Sannkallaður stórleikur er á dagskrá Borgunarbikarkeppni karla í knattspyrnu þegar FRAM heimsækir granna sína og forna fjendur í Val í kvöld. Flautað verður til leiks á Vodafonevellinum að Hlíðarenda klukkan 20.
Þetta er í fimmtánda sinn sem þessir góðu grannar bætast í bikarkeppni KSÍ. FRAM stendur vel að vígi í sögulegu samhengi; Safamýrarliðið hefur fagnað sigri í níu af bikarleikjunum fjórtan sem að baki eru, Valur hefur unnið fjórum sinnum og einu sinni hafa liðin gert jafntefli. Það var í fyrstu bikarviðureigninni í október 1960, 3-3. FRAM vann leik liðanna viku síðar 3-0 og fylgdi sigrinum eftir með því að vinna þrjá næstu bikarleiki sína gegn Val, 1961, 1962 og 1964. Þá komu þrír Valssigrar í röð, 1965, 1976 og 1977. FRAM vann næstu fjóra leiki, 1979, 1980, 1994 og 2001 og liðin hafa skipt sigrunum á milli sín í tveimur síðustu viðureignunum. Húsvíkingurin Baldur Aðalsteinsson skoraði eina markið í leik liðanna árið 2005 og þegar liðin mættust í júlí 2010 fögnuðu FRAMarar sigri, 3-1. Halldór Hemann Jónsson, Tómas Leifsson og Joe Tillen skoruðu mörk FRAM, en Rúnar Már Sigurjónsson minnkaði muninn fyrir Val.
Sex fyrstu bikarleikir FRAM og Vals fóru fram á Melavelli. FRAM vann fjóra þessara leikja, Valur vann einn og einu sinni gerðu liðin jafntefli. Fjórir þeir næstu fóru fram á Laugardalvelli, Valur vann tvo þá fyrri og FRAM tvo þá síðari. Þá komu tveir leikir í röð að Hlíðarenda og FRAM vann þá báða; 5-2 árið 1994 þar sem Ríkharður Daðason skoraði tvö marka FRAM og hin mörkin skoruðu Hólmsteinn Jónasson, Kristinn Hafliðason og Helgi nokkur Sigurðsson, sem enn er í fullu fjöri. Eiður Smári Guðjohnsen skoraði bæði mörk Vals. FRAM vann að Hlíðarenda 3-2 árið 2001 og þar skoraði Þorbjörn Atli Sveinsson tvö mörk fyrir FRAM og Andri Fannar Ottóson þriðja markið. Jón Gunnar Gunnarsson og Sigurður Sæberg Þorsteinsson skoruðu mörk Valsmanna.
Tveir síðustu bikarleikir FRAM og Vals hafa farið fram á Laugardalvelli, Valur vann fyrri leikinn og FRAM þann síðari eins og áður er getið.
Þetta er því í þriðja sinn í fimmtán bikarviðureignum þessara liða sem þau mætast að Hlíðarenda og þangað hafa FRAMarar sótt tvo sigra. Stefnan er sett á að bæta þeim þriðja í sarpinn í kvöld.
MÆTUM OG STYÐJUM STRÁKANA OKKAR TIL SIGURS. ÁRAM FRAM!