Byrjum á að monta okkur aðeins varðandi tölfræði… Frá 1978 til 2006 var keppt með tíu liða deild í næstefstu deild á Íslandi. Á fyrri hluta þessa tímabils voru tvö stig gefin fyrir sigur en ekki þrjú – en auðvelt er að reikna fyrir þeirri breytingu… Eftir 17 umferðir af Íslandsmótinu hefur Knattspyrnufélagið Fram nú fengið 47 stig, sem er stiginu meira sögufrægt meistaralið KA árið 1980 með markakóngana Óskar Ingimarsson og Gunnar Gíslason. Hvort einhver kapplið frá 2006 til okkar daga hafi náð betri árangri í 18 fyrstu umferðunum skal ekkert fullyrt um. Fréttaritari Framsíðunnar er mögulega á einhverju rófi en hann er ekki snar…
Fram mætti Selfossi í leik gærkvöldsins í Lengjudeildinni. Fyrirfram var langsóttur möguleiki á að dregið gæti til stórtíðinda þetta kvöld. Sigur Framara og ósigur Kórdrengja á útivelli gegn Gróttu tryggði Frömurum sætið eftirsótta – en furðuleg meðvirkni með kröfunni um að hugsa bara einn leik í einu gerði það að verkum að flestir leiddu hjá sér möguleikann.
Fréttaritarinn mætti glaðbeittur í fínumannaboðið í Sambamýri klukkutíma fyrir leik. Af því að hann er vænisjúkur og hlustar um of á fábjánana sem stýra vedur.is var fína appelsínugula vestið skilið eftir heima en gamall úlpuræfill gripinn með ásamt títtnefndri grétti ullarpeysu. Á ekkert af þessu reyndi enda var bongóblíða á vellinum og úrkoma engin.
Jón Sveinsson var mættur í fínumannasamkvæmið klukkutíma fyrir leik og gerði grein fyrir liðsuppstillingunni. Honum fannst spjallið við stuðningsmannahópinn jafnóþægilegt og vandræðalegt og í öll hin skiptin. Hvers vegna Aðalsteini aðstoðarþjálfara er ekki falið þetta verkefni er mér hulin ráðgáta. En Nonni upplýsti þó að Gunnar og Alex væru fjarri góðu gamni vegna leikbanns – og þeir Már og Óskar væru látnir víkja frá leiknum gegn Vestra á meðan Albert og Aron Þórður sneru aftur auk þess sem Haraldur kæmi á ný í vörnina og Alexander byrjaði sömuleiðis.
Liðsuppstillingin var annars fyrirsjánleg: Ólafur í marki, Kyle og Hlynur í miðvörðum, Halli og Matti í bakvörðum. Aron Þórður á miðjunni með Alexander fyrir framan sig og Albert í óskilgreindu hlutverki fremst á miðjunni. Indriði og Fred hvor á sínum kanti og Þórir uppi á toppi. Fréttaritarinn og skjaldsveinninn sauðtryggi, Valur Norðri, fengu úthlutað sætum við hliðina á myndatökumanni Lengjudeildarsjónvarpsins á besta stað sem vera bar.
Selfyssingar mættu til leiks eins og dæmdir menn. Lið þeirra er rétt fyrir ofan botninn og fátt virðist koma þeim til bjargar annað en vonleysi Þróttara. Í allt sumar hefur fréttaritarinn ekki séð neitt lið mæta í Safamýrina jafnsannfært um að tap sé óhjákvæmilegt.
Dagskipunin hjá Fram var greinilega að pressa frá fyrstu mínútu og skora snemma. Og það tókst. Eftir um þriggja mínútna leik flaug langt innkast inn í teiginn sem varamarkvörður Selfyssinga, sem byrjaði leikinn, átti í einhverjum vandræðum með og Alexander virtist sópa boltanum í netið með annarri rasskinninni. Ekki virðulegasta markið, en þau telja öll. 1:0.
Með þessa skyndilegu forystu gátu áhorfendur hallað sér rólegir aftur. Markafleygurinn góði var reyndar ryðgaður aftur vegna notkunarleysis á liðnum vikum en það var ekkert sem skámmtur af WD40 gat ekki lagað. Innihaldið var skemmtileg blanda að Islay og Lowland sem skilaði sínu hlutverki vel.
Nonni og Aðalsteinn eru snillingar í að greina veikustu bletti mótherjanna og skipuleggja árásir á þá staði. Að þessu sinni varð annar bakvörður Selfyssinga fyrir valinu og Framarar sóttu linnulaust upp þann kantinn, þar sem Haraldur átti hverja sendinguna á fætur annarri inn í teiginn. Flottur samleikur hjá Albert og Fred gaf næstum því mark eftir tæpt kortér, en hvít- og ljósbláklæddir gestirnir björguðu í horn.
Eftir eina sóknarlotuna tókst Selfyssingum að vinna boltann og geystust í skyndisókn, sem fjaraði út þegar fimm Framarar voru komnir til baka á móti einum fulltrúa sveitarfélagsins Árborgar, sem er til marks um hvað allt liðið var vel á tánum. Skemmtilegast var þó að fylgjast með því hvað Aron Þórður var út um allt á vellinum. Maður leiksins að mati skýrsluhöfundar.
Alltof langt mál væri að rekja í smáatriðum færasúpuna fram að leikhléi, en samkvæmt minnisblöðunum óbrigðulu fékk Fram tíu færi eða hálffæri sem vert þótti að færa í letur en Selfoss ekkert. Yfirburðirnir algjörir og glaðbeittir áhorfendur gátu leyft sér að gjóa í sívaxandi mæli augunum á úrslitasíður í símunum sínum. Og sjá! Gróttumenn voru komnir yfir gegn Kórdrengjum. Yndislegt fólk Seltirningar!
Það var ekkert kaffi í hléi og engar harðar tebollur. Enginn kvartaði samt enda stærri og meiri kræsingar í boði á vellinum og úrvalsdeildarsæti í hillingum.
Dean Martin hefur messað yfir sínum mönnum í hléi. Í það minnsta komu þeir öllu ákveðnari til leiks í seinni hálfleik. Fyrsta sókn þeirra sem náði máli var eftir um 48. mínútna leik þar sem Gary Martin braust í gegn en Óli varði vel. Eftir sem áður voru allar bestu sóknarloturnar Framara. Fred fékk dauðafæri á 50. mínútu en gestirnir náðu að verjast. Það tókst þeim hins vegar ekki fimm mínútum síðar þegar Matthías grýtti inn einu af sínum löngu innköstum, Kyle skallaði og boltinn virtist ætla að lenda vandræðalítið í lúkunum á markverðinum, sem missti hann einhvern veginn frá sér og Indriði potaði í netið. 2:0 og bæði mörkin álíka óvirðuleg.
Beint í kjölfarið á þessu virtist Fred ætla að bæta við þriðja markinu en skot hans úr dauðafæri söng í hliðarnetinu. Hófst þá tími skiptinga í leiknum. Fyrst kom Már inná fyrir Albert. Framarar héldu áfram að sækja. Fred fékk hvert færið á fætur öðru og var greinilega staðráðinn í að skora sjálfur frekar en að gera einhverja vitleysu eins og að senda á liðsfélaga. Þegar seinni hálfleikur var akkúratt hálfnaður kom svo tvöföld skipting, þar sem Þórir og Indriði fóru af velli en Gummi og Danny komu inná. Ekkert skrítið við það. Leikurinn unninn á heita mátti og stutt í næsta leik.
Einhvern veginn virtist breytingin þó riðla leik okkar manna sem virtust missa dampinn. Fram missti boltann á miðjunni og Gary Martin rauk upp og vippaði loks snyrtilega yfir Óla í markinu. Mjög smekklega gert, einkum í ljósi þess að Geiramenn voru nýbúnir að benda Gary kurteislega á að hann væri örþreyttur.
Við markið komst fát á Framliðið og næstu mínúturnar fengu Selfyssingar fáein hálffæri. Skjálftinn hvarf eftir nokkrar mínútur og síðasta kortérið höfðu Framarar aftur yfirhöndina. Danny átti fína sendingu á Fred sem skaut naumlega yfir. Aron Þórður fór af velli fyrir Óskar, sem fékk hrós frá trymbli Geiramanna fyrir frábært nafn. Í sömu andrá jöfnuðu Kórdrengir á Seltjarnarnesinu og fagnaðarlæti voru sett á ís í bili.
Dómarar lengjudeildarinnar virðast hafa tekið þann pól í hæðina eftir að Albert klúðraði vítinu á móti Vestmannaeyjum að Fram eigi ekki skilið að fá fleiri víti í sumar. Harsh but fair. Selfyssingar komust því upp með að hrinda Alexander á hinn fruntalegasta hátt en hann uppskar aðeins hornspyrnu. Síðustu mínúturnar hugsuðu okkar menn svo ekki um margt annað en að láta tímann líða. Flautað var til leiksloka og við tók kostuleg sena þar leikmenn röðuðu sér umhverfis farsímaskjá og biðu fregna frá Seltjarnarnesi þaðan sem heimamenn höfðu komist yfir á ný. Seltjarnarnes er töluvert vestar en Sambamýri og því nokkrum mínútum á eftir í tíma en loks barst tilkynningin um að leiknum væri lokið og tryllt fagnaðarlæti brutust út með móður allra ziggi-zagga.
Knattspyrnufélagið Fram á vitaskuld kassa sem hægt er að grípa til í neyð ef titlar vinnast eða slá þarf upp partýi með skömmum fyrirvara. Vondu fréttirnar eru að sá kassi var útbúinn snemma á tíunda áratugnum, svo púðrið var orðið dauft í knöllunum og kampavínið orðið alltof dýrmætt til að verjandi væri að opna það á fimmtudagskvöldi. Strikið var því tekið á Ölver (sem kann að skýra seina birtingu á leikskýrslunni). Þar var rækilega skálað og grátið yfir textavarpinu og hlustað óþarflega mikið á Robbie Williams. (Leikmenn Fram eru góðir piltar, en enginn skyldi ráða þá sem plötusnúða!)
Næsta stopp er Laugardalurinn og Þróttur. Við höfum ýmis stigamet sem þarf að bæta.
Og já, meðan ég man: við meintum ekkert með þessari fáránlegu hugmynd um fjórtán liða úrvalsdeild…
Stefán Pálsson