Höfum eitt á hreinu áður en lengra er haldið: þessi leikskýrsla er ekki skrifuð fyrir stuðningsmenn Knattspyrnufélagsins Fram. Enginn sómakær Framari lætur sér detta í hug að smella á hlekkinn til að lesa um hrakfarirnar skelfilegu. Framarar eru heima í sófanum með sjónvarpið í gangi og gúffa í sig ís beint úr tveggjalítradallinum með stórri skeið til að gleyma því sem gerðist. Nei, þessi skýrsla er skrifuð fyrir hina. Fyrir hælbítana og hýenurnar – KR-ingana sem fengu ekki nóg af hamfarakláminu í Kaplaskjólsmýrinni í dag og mæta því á heimasíður annarra liða til þess að vinda örlítið meiri nautn út úr úrslitunum. Þessi pistill er einungis skrifaður til þess að slíkar sálir geti ekki hlakkað yfir að Fréttaritari Framsíðunnar hafi látið pennann niður falla – en verum líka algjörlega með það á hreinu, að ef þú ert ennþá að lesa þennan pistil, þá segir það líklega mest um þitt eigið innræti.
Fréttaritarinn tók daginn snemma, enda með sögugöngu í miðbænum fyrir hádegið. Hún var búin laust fyrir klukkan eitt og þá fátt annað að gera en að koma sér vestur eftir, í trausti þess að KR-ingar séu höfðingjar heim að sækja. Þrátt fyrir að hafa beinlínis búið í Frostaskjóli í nærri tuttugu ár flögraði sú geðveikislega hugmynd að Fréttaritaranum að skilja peysuna eftir heima. Blessunarlega gerði hann það ekki, enda hefði það þýtt bráðan bana í gjólunni sem einkennir þessa túndru sem kölluð er Meistaravellir eftir koti sem stóð uppi við gömlu Hringbraut fyrir hundrað árum.
Í KR-heimilinu var Fréttaritaranum tekið með kostum og kynjum, enda þekkir hann annan hvern mann þarna. Það var afar fámennt á vellinum en mikill mannauður, KR-ingar eru prýðisfólk og það verður ekki tekið af þeim að þeir hafa alltaf ákveðinn klassa. Útprentuð blöð lágu á borðum og leiddu í ljós, sem mátti raunar vera ljóst miðað við leikbönn og meiðsli, að Framarar tefldu fram hálf-vængbrotnu liði.
Óli stóð í markinu. Öftustu varnarlínu skipuðu Adam, Brynjar og Kennie. Halli og Sigfús Árni í bakvörðum. Tiago aftastur á miðjunni með Frey og Fred hvorn til sinnar handar (mikið lágvaxnari verður miðjulína varla) og Mingi og Daniels frammi. Bekkurinn var þunnskipaður sömuleiðis. Þetta gæti orðið þungur róður.
Skjaldsveinninn mætti með nágranna sínum, KR-ingi, sem ákvað þó að sitja með okkur gestamegin í stúkunni. Það var úr nægum sætum að velja. Hallgrímur Skúlabróðir sat vinstramegin við hópinn og Palli Vals eftir hlé, í röðinni fyrir framan var mamma Guðjónssona og foreldrar Freys okkar frá Hornafirði, sem eru hér með orðin nýju uppáhaldsfótboltaforeldrar Fréttaritarans.
Fyrir leik drundi í hljóðkerfinu „Heyr mína bæn“, sem mun vera einkennis- og inngöngulag KR-inga. Frumlegt val miðað við boðskap textans, en virkaði bara fjári vel. Ef KR kemst upp með að spila ballöðu með Ellý Vilhjálms fyrir hvern leik þá eiga Framarar auðveldlega að geta púllað uppástungu Fréttaritarans um að byrja hvern leik á „Seinna meir“ með Pétri Kristjáns og Start-flokknum. Látum það gerast 2025!
En hvað með leikinn, Stefán? Kynni einhver nú að spyrja. Já, leikurinn sökkaði. Og það mjög rækilega frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Útsölurnar sem Framvörnin bauð uppá á sjöundu og tólftu mínútu voru slíkar að þær munu væntanlega telja til lækkunar vísitölunnar við næstu verðbólguútreikninga. Staðan orðin 2:0 eftir minna en kortér og bæði mörkin skoruð af sama manni. (Til að útskýra reglurnar fyrir aðkomulesendur, þá eru leikmenn andstæðinganna aldrei eða nánast aldrei nafngreindir í þessum pistlum, ekki taka þetta sérstaklega til ykkar – þetta er fótboltarýni sem hatar alla jafnt.)
Þrátt fyrir afleita byrjun reyndu Framarar eitthvað að klóra í bakkann og eftir um tuttugu mínútna leik komu tvö hálffæri með skömmu millibili. Fred átti langskot sem KR-markvörðurinn átti í smávandræðum með og skömmu síðar átti Halli góða aukaspyrnu inn í teig þar sem vörn Vesturbæinga skildi Minga eftir óvaldaðan, en honum tókst ekki að koma boltanum almennilega fyrir sig eða ná skoti. Eftir hálftímaleik komst Kennie í prýðilegt færi eftir hornspyrnu, en þar með var okkar framlagi nálega lokið, KR bætti við þriðja markinu á 31. mínútu og því fjórða á 42. mínútu, eftir að hafa komist í tvö ágæt færi í millitíðinni. 4:0 og þung skref inn á KR-barinn í hléi.
Orri og Tryggvi komu inná í byrjun seinni hálfleiks fyrir Brynjar og Frey. Báðir komu prýðilega ferskir inn og Tryggvi kom sér í hörkufæri strax eftir tveggja mínútna leik en skaut naumlega framhjá. Vondur dagur súrnaði enn frekar þegar heimamenn skoruðu fimmta markið skömmu síðar. Uppgjöfin var algjör.
Mingi fór af velli fyrir ungstirnið Markús Pál eftir tæpan klukkutíma og skömmu síðar kom Dahl hinn danski inná fyrir Tiago. Um tíma virtist landið aðeins ætla að rísa. Fred átti 2-3 atlögur að marki og Dahl, sem var mun frískari en í fyrri mínútum sínum, átti fallega sendingu á Markús sem skaut framhjá. Daniels kom boltanum á Tryggva sem þrumaði yfir úr prýðilegu færi. Ekkert virtist ætla að ganga upp.
Glætan í svartnættinu kom á 85. mínútu þegar Markús skoraði sitt fyrsta úrvalsdeildarmark eftir snoturt spil. Þetta varð illu heilli aðeins til þess að ýta við heimamönum sem refsuðu með tveimur mörkum beint í kjölfarið, staðan orðin 7:1 og til að bíta höfuðið af skömminni nældi Orri sér í annað gult spjald sem uppbótartíminn var langt liðinn. Hlynur Örn Andrason, sem kom inná fyrir Daniels í blálokin (fyrsti meistaraflokksleikur) átti ágæta marktilraun á lokasekúndunum en skot hans var því miður glæsilega varið.
Þetta var algjörlega glatað. Eini kosturinn er að tölfræðin segir okkur að svona lélegir leikir koma varla nema á 10 ára fresti, svo við ættum að vera laus við viðlíka niðurlægingu fyrr en 2034.
Stefán Pálsson