FRAM tryggði sér í kvöld sæti í 16-liða úrslitum Borgunarbikarkeppni karla í knattspyrnu með afar sætum og sannfærandi sigri gegn Val að Hlíðarenda, 2-1. Almarr Ormarsson skoraði fyrra mark FRAM og Hólmbert Aron Friðjónsson það síðara, en í millitíðinni jafnaði Rúnar Már Sigurjónsson metin fyrir Val með marki úr vítaspyrnu.
Valur 1-2 Fram (0-1)
0-1 Almarr Ormarsson 29.mín.
1-1 Rúnar Már Sigurjónsson 49 mín. (vsp.)
1-2 Hólmbert Aron Friðjónsson 76.mín.
FRAMarar sýndu það strax á upphafsmínútum leiksins í kvöld að þeir voru mættir á Vodafonevöllinn til að sækja sigur, þriðja bikarsigurinn í jafnmörgum tilraunum á þessum slóðum. Bláir voru áræðnir og líflegir, Valsmenn lágu talsvert tilbaka og sýndu þolanleg tilþrif þegar þeir stungu fram á Björgólf Takefusa í fremstu víglínu, en fátt í leik þeirra virtist koma Safamýrarpiltum á óvart. Markið lá í loftinu og það kom eftir tæplega hálftíma leik. Sam Hewson átti frábæra stungusendingu fram á Steven Lennon hægra megin, Lennon var fljótur að átta sig á því að Almarr Ormarsson var á góðri leið með að setja persónulegt hraðamet á leið sinni í átt að vítateignum og kom boltanum á hann í einum grænum. Almarr lagði boltann fyrir sig, virtist þrengja færið sitt talsvert, en skoraði með hnitmiðuðu skoti. Forystan var verðskulduð, en Valsmenn sóttu í sig veðrið þegar dró að lokum fyrri hálfleiks, án þess þó að skapa sér umtalsverð færi. Besta færi þeirra í fyrri hálfleik átti Björgólfur, en Ögmundur varði skot hans úr þröngu færi af stakri prýði.
Ekki þurfti að bíða lengi eftir fjörinu í síðari hálfleik. Eftir rúmlega þriggja mínútna leik dæmdi Kristinn Jakobsson vítaspyrnu á FRAM og erfitt var að sjá eða meta réttmæti þeirrar niðurstöðu hans. Rúnar Már Sigurjónsson tók spyrnuna og skoraði af öryggi, 1-1. FRAMarar héldu áfram ágætum leik sínum og virtust mun líklegri til að skora, en Valsmenn komust þó býsna nærri því að ná forystunni þegar Rúnar Már tók aukaspyrnu rétt fyrir utan teig. Ögmundur sýndi stórbrotin tilþrif þegar hann sló boltann aftur fyrir endamörk og aðeins fjórum mínútum síðar kom markið sem réði úrslitum. FRAMarar héldu pressu eftir að Valsmenn höfðu hreinsað frá í kjölfar hornspyrnu, Viktor kom boltanum út á Hewson hægra megin og sending hans inn á teiginn hitti á kollinn á Hólmbert sem skoraði með glæsilegum skalla. Gott og dýrmætt mark. Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Valsmanna, fékk að líta gula spjaldið fyrir harla litlar sakir að því er virtist níu mínútum fyrir leiklok, hann hafði fengið áminningu í fyrri hálfleik og fékk því að líta rauða spjaldið. Valsarar gerðu sig í raun ekki líklega til að jafna metin og sanngjörnum og sætum sigri var fagnað af innlifun.
FRAMarar léku ljómandi vel í kvöld, svo sem ekki í fyrsta sinn á þessari leiktíð, en að þessu skilaði ágætur leikur þó sigri. Ögmundur var frábær í markinu, varnarlínan traust og miðju- og sóknarmennirnir sívinnandi og skapandi. Liðsheildin var sterk og lofar góðu fyrir framhaldið.