Þegar ég flutti til Reykjavíkur frá Ísafirði skömmu fyrir aldamótin síðustu, áttaði ég mig á því að ég gæti mögulega keypt mér miða á leiki Fram og séð í fyrsta skipti leikmennina með berum augum. Goðsagnir á borð við Steinar Guðgeirsson og Ásmund Arnarsson og ætli varnarjaxlinn Jón Sveinsson sé tröll að vexti? Þetta yrði auðvitað heilmikil tímamót því ég hafði í raun ekki séð neinn Framara yfirleitt með berum augum og því síður stuðningsmenn Fram. Ég man ekki eftir neinum á Stór-Hnífsdalssvæðinu í bláum búningi. Mér leið alltaf pínu eins og rauð-latex klædda hommanum í Little Britain sem var upptekinn að því að vera “the only gay in the village“. Mér leið nákvæmlega eins … eða svona næstum því.
Ætli það hafi ekki verið ljúfmennið og handboltatröllið Siggi Svavars (blessuð sé minning hans) sem var fyrstur Framara á vegi mínum. Þá var ég starfsmaður í Bókabúð Máls og menningar við Laugaveg og hann einn yfirmanna þar. Það var ekki leiðinlegt að vera í hvítbók Sigga sem stuðningsmaður Fram. Ég hóf skömmu síðar að stunda Laugardalsvöllinn, mér þótti það auðvitað virkilega tilkomumikill heimavöllur minna manna. Ég skemmti mér alltaf dável, þrátt fyrir að vera alltaf einn, þekkti engan í stúkunni (fyrir utan tímabilið þegar Hannes stóð í marki okkar manna, þá komu vinir mínir Jón og Anna oft með mér en ég komst að því síðar að þau voru bæði mjög skotin í Hannesi og hættu að mæta þegar hann fór til KR). Ég upplifði æði misjafnt gengi minna manna frá því ég fór að mæta á leikina. Ég hef svona velt því fyrir mér hvort þetta gæti verið mér að kenna. Leiðin hefur verið meira niður á við eftir að ég fór að venja komur mínar og sjá Fram í beinni. Og þegar ég fer að hugsa það þá eiginlega hrundi Mál og menning líka skömmu eftir að ég stimplaði mig þar inn. Vaka Helgafell fór á hausinn, Björgúlfur og Hafskipsvinir hans kaupa fyrirtækið, gamla bókmenntafélagið missir Rúbluna við Laugaveg 18 svo fór að fjara allverulega undan Máli og menningu. Þetta gæti allt eins verið ég. Þetta er mér að kenna. Ég tek þetta á mig!
Mér líður annars alls ekki eins og ég hafi setið af mér einhverja refsivist síðustu árin eins og kannski einhverjum. Þó svo að Fram hafi verið í einhvers konar lægð í Inkasso og Lengjudeildum þessi misseri og aldrei átt alvöru heimavöll. Auðvitað er þetta viss lægð miðað við gullaldarárin á níunda áratugnum en það er stundum svo gott að komast á botninn til þess að upplifa leiðina upp á við. Sígandi lukka er best. Fyrir mitt leyti hef ég náð að bæta upplifun mína á því að vera Framari til muna síðustu tvö ár. Ég hef nefnilega fengið að bragða, nánast í fyrsta skipti, á því að vera partur af liðsheild. Eins og ég hlakka til að sjá uppvöxtinn í Úlfarsárdal þá er ég gríðarlega þakklátur að hafa febgið að kynnast Safamýrinni. Og núna á fimmtudagskvöldið síðasta var upplifunin útþanin. Að ferðast með troðfullri Fram-rútu (að vísu bara 17 manna) til Selfoss, þar sem valinn Framari var í hverju sæti. Algjör draumur!
Jæja, ég er kominn útaf sporinu – ég ætlaði mér bara rétt að dekka fjarvist okkar allra besta Stefáns Pálssonar með leikskýrsluna. Liðið var svona skipað í rútunni; við stýrið var Barði og honum til halds og trausts voru bræðurnir Baldvin og Birgir. Þétt þeim að baki var undirritaður og myndlistarmaðurinn Loji Höskuldsson úr Framara-hverfinu sem hefur duglegur að koma með mér á leiki Fram síðustu árin. Um miðja rútu og aftur á síðasta bekk var snillingagallerí mikið.; Ingvar, Pétur Jóhannes, sómadrengirnir Skúli og Hallgrímur Helgasynir ásamt Ara, Sigurður Freyr, Vilhjálmur, Þorsteinn, Valtýr Már og Alexander Berg. Með í för voru páku- og sneriltromma, hristur og nokkrir kjuðar. Sami mannskapur fór með rútunni til baka nema að það var eitt sæti laust. Vonandi er var enginn Geiramaður eftir fyrir austan fjall.
Lið Fram var óbreytt frá síðustu leikjum; Óli í markinu, Kyle og Gunnar aftast, Halli og Alex bakverðir. Aron Þórður og Indriði á miðjunni, Tryggvi og Fred á sitthvorum kantinum, Albert fyrir framan og Þórir fremst. Geggjaður mannskapur og það sem gerir þetta enn betra er sá mannskapur sem við höfum á bekknum og í teyminu. Það er mikil breidd sem við búum yfir og þó svo að við gætum tekið út einstaka leikmenn og hrósað þá er ekki hægt annað en að hrósa liðsheildinni. Það er einstakur liðsandi, aðdáunarverð einbeiting í hópnum og ákefð nánast fram á síðustu mínútu. Það eru allir að leggja sig fram, það sést greinilega og afraksturinn eftir því.
Það má orða það þannig að Framarar hafi mætt afar tilbúnir í þennan leik, menn voru búnir að hífa upp sokkana duglega og eftir stöðugan tíu mínútna sambabolta kom fyrsta markið. Tryggvi sendir boltann fyrir og Fred með klippu í bláhornið. Geggjað mark og tónninn gefinn. Áður en fyrri hálfleik lauk hafði Fred skorað annað mark og þægileg tveggja marka forrusta í hléi. Eftir ágætis kaffibolla voru Geiramenn og -konur eins og leikmenn tilbúin í seinni hálfleikinn. Það voru ekki liðnar nema um fimm mínútur þegar Albert okkar Hafsteinsson skoraði eftir góðan undirbúning Indriða og Fred. Áður en yfir lauk hafði Guðmundur Magnússon bætt við fjórða marki Framara úr vítaspyrnu en Gummi fagnaði þrjátíu ára afmæli sínu þennan dag. Ekki amaleg afmælisveisla þetta. Fram var einfaldlega mun betra liðið í þessum leik, verðskuldaður 4-0 sigur og ef okkar menn spila af sömu einbeitingu, sömu ákefð og sem þessi öfluga liðsheild sem eftir lifir sumars – þá verður endalaust gaman að fylgjast með.
Það voru ekki bara leikmenn og liðsstjórn sem voru reddí, stuðningsfólkið í stúkunni á Já Verk vellinum var búið að reima harkalega á sig skóna og hífa upp sokka og buxur. Já verk völlurinn lét undan GG Verk krökkunum úr Sambamýrinni. Það vantaði enn kortér í að dómarar flautuðu leikinn af stað þegar helstu söngvar fengu að heyrast úr stúkunni. Lög eins og „Við erum Framarar, við erum Geiramenn. Við viljum vinna, við viljum skora …“, „Guðmundur Magnússon, Guðmundur Magnússon, Guðmundur Magnússon … „(sungið við La donna è mobile úr Rigoletto eftir Verdi), salsaþemað hans Fred „búmm tiss, búmm tiss, búmm tiss FRED!” og hinn nýi uppáhaldssöngur okkar „Hver er mamma þín? Albert Hafsteinsson! Hver er pabbi þinn? Albert Hafsteinsson” (sungið við lagið
Chirpy Chirpy Cheep Cheep með skosku sveitinni Middle of the Road).” En hið síðastnefnda er gróflega stolið úr herbúðum fyrrum Evrópumeistara í Mýrarbolta, FC Karaoke frá Ísafirði.
Ef þessi stemming heldur áfram verðum við Framarar ekki bara ógnvekjandi góðir inni á vellinum heldur líka óþolandi skemmtileg í stúkunni. Við verðum svona hressandi fyndin og skemmtilegt stuðningsfólk eins og Gunni samloka hjá Ólafsvíkingum og Sóli Hólm og Jón Ólafs úr herbúðum Þróttara … nema að munurinn á okkur og þeim væri að við erum með fáránlega gott knattspyrnulið! Sko! Þarna kom það. Ég er búinn að skemma þetta, búinn að djinxa. Þetta er mér að kenna. Ég tek þetta á mig!
Sjáumst í Sambamýrinni miðvikudaginn 16. júní og sem betur fer mætir hirðskrásetjarinn okkar á þann leik … og gott betur! Við mætum öll á bjórsinfóníuna hans Stefáns og tökum einnig vel á móti Kötturum það kvöld.
– Kristján Freyr