fbpx
Meistaraflokkur 2020

Kveðja til Framara að loknu tímabili 2020

Kæru Framarar

Við leikmenn, þjálfarar, starfsmenn, sjálfboðaliðar og aðrir sem stöndum að meistaraflokki karla í knattspyrnu deilum með ykkur vonbrigðum á hvernig tímabilið endaði og að hafa ekki fengið tækifæri á að klára það og koma okkur upp í efstu deild.

Við höfum allt tímabilið talað um að það þýðir ekki að velta sér upp úr einhverju sem ef og hefði og höfum þannig ekki verið að horfa í baksýnisspegilinn heldur FRAM veginn. Vissulega þarf maður að skoða hvað gekk illa og vinna í að laga það. Við höfum hins vegar lagt meiri áherslu á í hverju erum við góðir, hvað gerum við vel og hvernig getum við aukið gæðin og nýtt styrkleikana betur í næsta leik eða leikjum.

Þetta tímabil hefur verið gífurlega erfitt og krefjandi í fordæmalausum aðstæðum. Öll þessi stopp, tafir, óvissa og leikjaálag kröfðust mikils aga og styrks sem við vissulega sýndum. Fyrst og fremst erum við stolt af viljanum, ákefðinni og jákvæðninni sem leikmannahópurinn sýndi í ár í þessum aðstæðum og erum viss um að það er það sem mun skila okkur upp í efstu deild. Þá er einnig til staðar í þessum hóp góður grunnur, breidd, gæði og efni ekki bara til að koma liðinu upp úr 1. deild heldur til að standa sig vel í deild þeirra bestu.

Það er þó ekki bara liðið sem gleður síðast liðin tvö ár. Við sem stöndum að liðinu ásamt leikmönnum finnum virkilega fyrir stuðningi Framara og að félagið er að vakna til lífsins á jákvæðan hátt. Gerum okkur grein fyrir þeim forréttindum sem við njótum þegar við göngum inn á völlinn í glæsilegasta búningi landsins sem fulltrúar allra þeirra sem styðja FRAM og okkar glæsilegu rúmlega hundrað ára sögu. Okkar markmið er alltaf að vera verðugir fulltrúar stoltra stuðningsmanna FRAM með leik okkar.

Nú er þessu tímabili lokið (kannski) FRAMundan er stutt hvíld áður en undirbúningur fyrir 2021 hefst. Einhverjar breytingar verða á hópnum en þó munum við halda megninu af okkar leikmönnum. Á þessari stundu er ljóst að Unnar og Hilmar munu hverfa á braut og verður þeirra sárt saknað en eru alltaf velkomnir aftur í FRAM. Samningar við flesta af okkar leikmönnum hafa verið kláraðir eða eru á lokametrunum. Þá erum við í viðræðum um framhald á lánssamningum við Aron K. og Tryggva og að sama skapi hvort við getum haldið Kyle „Air Force One“ McLagan. Líklegt er að einhverjir muni hverfa á braut og aðrir bætast við en þetta skýrist mikið á næstu vikum.

Þrátt fyrir að þetta tímabil endaði fyrir okkur á ósanngjarnan hátt er ekkert annað í boði en að halda áFRAM.

FRAMtíðin er björt og ljóst að grunnurinn er til staðar bæði innan vallar og utan til að koma FRAM þangað sem það á að vera.

Sjáumst á vellinum, ÁFRAM FRAM

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email