fbpx
FRAM -FH kvenna

Átta sekúndur

Seinna, þegar barnabörnin spyrja: „Afi fréttaritari Framsíðunnar, hvar varst þú þegar þú sást átta sekúndu reglunni um hornspyrnu þegar markvörður er of lengi að koma boltanum frá sér, fyrst beitt?“ Þá mun ég geta svarað: „Í Dal draumanna þar sem Framkonur tóku á móti toppliði Þróttar! Undir lok leiksins var Þróttarmarkvörðurinn að gaufa og skeleggur dómarinn dæmdi horn!“ – „Frábært“, munu ormarnir segja – og bæta við: „en var eitthvað annað minnisstætt eða markvert við þennan leik?“ – Og þá mun ég svara: „Nei, ekkert.“

Fréttaritarinn ók í Úlfarsárdalinn og var seinn. Hafði hitt bandarískan stúdent á kaffihúsi og þulið yfir honum fyrirlestur um þróun íslenska orkukerfisins á tuttugustu öld með sérstöku tilliti til þjóðernislegra hugmynda og áhrifa valkosta í orkukerfum á þróun lýðræðis. Það tók örlítið lengri tíma en ætlað var og klukkan var 18:01 þegar rennt var í hlað við Salatskálina. Það tekur um það bil 120 sekúndur að hlaupa frá bílastæðinu að inngangnum, munda Stubbinn og ganga frá greiðslu. Vallarklukkan sýndi því 3:35 þegar komið var inn á völlinn. Klukkan 3:50 lá boltinn í marki Fram, 0:1.

Þróttarar höfðu byrjað leikinn af krafti og legið í sókn frá fyrstu mínútu. Markið var slysalegt. Elaina, sem annars hefur varla slegið feilpúst í sumar varði ágætlega skot frá aðvífandi Þróttara, en sló hann ekki betur frá sér en svo að boltinn lenti beint fyrir framan fæturnar á aðvífandi sóknarmanni sem skoraði auðveldlega.

Eftir þetta snemmbæra áfall gafst tími til að átta sig á aðstæðum. Garðar uppgjafasendiráðsbílstjóri var mættur í nýrri Framtreyju – eftir að hafa gefið sína í þarsíðasta leik. Fréttaritarinn ákvað þó að setjast einn og reyna að átta sig á liðsuppstillingu með hjálp símans og eigin augna.

Elaina var í markinu. Telma og Olga í miðvörðum. Dom og Kam í bakvörðum. Katrín Elfa aftast á miðjunni með Mackenzie og Lily fyrir framan sig. Una Rós og Sara Svanhildur hvor á sínum kantinum og Murielle ein uppi á toppi. Og ofboðslega ein, eins og koma átti eftir í ljós.

Einstefna Þróttar hélt áfram eftir markið. Lið þeirra skapaði sér fá dauðafæri og eyddi furðumikilli orku í að kveinka sér undan meintu harðræði Framara. Hins vegar þurfti Framvörnin stöðugt að vera á tánum og þau fáu skipti sem við reyndum að fikra okkur framar á völlinn fjöruðu sóknirnar hratt út. Sara átti þó hörkuskalla að marki eftir glæsilega hornspyrnu Unu eftir um kortérs leik.

Þegar fyrri hálfleikur var nákvæmlega hálfnaður tvöfölduðu gestirnir forystuna. Þróttur fékk horn og Framkonur skildu leikmann þeirra eftir óvaldaðan sem skallaði auðveldlega inn. Erfiður bolti og Elaina ekki nálægt því að hafa hendur á honum, 0:2.

Gestirnir voru afar sáttir við forskotið og tóku fótinn aðeins af bensíngjöfinni. Það sem eftir leið af fyrri hálfleik bar fátt markvert til tíðinda ef frá er talið að Dom fór útaf meidd eftir tæpan hálftíma en Hildur María leysti hana af hólmi.

Í hléi trítlaði Fréttaritarinn upp í Bar-8una sem enn var í fínumannastúkunni frá kvöldinu áður. Þar voru Elín, Svanhít, Gummarnir tveir – Torfa og Magg – auk minni spámanna. Umræður voru spaklegar og sjónvarpsútsending frá hinum kvennaleik kvöldsins í boði svo Fréttaritarinn ákvað að ílengjast og horfa á seinni hálfleik inni í hlýjunni.

Seinni hálfleikurinn byrjaði á sömu nótum og sá fyrri endaði. Þróttarar voru ívið sterkari en ógnuðu þó ekki af ráði. Ólína Ágústa kom inná fyrir Katrínu Erlu eftir um tíu mínútna leik. Um þetta leyti var Framlíðið að færa sig framar á völlinn og ógnaði með nokkrum hálffærum sem skiluðu sér þó ekki í marki.

Elaina, sem átti furðuslakan leik sem fyrr segir, átti afleita sendingu á Kam þegar um tíu mínútur voru eftir og upp úr því skoruðu Þróttarar þriðja markið, nokkuð gegn gangi leiksins. Úrslitin voru ráðin en Framstúlkum til hróss héldu þær áfram að sækja og á 87. mínútu kom löng sending frá Elainu upp allan völlinn á Söru Svanhildi sem snögglega var komin ein í gegn og afgreiddi boltann glæsilega í netið, 1:3. Þær mínútur sem eftir lifðu komst Fram í fáein hálffæri og eins gaman og það hefði verið að pota inn öðru marki leit það ekki dagsins ljós, annar 3:1-ósigurinn á sterku Þróttarliði staðreynd. Fréttaritarinn – sonur Þróttara – hefði vissulega gaman af að geta haldið með Þrótti í toppbaráttunni í sumar, en því miður þekkir hann aðeins of marga Þróttara til þess. Fram fer hins vegar með höfuðið hátt inn í langt landsleikjahlé með fimm sigra og fimm töp. Jafntefli sökka – um það getum við öll verið sammála.

Hittumst í Kópavogsdal á mánudagskvöld.

Stefán Pálsson

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!