fbpx
Almarr2

Stig á Hlíðarenda | FRAMarar enn taplausir

Almarr2FRAM og Valur skildu jöfn, 1-1, í þriðju umferð Pepsideildar karla í knattspyrnu á Vodafonevellinum að Hlíðarenda í kvöld.  Hólmbert Friðjónsson kom FRAM yfir í fyrri hálfleik, Valsmenn jöfnuðu metin með sjálfsmarki Bjarna Hólm á upphafsmínútum síðari hálfleiks og eftir að vítaspyrna heimamanna fór í súginn seint í leiknum hljóta úrslitin að teljast ásættanleg.

Valur 1-1 FRAM (0-1)
0-1  Hólmbert Aron Friðjónsson 36.mín.
1-1  Bjarni Hólm Aðalsteinsson (sjm.) 47.mín.

Eftir nokkuð jafnar upphafsmínútur náðu FRAMarar undirtökunum í leiknum og voru mun líklegri til afreka í fyrri hálfleik.  Vörnin var traust, ágæt vinnsla á miðjunni þar sem Hólmbert Aron og Kristinn Ingi tóku sæti í byrjunarliðinu í stað Viktors Bjarka og Hauks og gestirnir úr Safamýri réðu ferðinni.  Ólafur Örn komst einna næst því að skora fyrsta markið þegar Magnús Már Lúðvíksson varði skalla hans á marklínunni.  Hólmbert skoraði gott mark á 36.mínútu þegar Steven Lennon nýtti sér mistök Matarr Jobe, skeiðaði inn á teig og renndi boltanum á Hólmbert í galopnu færi.
Staðan í hálfleik var 1-0 fyrir FRAM, en Valsmenn mættu tvíefldir til leiks í síðari hálfleik.  Haukur Páll Sigurðsson jafnaði metin eftir rúmlega mínútu leik, renndi sér á sendingu James Hurst eftir að Valsmenn höfðu galopnað vörn FRAM, sem annars gaf fá færi á sér.  Valsmenn voru miklu grimmari í návígjum, nýttu sér breidd vallarins og voru duglegir að finna opin svæði, miklu líklegri til að bæta við mörkum heldur en FRAMarar.  Takturinn datt svolítið úr FRAMliðinu í síðari hálfleik, sendingar rötuðu sjaldnast á samherja og leikmönnum gekk bölvanlega að hemja boltann.  Miðjumennirnir duttu býsna langt tilbaka og skildu þá eftir galopin svæði.  Valsmenn fengu gullið tækifæri til að ná forystunni þegar dæmd var vítaspyrna átta mínútum fyrir leikslok, varamaðurinn Viktor Bjarki virtist handleika knöttinn innan vítateigs eftir mikinn darraðardans.  Kristinn Freyr Sigurðsson tók spyrnuna, þrumaði í stöng og út og léttir FRAmarar talsverður.  Eftir mikið jaml, japl og fuður sættust liðin á skiptan hlut, 1-1, og eru bæði taplaus af afloknum þremur umferðum í deildinni.

Leikskýrslan.

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email