ótal oft séð Framara henda frá sér forystu af þessu tagi, en núna erum við liðið hans Rúnars Kristinssonar og förum ekki í flottar sóknaræfingar í stöðu sem þessari, heldur drepum leikinn niður af bestu getu. Og það varð svo sannarlega raunin. Allan seinni hálfleikinn hægðum við á leiknum í hvert sinn sem færi gafst. Þau færi voru raunar mörg enda gestirnir afar duglegir við peysutog og hrindingar. Í hálftíma gerðist lítið annað en stöðubarátta á miðjunni. Fylkismenn héldu boltanum lengst af en ógnuðu lítið.
Óli þurfti fyrst að taka á honum stóra sínum með sjónvarpsvörslu þegar um kortér var eftir af leiknum og átta mínútum síðar áttu gestirnir skalla framhjá. Það var nánast ekkert að gerast og það var bara fínt. Ekki datt stjórnendateyminu í hug að gera breytingar á liðinu fyrr en komið var fram í uppbótartíma, þá fengur Sigfús og Orri fáeinar sekúndur til að sprikla í staðinn fyrir Tiago og Magnús Inga. Íhaldssemin í innáskiptingum heldur áfram að vekja undrun. Hefði ekki verið tilvalið að gefa mönnum af bekknum örlítið lengri tíma með tveggja marka forystu á heimavelli gegn lánlitlu botnliði.
Það var flautað til leiksloka og vallarþulurinn tilkynnti að Fred hefði verið valinn maður leiksins. Fréttaritarinn hefði sjálfur valið Kennie eða Djanairo, sem var líklega vinnusamasti maður vallarins. Ziggi-zaggi var samviskusamlega sunginn, en stemningin samt dálítið skrítin. Gæfuleysi Fylkismanna var svo algjört að það að vinna þá virkaði eins og hálfgert svindl. Ekkert getur bjargað Árbæingum frá falli, sem er samt dálítið skrítið því þetta er ekkert algalið fótboltalið og spilar um margt skemmtilegri bolta en hin liðin þarna niðri, en við höfum svo sem verið í nákvæmlega sömu sporum sjálf svo ótal oft áður. Næsti leikur er KR á útivelli, hvort sem það verður í Frostaskjóli eða í Laugardalnum. Vonandi verður sá sigur jafn ljótur og þessi.
Stefán Pálsson