FramKR

Skagaheimsóknin skilaði fyrsta tapi sumarsins

FramKRFRAM mátti sætta sig við tap gegn ÍA, 0-2, í fjórðu umferð Pepsideildar karla í knattspyrnu á Akranesi í kvöld, en þetta er hvort tveggja í senn; fyrsta tap FRAM í deildinni og fyrsti sigur Skagamanna.  Mörk Skagaliðsins komu sitt hvoru megin við hálfleikinn, en deila má um það þar til kýrnar koma heim hvort úrslitin í leiknum hafi verið sanngjörn.

ÍA 2-0 FRAM (1-0)
1-0  Joakim Wrele 45.mín.
2-0  Hallur Flosason 49.mín.

Framan af leiknum á Skaganum í kvöld, og reyndar meginpart fyrri hálfleiksins, voru FRAMarar í bílstjórasætinu, stýrðu umferðinni og áttu þau marktækifæri sem í boði voru.  Aðstæður voru um margt áhugaverðar, strekkingsvindur gerði leikmönnum beggja liða erfitt fyrir og reyndar var rannsóknarefni hvað menn virtust áfjáðir í að spara grasið.  FRAMarar fengu nokkur ágæt marktækifæri í fyrri hálfleik, en var gjörsamlega fyrirmunað að koma boltanum í netið.  Það tókst Skagamönnum hins vegar andartökum áður en fyrri hálfleikurinn var allur þegar Joakim Wrele stýrði fyrirgjöf Andra Adolphssonar í netið.  Þetta var önnur af tveimur marktilraunum heimamanna í fyrri hálfleik, gegn gangi leiksins, en að því er ekki spurt.
Skagamenn bættu við marki strax í upphafi síðari hálfleiks þegar Hallur Flosason skoraði eftir vandræðagang í vörn FRAM og þar með var handritið nánast fullklárað.  Heimamenn settust tilbaka, vörðust af miklum móð og þurftu sannast sagna ekki að hafa stórar áhyggjur af sóknarbylgjum þeirra bláu.  FRAMara vantaði að brjóta leikinn upp, þeir léku á helstu styrkleika varnarmanna ÍA í stað þess að nýta veikari hliðar þeirra.  Á því verður vinna bragabót sem allra fyrst.

Leikskýrslan.

Pepsideild karla.

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email