Ögmundur Kristinsson markvörður Fram gerði um miðjan júlí eins árs samning við úrvalsdeildarlið Randers í Danmörku. Ögmundur, sem er uppalinn í Fram, varð aðalmarkvörður félagsins sumarið 2011 og lék hann alla leiki félagsins í deild og bikar næstu þrjú tímabil. Hann lék 12 leiki í sumar í deild og bikar áður en hann sagði skilið við félagið nú í júlí. Þá lék Ögmundur sinn fyrsta leik með A-landsliði Íslands í sumar. Hann á einnig leiki með U19 og U21 liðum Íslands. Hann lék alls 156 leiki með meistaraflokki Fram, þar af var hann fyrirliði liðsins 2013 og 2014.
Knattspyrnufélagið Fram þakkar Ögmundi Kristinssyni samfylgdina undanfarin ár og óskar honum alls hins besta á nýjum vettvangi.