Strákarnir okkar í mfl. ka. léku í kvöld við HK í Digranesi.
Við höfum ekki riðið feitum hesti frá fyrri viðureignum okkar í Digranesinu og því ljóst að við þyrftum að eiga góðan leik til að ná í sigur.
Það var því miður ekki reyndin í kvöld. Við lékum okkar versta leik í langan tíma bæði í vörn, sókn og ekki var markvarslan að bjarga okkur enda svo sem ekki hægt að ætlast til þess.
Leikur liðsins í kvöld var okkur sem höfum fylgst með liðinu vaxa undanfarin ár mikil vonbrigði. Það vantar allan kraft í leikmenn, baráttu, gleði og vilja,ekki bætti svo úr þegar að menn eru farnir að hengja haus um miðjan leik. Frammistaða liðsins í kvöld eru því mikil vonbrigði og algjörlega óásættanleg.
Fyrri hálfleikur var slakur, vörnin afleit og hreinlega óþolandi að horfa á svona vinnu í vörn þar sem leikmenn gera sig seka um sömu misstökin aftur og aftur. Sóknin gekk kannski þolanlega á nokkur köflum og hreint ótrúlegt að við skildum vera yfir í hálfleik 13 -14.
Hafi fyrri hálfleikur verið lítið fyrir augað þá var sá síðari hrein skelfing af okkar hálfu. Við náðum að skora 3 mörk fyrstu 16 mín leiksins ásamt því að varnarleikurinn gekk jafn illa og í fyrri hálfleik. Þessi blanda veit ekki á gott og því fór sem fór. Liðið var hreinlega tekið í kennslustund og lokatölur 31 – 22. Það sem var þó jákvætt var innkoma Luðvíks á miðjuna en hann kom með smá hreyfingu og líf í sóknarleik FRAM ásamt því að spila vel á Arnar Frey á línuna. Þeir tveir voru eina glætan í kvöld.
Það sem er áhyggjuefni núna er hvað við erum að missa marga leikmenn í meiðsl. Ólafur Ægir meiddist snemma í leiknum í kvöld og Arnar Freyr línumaður meiddist svo alveg í lokin. Fyrir eru Stefán Darri, Elías og Arnar Snær allir frá vegna meiðsla.
Við vonum auðvitað að allir þessir drengir geti leikið eitthvað af þeim leikjum sem framundan eru en ég lýsi eftir því að þeir sem eru leikfærir gefi allt sem þeir eiga í leikina og berjist fyrir þeim stigum sem í boði eru. Annað er óásættanlegt. Næsti leikur er á laugardag í FRAMhúsi kl. 15:00 við Akureyri. Sjáumst þá.
ÁFRAM FRAM