fbpx
Þr - FRAM vefur

Nýr hringur

Lokaumferðir eru skrítnar. Stundum eru þær dramatísk upplifun, þegar liðið manns berst fyrir lífi sínu í fallbaráttu eða á möguleika á titlum eða sætum í Evrópukeppni. Slíkir leikir geta kallað á andvökunætur og margra daga kvíðahnút þar sem nákvæm stigatafla og markatala greipist í kollinn á hverjum stuðningsmanni. Miklu oftar eru lokaleikir þó lausir við alla spennu – tilgangslítill lokapunktur líkt og þrettándinn í lok jólanna.

Einhvern veginn virðast þessir óþörfu lokaleikir alltaf eiga sér stað í rigningu og haustnepju. Íslandsmótinu lýkur einhvern veginn alltaf í hryssingslegu veðri þar sem maður mætir af skyldurækni, til þess eins að setja lokapunkt. Oftar en ekki verða þessir leikir skringilegir, þar sem annað liðið eða bæði skortir einbeitingu til að klára verkefnið, einkum þegar kemur að varnarleiknum. Þannig koma oft allnokkur mörk í þessari gerð leikja. Og að sönnu vantaði ekki mörkin í dag. Þau komu hins vegar öll vitlausu megin.

Hlynur Örn stóð í markinu hjá Fram í dag og kláraði leikinn þrátt fyrir að meiðast um miðjan fyrri hálfleik. Dino og Högni voru miðverðir, með Benedikt Októ og Orra í bakvarðarstöðunum. Sigurpáll og Hlynur Atli á miðjunni, Indriði Áki og Helgi á köntunum. Bubalo og Guðmundur frammi. Ekkert óvænt sem sagt.

Það var blautt, hálfkalt og völlurinn þungur. Áhorfendur voru með allra fæsta móti. Okkar fólk þögult og íhugult að vanda, en Þróttararnir glaðværari. Ekkert óvænt þar heldur.

Það tók Þrótt rúmar tíu mínútur að ná forystunni, eftir klaufaskap í vörn og markvörslu Framara. Eftir aðrar tíu mínútur var staðan orðin 2:0 fyrir gestina, sem hefðu hæglega getað verið komnir í þrjú mörk þegar þar var komið sögu. Varnarmenn Fram voru hálfsofandi í öllum sóknunum.

Áður en flautað var til leikhlés höfðu Framarar átt skot í stöng og Þróttarar komið knettinum í slánna á okkar marki. Að auki áttu bæði lið nokkur hálffæri. Þessi mikli fjöldi færa var þí fremur til marks um kæruleysi í varnarleik en stjörnuframmistöðu sóknamanna beggja liða. Þegar komið var fram í uppbótartíma fyrri hálfleiks virtist allt ætla að sjóða upp úr þegar leikmenn Fram náðu tveimur ansi kröftugum tæklingum. Lítið hefði verið hægt að segja við því ef Högni hefði fengið rauða spjaldið í þeim æfingum.

Metnaðarleysið inni á vellinum var rækilega bætt upp í stuðningsmannakaffinu, þar sem boðið var upp á ljúffengar vöfflur og óvenju vont kaffi. Vont kaffi gegnir sama hlutverki á íslenskum fótboltavöllum og ORA-grænar baunir í veisluhaldi. Það væri einfaldlega kjánalegt að horfa á fótbolta með sælkerakaffiblöndu í pappamálinu. Hér gildir sú einfalda regla: því verra – því betra.

Orra var skipt útaf fyrir Alex í byrjun seinni hálfleiks. Alex kom inn á miðjuna og við skiptum yfir í þriggja manna vörn. Það hefði verið fínt ef við værum einhverjir menn í að spila þá leikaðferð. Fimm mínútum síðar lá boltinn enn og aftur í Framnetinu og enn eftir ósannfærandi varnarleik, 0:3.

Eftir því sem leið á seinni hálfleikinn tókst Frömurum að færa sig örlítið framar á völlinn. Þunglamalegir miðverðir Þróttar áttu þó ekki í miklum vandræðum með að brjóta tilraunir okkar á bak aftur. Guðmundur náði að koma sér í fáein færi, en lítið kom út úr þeim. Almennt séð einkenndist sóknarleikurinn af alltof mörgum einföldum sendingum sem misheppnuðust á fremsta þriðjungi vallarins.

„Þeir eru alltaf að fara að skora fjórða markið í lokin“, sagði bölsýnn fréttaritari Fram-vefsins, við sessunauta sína. Og auðvitað stóð það heima. Slök hornspyrna Þróttara í uppbótartíma hrökk einhvern veginn af Sveinbirni Jónassyni og í netið. (Hvað eru eiginlega mörg ár síðan hann var í Fram? – Og þótti hundgamall þá!)

Þegar tuttugu mínútur voru eftir kom Brynjar inná fyrir Hlyn Atla. Þriðja skiptingin var ekki nýtt, ekki einu sinni til að gefa ungum strákum af bekknum nokkrar mínútur. Gaman hefði verið að sjá fleiri slík andlit inni á vellinum í dag og það jafnvel í byrjunarliði – erfitt er í það minnsta að sjá að munurinn hefði orðið mikið meiri.

Dapurleg lok á döpru tímabili. Fram hafnaði í níunda sæti. Þremur sætum neðar en í fyrra og með þremur stigum minna. Það er ekki gott. En núna er þessum hring lokið. Við tökum okkur 1-2 mánuði í að reyna að skilja reglurnar í handbolta eða leitum athvarfs í útlensku fótboltaglápi. Í desember byrjar svo næsti hringur með æfingaleikjum í Egilshöll á fáránlegum tímum og við gamla fólkið á áhorfendapöllunum þurfum væntanlega að leggja á minnið gommu af nýjum nöfnum. Bless í bili.

Stefán Pálsson

 

 

 

 

 

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email