fbpx
JGK_Íslandsmeistarar 2025

Tvöfaldir

Fyrsta byggingarreglugerðin var sett í Reykjavík árið 1903. Hún fól í sér mikilvæg tilmæli til framkvæmdaraðila um frágang húsa og annarra mannvirkja. Þökk sé öflugum byggingarstöðlum hefur almenningur á Íslandi mátt treysta því í öllum meginatriðum að byggingar hrynji ekki til grunna fyrirvaralaust. Það var mikil huggun á áhorfendapöllunum í Valshöllinni í kvöld þegar mörghundruð Framarar hoppuðu upp og niður í sífellu svo gólffjalirnar dúuðu. Það er sterkt í þessu.

Fréttaritari Framsíðunnar hefur áður afhjúpað hið skringilega samband sitt við þjóðaríþróttina. Hann er í grunninn fótboltakall en horfir samt á næstum helming handboltaleikja karla- og kvennaliða Fram yfir veturinn og nær alla úrslitakeppnisleiki – en yfirleitt þó í sjónvarpi eða á netstraumum. Að mæta í eigin persónu er fágætari viðburður og fréttaritarinn finnur alltaf um leið til smæðar sinnar og fákunnáttu.

Eins og fram hefur komið býr fréttaritarinn í miðju Hlíðahverfi – svo nærri Valsheimilinu að í hvert sinn sem íþróttahúsið er leigt út fyrir árshátíðir eða tónleika getur hann talið bassataktinn í svefnherbergi sínu. Það var því borðleggjandi að stefna skjaldsveininum heim í eldhúspartý áður en rölt væri á leikinn. Rabbi og yngri sonurinn voru búnir að staðfesta komu sína við þriðja mann. Þeir lofuðu að taka frá sæti í stúkunni á meðan fréttaritari og skjaldsveinn ákváðu að kynna sér greiðasölu heimamanna. Þar var boðið upp á læt-bjór af dælu þar til hún gaf upp öndina og hamborgara sem voru sannast sagna ekkert sérstaklega góðir. Mögulega skekkir það þó matið að geta reglulega gengið að Michelinstjörnuborgurum í Úlfarsárdalnum. Í ölröðinni mátti sjá ástsæla listamenn úr röðum Framara: Einar Kárason og Friðrik Þór Friðriksson. Daði úr Úlfunum var sömuleiðis peppaður fyrir leiknum. Hann viðurkenndi að kunna ekkert í nútímahandboltareglum þrátt fyrir að hafa æft harpixglímu öll sín unglingsár.

Svo leið að því að leikurinn hæfist og félagarnir leituðu uppi Rabba og föruneyti. Í ljós kom að þeir höfðu fundið sér stað beint fyrir aftan markið. Fréttaritarinn hefur aldrei áður á ævinni horft á handboltaleik beint fyrir aftan markið. Stemningin var mögnuð og vekur upp áleitnar spurningar fyrir HSÍ. Sú mest knýjandi hlýtur að vera: getur það virkilega talist eðlilegt í úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitil að annað liðið – Framarar – fái að spila alla þrjá leikina á heimavelli? Jújú, nú kynnu einhverjir að benda á þá staðreynd að tveir af þessum þremur leikjum hafi farið fram að Hlíðarenda – en það breytir ekki þeirri staðreynd að leikurinn í kvöld, líkt og sá fyrsti í einvíginu, var hreinræktaður heimaleikur með mikinn meirihluta Framara á pöllunum og megnið af umhverfishljóðunum úr 113-börkum.

Leikur bikarmeistara ársins 2025 og meintra bikarmeistara ársins 1998 hófst og það var öskrað og sungið frá fyrstu mínútu. Fréttaritarinn hefur aldrei áður staðið í 60 mínútur á handboltaleik og hróar og klappað stanslaust. Það mætti venjast þessu.

Í anda sannra úrslitaviðureigna var leikurinn í járnum og frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu munaði mest tveimur mörkum. Framarar nánast allan tímann aðeins á undan – oftast með eins marks forystu en heimamenn komust í fáeins skipti markinu yfir. Varnarleikur Vals gekk nær alfarið út á að halda niðri Reyni Þór sem hefur verið stórkostlegur í einvíginu. Stórleikur Íþróttamanns Fram ársins 2008 í Valsmarkinu hélt heimamönnum inni í leiknum og kom í veg fyrir auðveldan sigur okkar manna.

Fram náði tveggja marka forystu undir blálok fyrri hálfleiks og stemningin var því góð í bláa liðinu þegar gengið var til veislusala í hléi. Biðröðin var kílómetra löng en skjaldsveinninn gat vélað gamlan unglingavinnuverkstjóra fréttaritarans og fótboltagarp úr KR til að kaupa bauka til að brynna þyrstum. Einu sjáanlegu sveitarstjórnarpólitíkusarnir í húsinu voru framsóknardúettinn Magnea Gná og Einar fyrrum borgarstjóri. Þau voru sammála fulltrúa meirihlutans um að stemningin og stuðið væri allt Frammegin.

Seinni hálfleikur byrjaði og allt var við það sama. Valur jafnaði metin nokkrum sinnum, en Framarar skoruðu yfirleitt 1-2 mörk um hæl. Heimamenn komust í 20:19 og afut 21:20 þegar fimmtán mínútur voru eftir – en lengra komust þeir ekki. Eftir það var staðan ýmist jöfn eða Fram með 1-2 marka forystu. Valur jafnaði metin þegar hálf mínúta var eftir en Framarar fóru upp í langa sókn og Þorsteinn Gauti skoraði 27:28 þegar tíminn var nánast runninn út. Framarar á pöllunum (sem merkilegt nokk stóðu af sér brussuganginn) fögnuðu tryllingslega – í ljós kom að Valsþjálfarinn hafði náð að taka leikhlé svo fagnaðarlátum var tímabundið slegið á frest en þegar leikur hófst aftur voru bara tvær sekúndur á klukkunni. Það dugði rauðklæddum engan veginn og sigurinn var okkar. Ó, hvað við sungum og dönsuðum.

Þegar fréttaritari Framsíðunnar skrifaði hundrað ára afmælissögu Fram valdi hann mynd af Einari Jónssyni sem frekar álappalegum og bólugröfum unglingi. Það var ekki gert af illum hug, heldur til þess að koma inn í bókina myndum úr ungmennastarfi handboltadeildar Fram. Fréttaritarinn hefur samt alltaf haft smá móral yfir þessu. Einar Jónsson hefur reynst einn öflugasti handboltaþjálfari sinnar kynslóðar. Hann hefur nú tvisvar gert karlalið Fram að Íslandsmeisturum í handbolta með tólf ára millibili. Báðir titlarnir að einhverju leyti óvæntir en í báðum tilvikum unnir með samheldnum hópi, staðráðnum í að slá við sigurstranglegri andstæðingum með stjórstjörnur innanborðs. Það er eitthvað fallegt við að sjá unglingasveitina úr Grafarholti með Rúnar Kára og Þorstein Gauta sem fulltrúa ellinnar og vísdómsins koma öllum spámönnum á óvart.
Fram er tvöfaldur meistari og fer í gegnum úrslitakeppnina með aðeins einum tapleik. Það er fullkomlega sturlað!

Til hamingju við!

Stefán Pálsson

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!